22. ágúst 2013

Þegar maður rokkpissar ...

48 er fyrsta ljóðabók Höllu Margrétar Jóhannesdóttur og bókin kom út á sumarsólstöðum í ár. Aftan á kápu er eftirfarandi inngangur að verkinu: „Talan 4 er jörðin. Traust og bundin. Hún vísar til höfuðáttanna fjögurra, til frumefnanna, jarðar, lofts, vatns og elds og til þess sem stendur stöðugt á fjórum fótum. Talan 8 byrjar hvergi og endar hvergi. Leggi maður áttuna á hlið birtist táknið ∞ sem í stærðfræði merkir hið óendanlega. Áttan er eilífðin. Halla Margrét er í bilinu, milli jarðar og eilífðar. 48 ár og 48 ljóð. Við erum stödd í skóginum miðjum, miðjunni miðri, í hálfleik, í leikhléi.“

Bókin skiptist í fjóra hluta sem heita Bernska, Morgnar, Leikir og Myndir. Í hverjum hluta eru 12 þematengd ljóð. Í fyrsta hlutanum er horfið til bernskuára með fimleikum, píanóspili, skátafundum, lakkrís og brotakexi.

EIN Á FERР
Það er myrkur á hitaveitustokknum 
og hraunið á vinstri hönd 
Hjálpræði ímyndunar: 
Ég fer flikk flakk á slá 
Ég kemst í splitt

Píanókennarinn bíður 
í Skátaheimilinu 
með nýklipptar neglur 
upp í kviku

Í öðrum hluta bókarinnar, Morgnum, nálgast ljóðmælandinn okkur í tíma og sjálft ljóðið kemur víða fyrir ásamt ástinni og ýmsu úr hvunndeginum. Halla Margrét kann að búa til orðaleiki, ljóðið Morgunverk 2 er bara tvö orð: kynlíf = ylfíkn. Mér finnst þessi annar hluti bókarinnar sístur en þar er samt þessi fíni prósi um jarðarför og erfidrykkju:SÍFELLT ENDURMAT
Í morgunmat, hádegismat og kvöldmat
fæ ég mér mat

Á milli mála
og í desert
narta ég í dómhörku

Ljóðið hér að ofan er það fyrsta í þriðja hlutanum, Leikir, en sá kafli og fjórði hlutinn, Myndir, höfða betur til mín en tveir fyrri hlutarnir. Þetta er auðvitað góður kostur bókar, að hún eflist og verði skemmtilegust undir lokin. Hér er dæmi úr þriðja kaflanum:

AÐ SKÁLDSKAPA GOÐSÖGU 
Ég neita að fara nakin í laugina nema við vöxum okkur fyrst. Vöxum okkur frá toppi til táar. Rökum af okkur hárið. Förum með rafmagnstætara inn í nasir og spænum hárin út. Troðum honum niður í lungu og rífum upp bifhárin. Vöxum bringu og bak, geirvörtur, venusarhæð og pung og plokkum burt þessi örfáu strá sem fá jafnan að vaxa villt rétt við boruna. Við skulum ekki gleyma hári á tám og fingrum.
Ef einhver hefur iljahár er hann afsakaður, forfallaður. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk leggi á sig slíkt. 

Í lokakaflanum eru ljóðrænar lýsingar á ljósmyndum. Bæði er um að ræða myndir sem lesandanum finnst hljóta að vera til í albúmum skáldsins og myndum sem aldrei hafa verið teknar. Þarna má t.d. finna nokkrar myndir sem sem voru teknar í myndavélalausri Helgafellsgöngu. Í ljóðinu Mynd 3 er fjallað um það sem sést ekki á myndinni.
Síðasta dæmið sem ég tek úr bókinni með ljóðunum 48 er Mynd 2 sem lýsir atburði á Flateyri og þar er minnst á dönsku konuna Susan Haslund, sem baðaði sig nakin í pínulitlu baði á íslenskum skemmtistöðum í sjö ár í röð frá áttunda áratugnum og fram á þann níunda.


Bók Höllu Margrétar sætir kannski ekki stórtíðindum en mér finnst 48 ljóð hennar samt eiga meira en skilið að fá athygli. Bókin er mun áhugaverðari en margt annað ljóðakyns sem er hampað. Ég hef á tilfinningunni að mörgum finnist ljóð helst eiga að fjalla um persónulega reynslu, gjarna úr bernsku og æsku, að ljóðabækur eigi að vera einhvers konar knöpp myndaalbúm úr einkalífi skáldsins. Mér heyrist sem margir sem á annað borð lesa ljóð hrífist af þannig skáldskap. Nostalgísk ljóð finnst mér hins vegar hafa umtalsverða tilhneigingu til að verða banal og kraftlaus, það þarf að vera einhver neisti í bernskuljóðum til að þau verði ekki kjánaleg. Ég veit ekki alveg hver galdurinn er en mögulega felst hann í því að skáldið nái að byggja upp fjarlægð og sulli ekki bara í einhverju persónulegu tilfinningajukki eða uppskrúfaðri tilgerð. Mér finnst Höllu Margréti takast misjafnlega vel að halda fjarlægðinni, en oft tekst henni mjög vel upp, og eins og sést vonandi á dæmunum hér að ofan eru fjölmargir áhugaverðir vinklar í ljóðunum hennar og þau eru oft fyndin. Ég hafði mjög gaman af að lesa 48 ljóð Höllu Margrétar Jóhannesdóttur og núna veit ég líka hvernig maður rokkpissar.

Engin ummæli: