8. nóvember 2012

Þegar sólin fer að skína / fylla strákar vasa sína / af plómum sem þeir tína

Albert nútímans
Gamlan vin minn er að finna í hinu alræmda jólabókaflóði (fyrirgefið að ég skuli nota þetta óþolandi orð, ég skal aldrei gera það aftur). Það er strákpjakkurinn Albert frá Kallabæ sem Ole Lund Kierkegaard skrifaði um árið 1968 og kom út í íslenskri þýðingu Þorvaldar Kristinssonar röskum áratug síðar. Albert hefur lengi verið ófáanlegur hér á landi - ég held að bókin hafi ekki verið fáanleg úr bókabúð þegar ég var sjálf lítil enda var hún ein fárra skáldsagna Ole Lund sem ekki voru til á mínu heimili. Þar kom Sólheimasafn þó sterkt til sögunnar og Albert var margoft ein þeirra sagna sem bókhneigð lítil stúlka með gleraugu hlóð upp á afgreiðsluborðið. Ég tók þessum gamla kunningja því fagnandi þegar JPV endurútgaf hann á dögunum.

Það er alltaf dálítið hættulegt að lesa aftur bækur sem voru í miklu uppáhaldi á árum áður. Samkvæmt minni reynslu stendur þó Ole Lund Kierkegaard enn fyrir sínu og vekur sömu kátínuna og þegar ég kynntist honum fyrst, sirkabát 1985. Ég hef ennþá innilega gaman af að lesa um Hodja frá Pjort á töfrateppinu, þjófinn á hlaupahjólinu í Fróða og öllum hinum grislingunum ("hnekk hnekk!"), Fúsa froskagleypi, Pésa grallaraspóa og Manga vin hans, Kalla kúluhatt og Virgil litla (hvern langar ekki í "inneign í sjóði"?). Bækurnar hans Ole Lund eru fyndnar, ófyrirleitnar og hlýjar; persónugalleríið er sérlega eftirminnilegt og söguheimurinn lýtur sínum eigin lögmálum.


Það voru eflaust liðin ein tuttugu ár síðan ég las Albert síðast en við lesturinn rifjaðist þó ýmislegt upp, t.d. var skemmtilegt að átta sig á því að gildran sem ég reyndi að búa til á skólalóð Laugarnesskóla í sjö ára bekk til að veiða samnemendur var sprottin upp úr þessari sögu. Þeir Albert og Egon vinur hans búa nefnilega til gildru til að veiða stelpur en markmiðið er að krefjast lausnargjalds. Kaflinn þar sem þeir félagar stofna klúbbinn Óþokkarnir ógeðslegu, leggja stelpugildru og hitta skólasysturina Júdit og mömmu hennar er afar skemmtilegur:

"NÚ DREPUM VIÐ YKKUR, æpti Albert og geystist á móti þeim.
Heyrðu, hrópaði Egon. Þú sagðir að við ættum bara að drepa mömmuna.
Nei, sko, sagði Júdit og klappaði saman lófunum. Eru þeir ekki skemmtilegir, mamma?
Þeir virðast bráðskemmtilegir, sagði mamma hennar og fitjaði upp á nefið. En mér finnst þeir frekar skítugir. Eru þeir líka svona skítugir í skólanum?
...
Og svo brosti hún til Alberts sem stóð kyrr og sveiflaði sverðinu yfir höfði sér.
Gamall Albert
Farðu varlega svo þú brjótir ekki gleraugun þín, væni minn, sagði hún." (bls. 58)

Aðalpersónan Albert er uppátektasamur drengur sem kemur sér í alls kyns sniðugar aðstæður. Hann er þó ekki beinlínis óþekkur heldur er hann einfaldlega staðráðinn í að láta sér allt verða að ævintýri. Hann kastar sér út í hvað sem er með gríðarlegum lífsþorsta og áhuga - hvort sem það er að fylgjast með skósmiðnum önuga reisa feykistóra girðingu umhverfis hænsnakofann sinn heima í Kallabæ eða að sigla niður ána í tunnu og lenda í klóm ræningja. Þegar hinn ógurlegi vasaþjófur Rappolló tekur Albert höndum hugsar hann: "Váá ... Ég vissi að eitthvað myndi gerast í dag. Ég vildi að Egon hefði verið með." (85) Eftir að búið er að ræna honum og flytja hann á markaðinn á Hjaltastöðum þar sem hann kemur upp um svikahrappa, bjargar bónda frá arðráni, vinnur sér inn krónu, sleppur frá Rappolló mikla en er gómaður af lagsmönnum hans og troðið ofan í strigapoka hugsar Albert: "Ég held að það sé næstum því skemmtilegra að vera á markaði á Hjaltastöðum en að vera sjóræningi. Ég vildi bara að Egon væri hérna. Hann verður áreiðanlega grænn í framan af öfund þegar hann heyrir um allt sem ég er búinn að gera hérna á markaðnum." (144)

Í sögunni er einhvern veginn allt mögulegt og öllu má snúa sér í hag. Albert er bráðfyndinn og skarpur, þrjótarnir hæfilega miklir aular og sögusviðið er afskaplega lifandi, bæði Kallabær og markaðurinn sem er iðandi fjörugur.


Þýskur Albert

Þýðing Þorvaldar Kristinssonar er framúrskarandi. Hann þýddi fleiri bækur eftir Ole Lund, meðal annars Hodja, Virgil og Fróða, og á því sumpart heiðurinn af þeim kómíska, lúmska og kjarnmikla tóni sem við tengjum við Ole Lund Kierkegaard á íslensku. Það er leikur og galsi í tungumálinu en það er engu að síður nákvæmt og úthugsað. Það gleður mig að nú fái ný kynslóð notið Alberts og annarra góðkunningja minna sem hafa verið endurútgefnir á síðustu árum.

Engin ummæli: