Bette Davis í hlutverki piparkerlingarinnar í kvikmyndinni The Old Maid |
Annar kafli bókarinnar fjallar um konur sem kynferðisleg viðföng. Þar eru til umfjöllunar staðalímyndir sem notaðar eru til að skilgreina konur sem eru „til í tuskið“, konur sem eru það ekki og konur sem sofa hjá konum. Í kaflanum birtast til dæmis vergjarna konan, ólíkar týpur af vændiskonum (skuggaleg fortíð barbídúkkunar er dregin fram í dagsljósið), tepran, daðurdrósin, ólíkar týpur af lesbíum og tvíkynhneigðar stúlkur sem sagðar eru „lesbíur þar til þær útskrifast“ (LUG, Lesbian Until Graduation).
Mótmælin í Atlantic City |
Í síðustu tveimur köflunum er fjallað um staðalímyndir sem notaðar eru yfir heimavinnandi og útivinnandi konur og um staðalímyndir tengdar kynþætti og trú (en Skæruliðastúlkurnar gera það með því að búa til stereótýpudúkkur sem eru eignuð ákveðin persónueinkenni út frá kynþætti þeirra og trú).
Í heildina er þetta skemmtileg og fróðleg bók, full af skemmtilegum myndum og gagnlegum upplýsingum um tilurð og þróun staðalímynda. Margir kaflanna eru þó ansi beisikk, sérstaklega ef maður hefur lesið eitthvað um efnið áður. Ég hef til dæmis haft mikinn áhuga á birtingarmyndum móðurinnar í afþreyingarmenningu og þess vegna fannst mér kaflinn um móðurina alveg hrikalega ófullnægjandi, hann er hins vegar ábyggilega ágætis kynning fyrir þá sem hafa ekki íhugað efnið áður. Stundum fór það líka rosalega í taugarnar á mér að bókin væri ekki örlítið fræðilegri, ég hefði viljað að hún hefði að minnsta kosti aftanmálsgreinar og að vísað væri nákvæmar í heimildir (það er heimildaskrá aftast, en sjaldnast veit maður nákvæmlega hvaðan þær hafa fengið upplýsingar).
Svo finnst mér höfundarnir ekki alltaf nógu róttækir. Jú, þær vilja rífa niður gamlar staðalímyndir, en svo segja þær líka að konur eigi bara að búa sér til nýjar og betri – eins og stereótýpur séu ekki alltaf takmarkandi og bara óþarfar. Þær þyrftu að minnsta kosti að skýra að hvaða leyti þær gætu gagnast konum. Ég held að flestir hafi einhvern tímann lent í því að vera þröngvað í einhverja staðalímynd, að einhver hafi reynt að skilgreina þá með því að vísa einfalda og klisjukennda týpu („já, þú ert svona týpan sem bla bla bla...“). Þeir sem hafa upplifað það vita að slíkt getur verið bæði pirrandi og særandi, fyrir utan það að enginn passar raunverulega inn í svona flokka, veruleikinn er alltaf flóknari en svo. Það er hins vegar fínt að lesa þessa bók með gagnrýnum augum, hlæja og ranghvolfa augunum yfir þessum fáránlegu skilgreiningartækjum og ræða svo um það við vini sína hvort það sé ekki full ástæða til að henda þeim bara í ruslið líkt og feministarnir gerðu í Atlantic City árið 1968.
1 ummæli:
þar se, ég get ekki líkað með FB takkanum, líka ég þetta hér með og legg blessun mína yfir þetta.
Skrifa ummæli