14. júlí 2012

Pabbastelpur, tálkvendi og ofurmömmur: the Guerrilla Girls kortleggja kvenstaðalímyndir

Í vor áskotnaðist mér bókin Bitches, Bimbos and Ballbrakers: The Guerrilla Girls' Illustrated Guide to Female Stereotypes og ég hef verið að fletta í henni að öðru hvoru síðan, ekki síst í ferðalaginu sem við Kristín Svava höfum talað endalaust um á þessu bloggi undanfarið. Bókin, sem kom út árið 2003, er einmitt tilvalin til þess að blaða í á svipaðan hátt og nútímafólk skrollar ef til vill í gegnum bloggfærslur (mig grunar að fólk hafi flett meira í bókum á síðustu öld) – það er hægt að grípa niður í hana hvar sem er og lesa stutt eða lengi. Viðfangsefni bókarinnar er, eins og titillinn gefur til kynna, kvenstaðalímyndir (eða -stereótýpur). Hver staðalímynd er afgreidd á um það bil tveimur til fimm síðum og þeim er skipt niður í kafla eftir því hvers eðlis þær eru.


Bette Davis í hlutverki piparkerlingarinnar
í kvikmyndinni The Old Maid
Í þeim fyrsta eru staðalímyndir sem konum er gjarnan þröngvað í á ólíkum aldursskeiðum, sem dæmi mætti taka pabbastelpuna, tálkvendið og piparkerlinguna. Í þessum kafla er líka farið í ólíkar birtingarmyndir móðurinnar í menningunni, eins og góðu/heilögu móðurina, vondu/kæfandi/geldandi/freku móðurina, ofurmömmmuna og kynþokkafullu mömmuna (Yummy Mummy – þær minnast þó ekkert MILF, sem ég held að hafi náð töluverðri útbreiðslu eftir að unglingamyndin American Pie kom út árið 1999).

 Annar kafli bókarinnar fjallar um konur sem kynferðisleg viðföng. Þar eru til umfjöllunar staðalímyndir sem notaðar eru til að skilgreina konur sem eru „til í tuskið“, konur sem eru það ekki og konur sem sofa hjá konum. Í kaflanum birtast til dæmis vergjarna konan, ólíkar týpur af vændiskonum (skuggaleg fortíð barbídúkkunar er dregin fram í dagsljósið), tepran, daðurdrósin, ólíkar týpur af lesbíum og tvíkynhneigðar stúlkur sem sagðar eru „lesbíur þar til þær útskrifast“ (LUG, Lesbian Until Graduation).

Mótmælin í Atlantic City
Í þeim þriðja er fjallað um raunverulegar og uppskáldaðar konur sem verða að staðalímyndum. Þar er til dæmis fjallað um móður Teresu, Lolitu, Rosie the Riveter (sjá hér og hér) og feminista sem kveikja í brjóstahöldurum (Bra Burners). Í þessum kafla kemur meðal annars fram að svokallaðar „brjóstahaldarabrennur“ hafa í raun aldrei átt sér stað. Árið 1968 mótmæltu bandarískir feministar þar sem Miss America-fegurðarsamkeppnin var haldin í Atlantic City og við það tilefni hentu þær ýmsu sem konur nota til að fegra sig – andlitsfarða, hælaháum skóm, lífstykkjum, o.s.frv. – í ruslatunnu. Blaðamaður New York Post líkti mótmælunum við stríðsmótmæli þar sem menn brenndu herkvaðningarbréf sín fyrir framan myndavélar og í kjölfarið var hugmyndin um konur að brenna nærföt sín notuð til að gera lítið úr baráttu þeirra.

Í síðustu tveimur köflunum er fjallað um staðalímyndir sem notaðar eru yfir heimavinnandi og útivinnandi konur og um staðalímyndir tengdar kynþætti og trú (en Skæruliðastúlkurnar gera það með því að búa til stereótýpudúkkur sem eru eignuð ákveðin persónueinkenni út frá kynþætti þeirra og trú).

Í heildina er þetta skemmtileg og fróðleg bók, full af skemmtilegum myndum og gagnlegum upplýsingum um tilurð og þróun staðalímynda. Margir kaflanna eru þó ansi beisikk, sérstaklega ef maður hefur lesið eitthvað um efnið áður. Ég hef til dæmis haft mikinn áhuga á birtingarmyndum móðurinnar í afþreyingarmenningu og þess vegna fannst mér kaflinn um móðurina alveg hrikalega ófullnægjandi, hann er hins vegar ábyggilega ágætis kynning fyrir þá sem hafa ekki íhugað efnið áður. Stundum fór það líka rosalega í taugarnar á mér að bókin væri ekki örlítið fræðilegri, ég hefði viljað að hún hefði að minnsta kosti aftanmálsgreinar og að vísað væri nákvæmar í heimildir (það er heimildaskrá aftast, en sjaldnast veit maður nákvæmlega hvaðan þær hafa fengið upplýsingar).


Svo finnst mér höfundarnir ekki alltaf nógu róttækir. Jú, þær vilja rífa niður gamlar staðalímyndir, en svo segja þær líka að konur eigi bara að búa sér til nýjar og betri – eins og stereótýpur séu ekki alltaf takmarkandi og bara óþarfar. Þær þyrftu að minnsta kosti að skýra að hvaða leyti þær gætu gagnast konum. Ég held að flestir hafi einhvern tímann lent í því að vera þröngvað í einhverja staðalímynd, að einhver hafi reynt að skilgreina þá með því að vísa einfalda og klisjukennda týpu („já, þú ert svona týpan sem bla bla bla...“). Þeir sem hafa upplifað það vita að slíkt getur verið bæði pirrandi og særandi, fyrir utan það að enginn passar raunverulega inn í svona flokka, veruleikinn er alltaf flóknari en svo. Það er hins vegar fínt að lesa þessa bók með gagnrýnum augum, hlæja og ranghvolfa augunum yfir þessum fáránlegu skilgreiningartækjum og ræða svo um það við vini sína hvort það sé ekki full ástæða til að henda þeim bara í ruslið líkt og feministarnir gerðu í Atlantic City árið 1968.

1 ummæli:

Nanna Hlín sagði...

þar se, ég get ekki líkað með FB takkanum, líka ég þetta hér með og legg blessun mína yfir þetta.