25. nóvember 2012

Siglt um síki minnis og gleymsku

Siglingin um síkin eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur er skáldsaga um minni og gleymsku. Hún vinnur með allskyns hugmyndir um það hvað við munum og hverju við gleymum - og kannski ekki síður hvernig við munum og gleymum og hvaða aðferðir við notum til þess að komast í burtu og gleyma. Sagan er uppfull af þverstæðum og hliðstæðum og lesandinn ferðast með Gyðu, aðalsöguhetjunni, um síki minnisins, en á meðan á því ferðalagi stendur dregur hún upp úr gruggugu vatninu minningabrot og teygir sig inn í þokuloft hugans til að leita skýringa á því afhverju einhverjir atburðir gerðust á ákveðinn hátt og hversvegna hún er stödd í þeim aðstæðum sem hún virðist vera föst í.

Gyða er orðin gömul, maður veit ekki alveg hversu gömul, en nægilega til að hún á fullorðin börn, látinn eiginmann og er af orsökum sem ekki er alveg kunnar í byrjun bókar, flutt inn í borðstofuna hjá Sölva syni sínum. Hún telur að þarna eigi hún að vera tímabundið meðan Sölvi vinni í því að selja einbýlishúsið hennar og kaupa fyrir hana íbúð af heppilegri stærð. Það kemur hinsvegar fljótlega í ljós að ekki er allt sem skyldi. Gyða er augljóslega ekki alveg áttuð á því hvað er að gerast, einhverskonar veikindi eru í spilunum en henni líður líkt og hún sé höfð í stofufangelsi.

Sigling Gyðu um síkin, ferðalag hennar um eigið minni og annarra, opnar smátt og smátt fyrir bæði henni og lesandanum hvar hún er stödd og hversvegna. Hlutar frásagnarinnar eru greinilega draumur/upplifun hennar þegar hún er að jafna sig á spítala eftir raunverulegt ferðalag sem þó er ákaflega óraunverulegt á þann hátt að hvorki hún né aðrir hafa nokkra hugmynd um hversvegna hún lagði af stað í það né hvern tilgang það hafði.

Það væri algjörlega hægt að gleyma sér í pælingum um þessa frásögn. Textinn er þéttur og ofinn úr svo mörgum og áhugverðum þráðum að möguleikarnir til að finna eitthvað við sitt hæfi eru óendanlegir. Sjálf hafði ég sérstaklega gaman að Gyðu og pælingum hennar, finnst höfundi takast mjög vel til við að lýsa þessari gömlu, seigu kerlingu sem bognar en brotnar aldrei. Það er eitthvað ótrúlega heillandi við það hvernig hún bregst við og þráast áfram, hvernig hún raðar saman brotum úr lífi sínu eftir því sem hana rekur minni til í það og það skipti. Undir lokin fannst mér sem lesanda ég hafa þokkalega heillega mynd af því sem Gyða vildi koma til skila, vitandi það, að sjálfsögðu, að sagan er svosem aldrei nema hálfsögð þegar það er aðeins einn aðili af mörgum sem segir frá.

Höfundurinn fléttar líka vel saman þráðunum af "stofufangelsi" Gyðu, þarsem hin kólumbíska Elena gætir hennar í umboði Sölva sonar hennar og frásögn Elenu (eða Elenar einsog höfundur vill hafa það) af því hvernig Mario eiginmaður hennar var gerður að fangaverði í hlutastarfi af vinnuveitendum sínum í Kólumbíu. Í báðum þessum frásögnum, þó vissulega séu þær ólíkar, er einhvers gætt gegn vilja hans, það er engu að treysta og í báðum tilfellum er ljóst orðið að innviðir samfélagsins eru rotnir, þú veist ekki hverjum hægt er að treysta og treystir etv síst þeim sem ætlað er að gæta þín.

Nú vil ég ekki ganga svo langt að segja að höfundur leggi að jöfnu eiturlyfjabarónana sem sagan lýsir sem raunverulegum valdhöfum í Kólumbíu og aðstæðum á Íslandi hrunsins, en tel mig geta gengið nægilega langt til að halda því fram að hún búi til hliðstæðu úr einhverskonar andrúmslofti spillingar og óvissu - þjóðfélagi þar sem best er að vara sig og hafa allt sitt á hreinu, og jafnvel það dugi ekki endilega til.

Í fáum orðum sagt er Siglingin um síkin frábær bók.

3 ummæli:

Maríanna Clara sagði...

vá hvað hún hljómar spennandi!

Sigfríður sagði...

já, hún er rosalega fín þessi bók. Ekta svona til að lesa aftur og aftur (in a perfect world, væri nú gott að hafa þann tíma!!)

Nafnlaus sagði...

Ég hef aldrei lesið neitt eftir Álfrúnu, nú læt ég sannarlega verða af því.

Salka