6. júlí 2012

Íslenska elskhuga með í ferðalagið!

Uppáhaldskápumyndin okkar.
Eins og glöggir lesendur bókasíðunnar hafa tekið eftir vorum við Kristín Svava og Guðrún Elsa á ferðalagi fyrir skömmu. Guðrún Elsa hafði með sér í þessa för eftirlætisferðabókina sína; ekki í þeim skilningi að bókin fjalli um ferðalög, heldur er svo gaman að lesa upp úr henni á ferðalögum og spjalla um hana við ferðafélagana. Jú, þið hafið eflaust áttað ykkur á um hvaða bók ræðir: það er einmitt bókin Íslenskir elskhugar frá 1985 eftir blaðamanninn Jóhönnu Sveinsdóttur. Þessa bók fékk Guðrún í afmælisgjöf frá annarri druslubókadömu, Þórdísi Gísladóttur, og kann henni miklar þakkir fyrir. Við ákváðum að nota tækifærið fyrst við höfðum báðar farið svo vandlega í gegnum bókina (hún var sannarlega okkar bókasafn á gististöðum) og blogga svolítið um hana.

K.Svava: Um daginn bárust fréttir af blaðakonu sem hygðist safna kynlífsfantasíum nafnlausra íslenskra kvenna og gefa út á bók, og okkur varð báðum hugsað til Íslenskra elskhuga þegar við lásum þessar fréttir. En þrátt fyrir titilinn einblínir Jóhanna Sveinsdóttir í Íslenskum elskhugum ekki bara á kynlíf karlanna átján sem hún tekur viðtöl við, heldur spyr hún þá út í líf þeirra almennt, tilfinningar og mannleg samskipti. Það góða við bókina er kannski einmitt að hún setur ástalíf karlanna í samhengi við líf þeirra og viðhorf, eitthvað sem gæti líka gert bók um fantasíur áhugaverða – hver eru tengsl fantasíunnar og raunveruleikans?

G.Elsa: Já, þetta viðtalsform er svo ágætt vegna þess að Jóhanna leggur sig fram um að tengja saman og spyrja frekar, fá karlana til að skýra betur afstöðu sína eða tilfinningar. Hún er greinilega í hlutverki blaðamannsins; þótt maður verði sjálfur stundum pirraður út í karlana fyrir viðhorf þeirra er hún alltaf mjög sanngjörn og dæmir þá ekki. Svo er líka skemmtilegt að hún spyr þá alltaf út í áhrif jafnréttisbaráttunnar á þá og tengir þannig upplifanir þeirra af sjálfum sér og öðrum við hugmyndir um kynhlutverk. Flestir lýsa þeir sig jákvæða í garð kvenréttindabaráttunnar en oft kemur ýmislegt mótsagnakennt fram í máli þeirra og ýmis íhaldssöm viðhorf til kynjanna. Svo finnst mér ógeðslega fyndið þegar einhverjir tala aðallega um það hvað kvenréttindakonur séu góðar í rúminu, eins og það sé það besta við þær.

K.Svava: Karlarnir átján eru allir ólíkir karakterar og Jóhanna segist í formálanum – sem staðsetur bókina skemmtilega í alls konar áratuga gömlum skandinavískum vangaveltum um „krísu karlmennskunnar“ – hafa lagt sig fram um að fá sem breiðastan þverskurð, karla á öllum aldri í alls konar störfum. Manni líkar misvel við þá, sumir eru mjög sympatískir en aðrir bókstaflega andstyggilegir, eins og sá sem er titlaður fimmtugur menntamaður, en viðtalið við hann hefur yfirskriftina „Siðferðisstaðall íslenskra kvenna er lægri en á meginlandinu“. Þvílíkt djöfulsins fífl.

G.Elsa: Það er áhugavert að bera eldri og yngri viðmælendur Jóhönnu saman, þeir yngri hafa augljóslega reynt svo miklu minna og hafa fremur ómótaðar hugmyndir um samskipti kynjanna. Ég myndi vilja lesa framhaldsbók þar sem talað er við þá aftur og farið yfir það hvað hefur gerst síðan. Ætli viðhorf þeirra hafi breyst eitthvað? Til dæmis maðurinn sem var við það að afskrifa kynferðisleg sambönd en ætlaði að einbeita sér að ritstörfum, sjálfsdáleiðslu og jóga. Hvar er hann í dag? Eins datt okkur í hug að það hefði verið áhugavert að heyra frá konunum í lífi þessara manna, fá þeirra hlið. Stundum fannst manni eins og það væri verið að sleppa einhverju, skauta yfir eitthvað sem viðmælendunum þótti óþægilegt. Einn beinlínis hafði ekki áhuga á að skilja hvers vegna hans fyrri sambönd höfðu ekki gengið upp.

K.Svava: Jóhanna virðist annars vera ansi góð í að fá viðmælendurna til að slappa af, tala frjálslega og útskýra mál sitt. Það gerir þetta að áhugaverðri mannlífsstúdíu. Við fáum margar hliðar á mönnunum, þeir geta verið sympatískir en samt opinberað einhverja ógeðfellda hluti um sjálfa sig, eins og fólk er. Maður sér hvernig þeir geta verið góðar manneskjur, eða allavega litið á sjálfa sig sem góða gaura, en samt haft ljótar hugmyndir og hagað sér eins og asnar. Maður sér alls konar hugmyndir að verki um karla og konur og mannleg samskipti.

G.Elsa: Ég veitti athygli líkingamálinu sem karlarnir notuðu til að lýsa samskiptum sínum í ástalífinu. Þegar karlmennirnir eru beðnir um að lýsa fullnægingunni talar einn um storm sem geysist um allan líkamann og segir að það sé engu líkara en „geimskot hafi átt sér stað í líkamanum“. Annar talar um að ef konan sýni litla ástleitni byrji maðurinn smám saman að „venjast undan, ef svo má segja, eins og lamb undan á“.

K.Svava: Já, var það ekki maðurinn sem talaði um að konan hans nennti aldrei að sofa hjá honum? Hún var með endalausar afsakanir, sagði hann: „það er of kalt, það er of þröngt, það þyrfti að fara í bað áður og svo framvegis“. Maður veltir fyrir sér við hvaða aðstæður í ósköpunum hann var alltaf að reyna að sofa hjá henni? Í baðstofugöngunum? Hann taldi þetta allavega tóman fyrirslátt, hún hefði engan áhuga á honum lengur og þess vegna neyddist hann til að halda framhjá henni.

G.Elsa: Jú, það passar, það var einmitt þessi fráskildi skólastjóri á sextugsaldri. Svo var þrjátíu og átta ára smiður úr einangraðri sveit sem talaði um að bróðir hans hafi „leitt undir hann konu“. Manni verður hugsað til Svars við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson. Til viðbótar við þetta landbúnaðarmyndmál var þó nokkuð um sjómannamyndmál. Talað er um að „fiska konur“ og einn segir að hann finni yfirleitt á sér hvað er í uppsiglingu í samskiptum sínum við konur, eins og „fiskinn skipstjóri. Hann fer bara á þau mið þar sem hann veit að hann veiðir vel“. Svo talaði annar um að þegar kona yfirgaf hann hafi honum liðið „eins og skipstjóra á sökkvandi skipi“. Það er semsagt ekki bara í íslenska efnahagshruninu sem slíkar sjómennskulíkingar eru notaðar.

K.Svava: Svo veit maður aldrei nákvæmlega hvað kemur frá körlunum og hvað frá höfundinum. Það er greinilega samræmdur stíll á öllum viðtölunum, sem er náttúrulega eðlilegt hjá blaðamanni, en sumt kemur manni spánskt fyrir sjónir (við vorum reyndar á Spáni en heyrðum samt engan taka svona til orða), eins og endalausar endatekningar á upphrópuninni „Skítt og laggó!“ Ætli hún hafi verið svona algeng árið 1985? Spyr sá sem ekki veit. Lái mér hver sem vill. Er von maður spyrji? (Þetta er soldið stíllinn á bókinni.)

G.Elsa: Ég get ekki ímyndað mér að nokkur annar en Jóhanna hefði leyst þetta verk eins vel úr hendi. Maður fær innsýn inn í heim sem maður hefði annars aldrei kynnst af því að hún er svo tjilluð, það er eins og hún sé bara fluga á vegg í karlasamfélagi. Eðli málsins samkvæmt verður maður aldrei hluti af þessu samfélagi og mun aldrei verða, þannig maður er kannski ekki í stöðu til að fullyrða neitt. Hins vegar er hún að greinilega að gera þetta af heilindum, ekki af eintómri forvitni um náungann, heldur af mannfræðilegum áhuga. Hún er að reyna að veita einhverja innsýn inn í hugarheim karla en heldur því ekki fram að hún sé að varpa upp mynd af „karlmanninum“ sem slíkum.

K.Svava: Annað sem er sérstakt við bók Jóhönnu er að hún er að fjalla um karlmenn, sem er sjaldan fjallað um sem hóp á þennan hátt. Þeir eru félagslega „normið“ – öfugt við konur, sem eru „hitt kynið“. Það er stundum talað um hópinn „konur“ eins og einhverja simpansa, samanber orð eins viðmælandans í bókinni sem talar um að hann hafi aldrei almennilega skilið „fyrirbærið konur“. Hér er verið að fjalla um „fyrirbærið karla“ – en á mjög mannúðlegan hátt.

Engin ummæli: