31. júlí 2012

Rökkurhæðir - Kristófer

Þá er það þriðja druslubókadaman sem sest yfir bók úr íslenska barna- og/eða unglingabókaflokknum Rökkurhæðir, en hér má sjá umfjöllun Hildar um fyrstu bókina, Rústirnar, og svo las Guðrún Elsa bók númer tvö sem nefnist Óttulundur. Það er óþarfi að tyggja upp það sem þegar hefur verið sagt um bókaflokkinn, en í hnotskurn eru hér á ferðinni spennudulúðarhryllingssögur fyrir stálpuð börn og unglinga - talsvert óhugnanlegar en þó ekki ógeðslegar eða ofbeldisfullar - sem gerast í úthverfinu Rökkurhæðum og fjalla um ýmsa krakka úr hverfinu og þá dularfullu atburði sem þau lenda í. Sögurnar eru þannig samhangandi en sjálfsstæðar, það þarf ekki að hafa lesið það sem á undan er komið til að geta sett sig inn í hverja bók heldur hafa höfundarnir búið til sagnaheim sem er hægt að skrifa inn í alls kyns atburði.

Þetta er sniðugt sett-öpp hjá þeim Birgittu Elínu Hassell og Mörtu Hlín Magnadóttur sem eru báðar skrifaðar fyrir þriðju bókinni er nefnist Kristófer. Sagnaheimurinn er spennandi og býður upp á marga möguleika. Mér þótti gaman að sjá kortið af hverfinu fremst í bókinni - það er eitthvað heillandi við þannig "ítarefni" og ég hefði svo sannarlega laðast að því sem krakki. Þótt nöfn á fólki og stöðum séu íslensk (Sigmar Snær, Sunnuvík, Berglind o.s.frv.) þá er umhverfið það í rauninni ekki og ég hélt lengi vel að sagnaheiminum væri ætlað að vera einhvers konar staðleysa, þar til minnst var á 17. júní-hátíðahöld. Það stakk dálítið í augun, kannski væri skemmtilegra að leyfa þessum óíslenska heimi að vera bara óstaðsettur? Hann er svo skemmtilega undarlegur hvort eð er, og það gæti auðveldað höfundunum að komast upp með ýmislegt sem lesendur færu annars að setja spurningarmerki við.


Mér þykir aftur á móti dálítil synd hvað úrvinnslan er ófrumleg. Á aldrinum 10-14 ára las ég slatta af bókum úr seríunni Goosebumps eftir R.L. Stine og þessi Rökkurhæðabók um Kristófer minnti mig aðeins of mikið á formúlubækurnar hans Stine, sem eru fínar til síns brúks en ekki beinlínis metnaðarfullur skáldskapur. Söguþráðurinn í Kristófer er byggður á gamalkunnugu minni - óhugnanlegu brúðunni sem fyrir tilviljun kemst í hendur barns og fer að láta til sín taka á ógnvænlegan hátt. Kannski var það aðallega þetta stef sem gerði bókina of formúlukennda. Persónusköpunin er takmörkuð og það vantar einhvern veginn meiri alúð í skrifin. Með þrívíðari persónum hefðu höfundarnir eflaust líka fundið meira sannfærandi leiðir til að þróa söguþráðinn áfram, þ.e.a.s. fundið hvert persónurnar vildu fara og fengið óvenjulegri hugmyndir. Til dæmis vantar rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun aðalsögupersónunnar að leita ekki til foreldra sinna þegar hin demónska dúkka er farin að hrella hann; það er afgreitt með einni setningu: "En hann var búinn að ákveða að leysa þetta vandamál sjálfur, án hjálpar foreldra sinna." (bls. 116)

Eitt af því sem er áhugavert við Rökkurhæðaflokkinn er áhersla á fjölbreytilega málnotkun; höfundarnir eru óhræddir við að beita fullorðinslegu orðalagi, tala ekki niður til lesenda og flétta safaríkum orðum á áreynslulítinn hátt inn í frásögnina. Þetta er klárlega styrkur bókarinnar um Kristófer - að takast skuli að segja söguna á lipru, aðgengilegu en þó blæbrigðaríku máli. Þess vegna var reyndar sérlega undarlegt að rekast á frasann "að ú-a og a-a", sem er voðalega skrítin beinþýðing á ensku orðatiltæki. Svo verð ég að benda prófarkalesurum Bókabeitunnar á að laga kommusetninguna; hvað eftir annað vantaði kommu á eftir ávarpi eða upphrópun, með þeim afleiðingum að úr urðu setningar eins og þessi: "Ó ert þetta þú Fallegust." Að öðru leyti er frágangur og yfirlestur til fyrirmyndar.

Semsagt, þessi druslubókadama var ekki alveg jafn ánægð og þær sem lásu fyrstu bækurnar tvær, en þetta er engu að síður hin meinleysislega lesning, spennandi og hæfilega óhugnanleg. Heimurinn sem þær stöllur hafa skapað er virkilega áhugaverður og ég vona að þær prjóni eitthvað aðeins metnaðarfyllra inn í hann næst.

Engin ummæli: