4. nóvember 2012

Einmana sálir í ljótfallegri borg

Fyrir tæpum sex árum síðan kom út í Bretlandi fyrsta bók höfundarins Catherine O'Flynn, What Was Lost. Bókin kom út hjá litlu forlagi í Birmingham - O'Flynn hafði gengið á milli umboðsmanna og forlaga með handritið sitt áður en þau hjá Tindal Street Press tóku hana upp á arma sína. Það er skemmst frá því að segja að skáldsaga þessi var óvænti smellurinn í bresku bókmenntalífi árið 2007; O'Flynn hreppti verðlaun fyrir bestu frumraunina hjá Costa Book Awards og var tilnefnd til Booker-verðlaunanna sem og Orange-verðlaunanna, svo eitthvað sé nefnt. Það hefur væntanlega ekki verið árennilegt fyrir höfundinn að fylgja þessum gríðarlega sökksess eftir, en rúmlega þremur árum eftir útkomu What Was Lost birtist önnur skáldsaga O'Flynn, The News Where You Are. Ég nældi mér í hana í Oxfam á Byres Road í Glasgow nú í haust (mæli með þeirri bókabúð fyrir þá sem koma til Glasgow og hafa gaman af second hand-bókabúðum með góðu úrvali) og las í kjölfarið What Was Lost, sem ég hafði gefið mömmu minni í jólagjöf fyrir mörgum árum og lengi ætlað að lesa sjálf.

 Ég ætla mér í rauninni ekki að skrifa eiginlega krítík um skáldsögurnar tvær eða lýsa söguþræðinum í löngu máli heldur langar mig að draga fram og íhuga einn af þeim vinklum sem mér þótti hvað áhugaverðastur þegar ég las þessar tvær bækur svona í einni bunu. Stuttlega samt um söguþráð beggja: What Was Lost gerist annars vegar árið 1984 og hins vegar árið 2003; sögusviðið er Birmingham og þá sérstaklega verslanamiðstöðin Green Oaks sem er nýrisin þegar sagan hefst. Við kynnumst Kate Meaney, tíu ára gamalli foreldralausri telpu sem eyðir frístundum sínum við spæjarastörf í verslanamiðstöðinni með aðstoð bókarinnar How to Be a Detective. Árið 2003 finnur Lisa sem er aðstoðarverslunarstjóri í steingeldri tónlistar- og myndbandakeðju velktan tuskuapa í grámóskulegu rangölunum sem teygja sig um miðstöðina alla. Öryggisvörðurinn Kurt sér lítilli telpu bregða fyrir í öryggismyndavélunum en grípur í tómt þegar hann reynir að finna barnið og koma því til hjálpar. Bókin fjallar um einmanaleika, um vítahringina sem fólk festist í gagnvart sjálfu sér og öðrum, um svör sem finnast ekki því réttu spurningarnar hafa ekki verið bornar upp. Mögnuð bók og persónusköpunin eftirminnileg; þrátt fyrir þung, jafnvel sár umfjöllunarefni er líka húmor í sögunni og persónurnar eru aldrei vonlaus fórnarlömb heldur er í kjarna textans sterkur vonarneisti og möguleiki á að þetta einmana fólk nái að mynda raunveruleg tengsl. Ég skil afar vel að þessi bók hafi vakið svona mikla athygli, og fæ eiginlega í magann fyrir hönd Catherine O'Flynn þegar ég hugsa um það hvernig henni gæti hafa liðið að senda frá sér aðra bók við allt aðrar aðstæður en í fyrra skiptið. The News Where You Are er hins vegar virkilega fín bók; hún hafði ekki jafn sterk áhrif á mig og What Was Lost enda er lagt upp með allt annan tón.

The News Where You Are er kómískari (á tragíkómískan máta þó) og ekki jafn stingandi sár, en hún er vel skrifuð og aftur þessi sanni strengur í persónunum. Í þetta sinn er aðalpersónan sjónvarpsfréttaþulur að nafni Frank Allcroft. Frank er rúmlega fertugur og hefur alltaf upplifað sig sem einhvers konar miðlungsmann; hann er í svæðisfréttunum á Midlands-svæðinu (þaðan kemur titill bókarinnar en þegar skipt er úr aðalfréttatíma yfir í svæðisfréttir í bresku sjónvarpi er gjarnan sagt: "And now, the news where you are") og býr rétt fyrir utan Birmingham en hefur sterka tengingu við borgina í gegnum föður sinn heitinn sem var einn af arkitektunum sem settu mark sitt á borgina upp úr miðri síðustu öld. Forveri Franks í starfi - vinsæll með eindæmum - lést þegar ekið var á hann við undarlegar aðstæður og Frank verður smám saman heltekinn af ráðgátunni um andlátið þrátt fyrir að enginn annar sjái neitt dularfullt við atvik þetta. Brotin raðast saman eitt af öðru og þótt Frank sé í öndvegi fáum við einnig að kynnast sjónarhorni hins látna kollega sem og einstæðings sem fannst látinn á bekk í almenningsgarði. Frank er nefnilega líka heltekinn af þeim sem deyja einir, þeim sem daga uppi án þess að það snerti nokkurn.

Hér má sjá borgarbókasafnið í Birmingham
sem hefur verið smekklega komið fyrir á þessu torgi
Sá rauði þráður sem öðru fremur tengir bækurnar tvær er borgarlandslagið - borgarlandslagið og firringin sem leggst yfir þegar byggingar eru ekki í tengslum við fólkið sem á að blása lífi í þær.
Í báðum bókunum er það Birmingham sem er leiksviðið, næststærsta borg Bretlandseyja . Án þess að ég vilji særa hér einhvern unnanda þessarar ágætu borgar þá er Birmingham ekki fallegasti staður sem ég hef heimsótt; ég held ég verði að lýsa henni sem minnst sjarmerandi borg sem ég hef komið til í Bretlandi, eða í það minnsta vermir hún botnsætið ásamt Stoke-on-Trent þar sem óhamingjan lýsir úr andlitum íbúanna (ókei, ég ýki, eða kannski ekki). Það er eitthvað yfirþyrmandi GRÁTT við Birmingham. Í augum aðkomumanneskju virðist borgin full af  umferðarmannvirkjum, mislægum gatnamótaflækjum, stórum og þunglamalegum byggingum úr grárri steinsteypu. Það er einhvern veginn ekkert andrými, ekkert létt, ekkert bjart, ekkert lífrænt. Og það er undarlegt í stórborg þar sem til dæmis býr fólk frá öllum heimsálfum. Vesalings Birmingham hefur oftar en einu sinni verið kosin ljótasta borg landsins.

Catherine O'Flynn er heimaborgin greinilega hugleikin sem og borgarmyndin/borgarsamfélagið í stærra samhengi sem má vissulega heimfæra upp á vestur-evrópska borgarsamfélagið almennt. Í What Was Lost skoðar hún þróun almenningsrýmisins og hvernig verslun færðist frá "local" verslunum í íbúðahverfum yfir í stórar einingar sem gjarnan eru staðsettar fyrir utan kjarnann. Móðir öryggisvarðarins Kurts þrjóskast við og verslar enn í hverfinu sínu eins og nokkrir aðrir eldriborgarar en það er orðið hættulegt; þar er hún berskjaldað skotmark.

Green Oaks-verslanamiðstöðin þar sem meginhluti sögunnar gerist er eins og risastór lífvera sem hefur sín eigin lögmál en um leið er hún undarlega dauð; utan við upplýst rýmið þar sem reynt er að lokka viðskiptavini inn í búðir og halda þeim inni í þessari risavöxnu einingu eru óralangir gangar, margir kílómetrar á lengd, þar sem starfsfólkið gengur um, flytur varning inn og út; miðstöðin vex og breytist með árunum, sumir gangarnir liggja ekki neitt heldur enda í steinsteypuvegg eða loftræstistokk og inni í veggjunum eru holrúm, "dead pockets of space". Munurinn á því ytra og því innra er einn af meginþráðum sögunnar: "The key problem with Green Oaks was the gulf between conditions for customers and conditions for staff. The centre was built at a time when the idea of turning a shopping centre into some larger leisure experience was just beginning to gain currency in Europe. The architects and planners of the Mark 2 Green Oaks embraced the idea of creating an unparalleled experience for shoppers - with verdant rest areas, ergonomic seating, light and airy atriums, water features, convenient parking, vast and lavish public toilets. In contrast, staff areas in each store were cramped to allow maximum sales floor footage. Staff facilities were of an extremely low level: few toilets, dark interior areas, outdated and ineffective ventilation and heating, bare breeze-block walls, constant sewage odours and significant rat infestation. The staff felt this apartheid keenly. They read the memos from management requesting that they did not use customer toilets and rest areas, they watched as their car parking area was moved further and further away from the centre, they passed every day from the light-filled atriums to the gloomy service corridors: long, grey tunnels which Lisa used now to reach the back door of her store." (bls. 89-90) Kapítalisminn snýst um að græða peninga, ekki um fólkið sem stendur við kassann.


Í bókinni er skemmtileg sena þar sem því er lýst hvernig viðskiptavinir í Your Music ferðast af og til óvart á milli þessara tveggja rýma, rjúfa vegginn fyrir misgáning. Í versluninni er lyfta sem á það til að taka stjórnina og hunsa skipanir - hrapa skyndilega niður lyftugöngin með æpandi viðskiptavini innanborðs og grúfa sig þar niður eins lengi og henni sýnist. Það gerist líka stundum að starfsfólk kallar á lyftuna upp á sjöttu hæð, þar sem lagerinn er, og grunlausir viðskiptavinir eru fluttir upp úr versluninni sjálfri og alla leið upp: "Usually they would gasp or scream in horror as the lift door opened to reveal that they had somehow been taken off-map to somewhere they should not be. Occasionally, however, one would disembark, oblivious to the breeze-block walls, cardboard boxes, shrinkwrap machines and lack of all shop-floor signifiers. They would make their way through the stockroom, absently looking about them for Touch of Frost videos, and become aggressive when staff attempted to herd them back into the lift." (bls. 90-91)

Á stundum er verslanamiðstöðinni lýst sem einhvers konar draugahúsi eða jafnvel limbói þar sem glataðar sálir reika um; frásögnin er brotin upp með hugsunum ónefndra viðskiptavina (t.d. Anonymous Male, Unit 300-380 Marks & Spencer), eins og sjálf byggingin sé að hlera hugsanir þeirra eða ef til vill litla telpan sem fer um gangana.

Þrátt fyrir að Green Oaks sé firrt og kalt rými, eins og hér hefur verið lýst, fáum við líka að sjá fegurðina sem stingur stundum upp kollinum á óvæntum augnablikum. Lisa og Kurt fara saman að leita að barninu sem hann hefur séð í myndavélunum: "As they glided up the escalators, Lisa found the centre almost beautiful. There was something magical in the vast halls, the half light, the silent motion of the escalators. She bent her head back and looked up through the glass ceiling panels at the black sky above them and saw the blinking wing lights of a plane pass slowly by." (bls. 149) Bókin er nefnilega enginn reiðilestur um verslanamiðstöðvar og nýtt borgarlandslag; hún er dýpri en svo og O'Flynn finnur sig ekki knúna til að kveða upp endanlegan dóm.

Í The News Where You Are er það hins vegar miðborg Birmingham sem höfundurinn skoðar. Frank Allcroft á í flóknu sambandi við byggingar föður síns sem þegar sagan hefst hafa allar verið rifnar nema ein. Allcroft arkitekt var af þeirri kynslóð sem vildi henda því gamla út og byggja það sem þá þótti nútímalegt - hann reisti gríðarleg bákn í stað viktoríönsku húsanna sem áður höfðu einkennt miðborgina. O'Flynn skrifar hann inn í raunverulegt umhverfi - það var einmitt þetta sem gert var í Birmingham (og mun víðar) og það eru einmitt þessar byggingar sem nú sæta harðri fagurfræði- og jafnvel félagslegri gagnrýni; mikið af byggingum frá síðustu öld er einmitt verið að rífa niður víða um Bretland. Frank er allt öðruvísi innréttaður en faðirinn; það er fólkið sem byggir borgina sem heillar hann. Við fáum að fylgjast með Frank á barnsaldri þar sem hann skoðar arkitektamódel föður síns og hefur langmestan áhuga á andlitslausu fígúrunum sem er stillt upp á teikningunum. Engu að síður berst hann fyrir því að síðasta bygging Allcroft eldri verði ekki rifin; hann á erfitt með að kyngja þeirri afstöðu að hús séu sífelld byggð og rifin sitt á hvað, eins og hafa verið örlög stórra svæða í Birmingham.

Annars þráður í þessum borgarhugleiðingum O'Flynn eru svo einstæðingarnir sem hverfa inn í fjöldann og einangrast í mannhafinu. Hún veltir upp hugmyndum um tengsl þess við sjálfan borgarstrúktúrinn og eins og í fyrri bók hennar setur hún ekki fram einfaldar, konkret niðurstöður heldur vekur lesandann miklu fremur til umhugsunar, eins og sést á þessum ógurlega langa bloggpistli sem er best að setja púnkt aftan við núna.

En semsagt: Ég mæli sannarlega með Catherine O'Flynn og vonast eftir að fá nýja bók eftir hana í hendurnar í ekki of fjarlægri framtíð.

Engin ummæli: