
The News Where You Are er kómískari (á tragíkómískan máta þó) og ekki jafn stingandi sár, en hún er vel skrifuð og aftur þessi sanni strengur í persónunum. Í þetta sinn er aðalpersónan sjónvarpsfréttaþulur að nafni Frank Allcroft. Frank er rúmlega fertugur og hefur alltaf upplifað sig sem einhvers konar miðlungsmann; hann er í svæðisfréttunum á Midlands-svæðinu (þaðan kemur titill bókarinnar en þegar skipt er úr aðalfréttatíma yfir í svæðisfréttir í bresku sjónvarpi er gjarnan sagt: "And now, the news where you are") og býr rétt fyrir utan Birmingham en hefur sterka tengingu við borgina í gegnum föður sinn heitinn sem var einn af arkitektunum sem settu mark sitt á borgina upp úr miðri síðustu öld. Forveri Franks í starfi - vinsæll með eindæmum - lést þegar ekið var á hann við undarlegar aðstæður og Frank verður smám saman heltekinn af ráðgátunni um andlátið þrátt fyrir að enginn annar sjái neitt dularfullt við atvik þetta. Brotin raðast saman eitt af öðru og þótt Frank sé í öndvegi fáum við einnig að kynnast sjónarhorni hins látna kollega sem og einstæðings sem fannst látinn á bekk í almenningsgarði. Frank er nefnilega líka heltekinn af þeim sem deyja einir, þeim sem daga uppi án þess að það snerti nokkurn.
![]() |
Hér má sjá borgarbókasafnið í Birmingham sem hefur verið smekklega komið fyrir á þessu torgi |
Í báðum bókunum er það Birmingham sem er leiksviðið, næststærsta borg Bretlandseyja . Án þess að ég vilji særa hér einhvern unnanda þessarar ágætu borgar þá er Birmingham ekki fallegasti staður sem ég hef heimsótt; ég held ég verði að lýsa henni sem minnst sjarmerandi borg sem ég hef komið til í Bretlandi, eða í það minnsta vermir hún botnsætið ásamt Stoke-on-Trent þar sem óhamingjan lýsir úr andlitum íbúanna (ókei, ég ýki, eða kannski ekki). Það er eitthvað yfirþyrmandi GRÁTT við Birmingham. Í augum aðkomumanneskju virðist borgin full af umferðarmannvirkjum, mislægum gatnamótaflækjum, stórum og þunglamalegum byggingum úr grárri steinsteypu. Það er einhvern veginn ekkert andrými, ekkert létt, ekkert bjart, ekkert lífrænt. Og það er undarlegt í stórborg þar sem til dæmis býr fólk frá öllum heimsálfum. Vesalings Birmingham hefur oftar en einu sinni verið kosin ljótasta borg landsins.
Catherine O'Flynn er heimaborgin greinilega hugleikin sem og borgarmyndin/borgarsamfélagið í stærra samhengi sem má vissulega heimfæra upp á vestur-evrópska borgarsamfélagið almennt. Í What Was Lost skoðar hún þróun almenningsrýmisins og hvernig verslun færðist frá "local" verslunum í íbúðahverfum yfir í stórar einingar sem gjarnan eru staðsettar fyrir utan kjarnann. Móðir öryggisvarðarins Kurts þrjóskast við og verslar enn í hverfinu sínu eins og nokkrir aðrir eldriborgarar en það er orðið hættulegt; þar er hún berskjaldað skotmark.

Í bókinni er skemmtileg sena þar sem því er lýst hvernig viðskiptavinir í Your Music ferðast af og til óvart á milli þessara tveggja rýma, rjúfa vegginn fyrir misgáning. Í versluninni er lyfta sem á það til að taka stjórnina og hunsa skipanir - hrapa skyndilega niður lyftugöngin með æpandi viðskiptavini innanborðs og grúfa sig þar niður eins lengi og henni sýnist. Það gerist líka stundum að starfsfólk kallar á lyftuna upp á sjöttu hæð, þar sem lagerinn er, og grunlausir viðskiptavinir eru fluttir upp úr versluninni sjálfri og alla leið upp: "Usually they would gasp or scream in horror as the lift door opened to reveal that they had somehow been taken off-map to somewhere they should not be. Occasionally, however, one would disembark, oblivious to the breeze-block walls, cardboard boxes, shrinkwrap machines and lack of all shop-floor signifiers. They would make their way through the stockroom, absently looking about them for Touch of Frost videos, and become aggressive when staff attempted to herd them back into the lift." (bls. 90-91)
Á stundum er verslanamiðstöðinni lýst sem einhvers konar draugahúsi eða jafnvel limbói þar sem glataðar sálir reika um; frásögnin er brotin upp með hugsunum ónefndra viðskiptavina (t.d. Anonymous Male, Unit 300-380 Marks & Spencer), eins og sjálf byggingin sé að hlera hugsanir þeirra eða ef til vill litla telpan sem fer um gangana.

Í The News Where You Are er það hins vegar miðborg Birmingham sem höfundurinn skoðar. Frank Allcroft á í flóknu sambandi við byggingar föður síns sem þegar sagan hefst hafa allar verið rifnar nema ein. Allcroft arkitekt var af þeirri kynslóð sem vildi henda því gamla út og byggja það sem þá þótti nútímalegt - hann reisti gríðarleg bákn í stað viktoríönsku húsanna sem áður höfðu einkennt miðborgina. O'Flynn skrifar hann inn í raunverulegt umhverfi - það var einmitt þetta sem gert var í Birmingham (og mun víðar) og það eru einmitt þessar byggingar sem nú sæta harðri fagurfræði- og jafnvel félagslegri gagnrýni; mikið af byggingum frá síðustu öld er einmitt verið að rífa niður víða um Bretland. Frank er allt öðruvísi innréttaður en faðirinn; það er fólkið sem byggir borgina sem heillar hann. Við fáum að fylgjast með Frank á barnsaldri þar sem hann skoðar arkitektamódel föður síns og hefur langmestan áhuga á andlitslausu fígúrunum sem er stillt upp á teikningunum. Engu að síður berst hann fyrir því að síðasta bygging Allcroft eldri verði ekki rifin; hann á erfitt með að kyngja þeirri afstöðu að hús séu sífelld byggð og rifin sitt á hvað, eins og hafa verið örlög stórra svæða í Birmingham.
Annars þráður í þessum borgarhugleiðingum O'Flynn eru svo einstæðingarnir sem hverfa inn í fjöldann og einangrast í mannhafinu. Hún veltir upp hugmyndum um tengsl þess við sjálfan borgarstrúktúrinn og eins og í fyrri bók hennar setur hún ekki fram einfaldar, konkret niðurstöður heldur vekur lesandann miklu fremur til umhugsunar, eins og sést á þessum ógurlega langa bloggpistli sem er best að setja púnkt aftan við núna.
En semsagt: Ég mæli sannarlega með Catherine O'Flynn og vonast eftir að fá nýja bók eftir hana í hendurnar í ekki of fjarlægri framtíð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli