17. júlí 2012

Reiðhjól fyrir fiskinn?


Það kemur alltaf nýr dagur eftir Unni Birnu Karlsdóttur kom út fyrir skömmu hjá Bjarti. Bókin fjallar um konu sem snýr aftur á æskuslóðirnar í íslenskri sveit eftir áratuga fjarveru í New York. Hún hafði átt erfiða bernsku, móðirin hafði yfirgefið fjölskylduna og faðirinn var drykkfelldur og ofbeldishneigður, og stungið af til Ameríku sem unglingur, gifst moldríkum Bandaríkjamanni og meikað það í fjármálaheiminum. Þegar sagan hefst er hún nýskilin, eiginmaðurinn hafði yngt upp hjá sér og farið frá henni, og faðir hennar nýdáinn. Bókin snýst svo um það hvernig hún fótar sig eftir þetta áfall og finnur nýjar leiðir í lífinu og gerir upp við fortíðardrauga í leiðinni.

Þessi bók er afar vel skrifuð, textinn er hnökralaus og mikið af myndrænum og fallegum náttúrulýsingum. Frásögnin rennur ljúflega áfram og inniheldur ýmsar vísanir í þjóðsögur. Söguhetjan og systkini hennar heita til dæmis Ása, Signý og Helgi (þó ekki Helga) og á köflum eru lýsingarnar á hegðun föður þeirra þannig að það er eins og þau séu í vist hjá vondum tröllkarli. Þegar Ása snýr aftur gefur hún óásjálegri tík föður síns að éta, sem verður henni síðar til lífgjafar. Þó hefði mátt hafa lýsingarnar á því að Ása væri að gefa tíkinni að éta eitthvað færri, þær voru kannski aðeins of margar. Helsta umkvörtunarefni mitt varðandi stílinn er hvernig vísað var til fólks á víxl með formlegum og óformlegum hætti. Sagan snýst mikið til um hugsanir Ásu, hún er sjálf sögumaður, og því má vænta þess að sjónarhornið eigi að vera fremur náið og persónulegt, enda snýst sagan mikið til um innri átök Ásu. Það skýtur því skökku við þegar hún er til dæmis að tala um foreldra sína að hún noti „móðir mín“ og „faðir minn“ á víxl við „mamma“ og „pabbi“. Eins kemur ankannalega fyrir sjónir að sjá „Matthew, maðurinn minn fyrrverandi“ aftarlega í bókinni þar sem það blasir við að lesandinn hefur náð því á fyrstu blaðsíðunum hver Matthew væri. Ég held að það sé ekki bara smámunasemi í mér að fetta fingur út í þetta því þetta gefur frásögninni ópersónulegan blæ sem ég satt að segja efast um að sé markmið höfundar.

Hvað söguþráðinn varðar fannst mér vanta meiri frumleika sem og meiri dýpt í persónurnar. Það að nota minni eða vísanir getur verið gott og gilt en það hefði mátt vera eitthvað í frásögninni sem hefði getað komið manni á óvart. Ása er eins og karakter úr skvísubókmenntum eða eins og blautur draumur þeirra sem mæra hina fögru og tæru íslensku konu: með blá augu og ljóst sítt hár, ólíkt systur sinni sem varð eftir heima í sveitinni er hún grönn (og fram kemur að hún borðar ekki sætabrauð) og svo á hún nóg af peningum. Þegar hún skreppur til Parísar verður hún fyrir svo miklu ónæði af hálfu karlmanna að hún þarf að setja klút yfir hárið á sér (eru Parísarbúar í alvörunni svona óvanir ljósu hári?). Hún virðist ekki hafa áhuga á neinu öðru en eigin nafla. Kannski er það skiljanlegt að fólk gangi gegnum tímabil þar sem það verður svona fullkomlega sjálfmiðað eins og hún virðist vera, ekki síst í kjölfar áfalla eins og skilnaðar, en það verður að segjast að slík tímabil fólks eru ekki þau þar sem það sýnir sínar bestu eða áhugaverðustu hliðar. Jú, það kemur svo sem fram að Ásu þyki vænt um systur sína og börnin sín en fyrst og fremst er hún alltaf að hugsa um hvað hún geti gert fyrir sjálfa sig og hún virðist hafa takmarkaðan áhuga á heiminum í kringum sig. Fyrir vikið er hún svona frekar ósympatísk persóna. Signý systir hennar virðist vera fullkomin andstæða hennar og lifa eingöngu fyrir aðra og ekki hafa nokkurn áhuga á sjálfri sér. Hvorug sýnir þó áhuga á umhverfi sínu utan nánustu fjölskyldu.

Af persónum bókarinnar finnst mér pabbi Ásu (sem hún rifjar upp ýmsar minningar um) sú dýpsta og áhugaverðasta. Hann er drykkfelldur hrotti en stöku sinnum glittir í mýkt hjá honum og hann virðist vera flóknastur þeirra sem maður fær að kynnast. Fyrrverandi manni Ásu, fyrrnefndum Matthew, fá lesendur eiginlega ekkert að kynnast þrátt fyrir að lungann úr bókinni sé hún á barmi sjálfsvígs yfir því að hann hafi farið frá henni. Það kemur fram að hún sakni hans en maður fær í raun aldrei neinn botn í það hvað það var við hann eða líf þeirra saman sem hún saknaði, annað en kannski einhver öryggistilfinning. Helstu lýsingarnar á Matthew snúast um hvernig hann heillaðist af Ásu sem einhvers konar fjallkonuímynd. Hann hefði getað orðið meira lifandi fyrir lesandanum ef Ása hefði til dæmis rifjað upp fleiri atvik úr lífi þeirra eða sagt frá hlutum sem þau voru vön að gera saman. Það er svolítið eins og þessi mikla ást sem Ása bar til Matthews hafi kviknað úr engu, eða ekki neinu sérstöku. Oft eru hlutir settir þannig fram í ástarsögum, fólk verður ástfangið eins og fyrir tilviljun, það fær í sig ör Amors án þess að það hafi í sjálfu sér neitt með einstaklingseinkenni elskendanna að gera. En er það þannig í raun og veru? Getur maður orðið handahófskennt ástfanginn af hverjum sem er? Þegar Ásu fer að líða betur í lokin kemur svo ekki almennilega fram hvað það er í afstöðu hennar sem hefur breyst, það vantar meiri skýringar á breyttu hugarfari hennar.

Það sem ég hefði viljað sjá meira af í þessari bók eru pælingar söguhetjunnar um eitthvað annað en sjálfa sig og nærumhverfi sitt, það hefði gefið henni meiri dýpt og hefði legið beint við þar sem frásögnin er í fyrstu persónu. Margt í henni kemur skemmtilega út, eins og þjóðsagnaminnin, og textameðferð öll er til stökustu fyrirmyndar. En ég verð að segja, án þess að ljóstra nákvæmlega upp hvað það var svo ég skemmi ekki fyrir væntanlegum lesendum, að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum með símtalið í lokin og ákvörðunina sem fylgir því. Það kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum og gefur til kynna að kona sé ekkert án karlmanns.






Engin ummæli: