7. desember 2012

Af sjónarhóli gæludýrs

Þegar ég var lítil hélt ég mikið upp á bók sem heitir Klói segir frá og er eftir Annik Saxegaard. Hún mun hafa komið út 1956 en einhvern veginn lenti hún hjá mér um tuttugu árum síðar. Í þessari bók er sögumaðurinn, eða öllu heldur sögukötturinn, svarti fresskötturinn Klói sem fjallar um líf sitt inni á heimili, samskipti sín við manneskjur og önnur dýr og ýmis ævintýri sem hann lendir í. Ég hef ekki séð þessa bók áratugum saman og veit svo sem ekkert hvernig mér litist á hana núna en alla vega las ég hana aftur og aftur sem barn.

Það að segja sögu frá sjónarhóli dýrs sem býr með mönnum getur gefið skemmtilegan vinkil á hlutina og verið áhugavert bæði fyrir börn og fullorðna. Dýrið er að vissu leyti utan við mannlega samfélagið, jafnvel þótt það tilheyri líka mannlegri fjölskyldu, og getur lýst bjástri mannfólksins sem einhverju framandlegu. Og það er skemmtilegt að spreyta sig á því að setja sig í spor einhvers sem maður gæti aldrei verið, að ímynda sér líf sem maður gæti aldrei lifað, og svo fylgir dýrunum oft ákveðið sakleysi sem gerir það að verkum að maður hlýtur að finna til samkenndar með þeim.

Grímsævintýri. Ævisaga hunds eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur er skemmtilegt dæmi um svona frásögn. Kristín Helga segir þar sögu fuglaveiðihundsins Gríms Fífils frá upphafi til endaloka, og ljóst verður að fjölskyldan sem þar er sagt frá er einmitt fjölskylda hennar. Það er Grímur sjálfur sem er sögumaður/hundur. Við upplifum ýmislegt með Grími, hvernig hann myndar mismunandi samband við hinar ýmsu manneskjur í lífi sínu, hvernig hann gerir stundum eitthvað af sér og er skammaður, við þefum með honum af sokkum, leikum okkur í snjó, lendum í lífsháska, förum á hundasýningar, í hlýðniskóla og til hundasálfræðings. Grímur er andhetja, hann er óttalegur klaufi og klúðrar mörgu, alla vega frá sjónarhóli mannanna, og botnar lítið í hinum ýmsu reglum sem honum eru settar. En hann meinar alltaf vel, honum er alltaf fyrirgefið og eins kemur fram hve vænt honum þykir um fólkið sitt og því um hann.

Átta ára dóttir mín hafði mjög gaman af bókinni. Hún er hrifin af hundum og henni fannst sniðugt að láta hundinn segja frá. Sjálfri fannst mér bókin vinna á eftir því sem á leið. Ég á dálítið erfitt með að átta mig á því hvað það var sem olli því að ég varð ekkert svo hrifin strax en mig grunar að Grímur Fífill hafi unnið á við nánari kynni. Til að byrja með kemur frásögnin svolítið út eins og verið sé að segja kjánalegar sögur af ókunnum hundi sem vissulega eru hnyttnar en einhvern veginn ekkert meira. Kannski þarf að kynnast Grími og fólkinu hans fyrst til að læra almennilega að meta sögurnar af honum.

Bókin er skreytt teikningum eftir Halldór Baldursson. Þær eru margar mjög góðar og Halldór kann greinilega vel til verka en á mörgum myndum sem sýna fólk finnst mér óþarflega mikill teiknimynda- eða skopmyndastíll fyrir efnið; það sem er skoplegt þarna skilar sér alveg í textanum. Þetta er þó sjálfsagt bara smekksatriði. Ég var hrifnari af hundamyndunum og raunar fannst mér margar af mannamyndunum fínar líka, þær sem voru síður skopmyndalegar.

Eins og við er að búast af Kristínu Helgu er textinn lipur og þjáll. Þegar á heildina er litið er þetta hin skemmtilegasta bók fyrir hundavini á öllum aldri og falleg minning um horfinn félaga.

1 ummæli:

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Man vel eftir bókinni um Klóa sem ég marglas sem barn og nefndi kettlinginn minn eftir söguhetjunni sem var sömuleiðis svartur með hvítar loppur. Grímsævintýrin munu rata í jólapakka til litlu dóttur minnar, hlakka til að lesa með henni.