9. ágúst 2013

Á slóðum Martins Montag í Berlín

Mollulegan laugardag í Berlín fyrir tæpri viku síðan tók ég neðanjarðarlestina á lestarstöðina Südstern ásamt frænku minni og beið þar í skuggsælu horni eftir að koma auga á kunnugleg andlit; við vorum í þann mund að leggja af stað í bókmenntagöngu um vestanvert Kreuzberg-hverfi Berlínarborgar, nánar tiltekið um söguslóðir skáldsagnanna Jójó og Fyrir Lísu eftir Steinunni Sigurðardóttur. Þær fjalla um lækninn Martin Montag, sem er búsettur í Kreuzberg, og hvernig hann tekst á við kynferðislega misnotkun sem hann varð fyrir í æsku. Maríanna Clara bloggaði um um Fyrir Lísu í vor.

Það var fámennur en góðmennur hópur sem lagði af stað í gönguna á laugardaginn, og fór hún fram á þremur tungumálum til skiptis, íslensku, þýsku og ensku. Fyrstu viðkomustaðir okkar voru kirkjugarðarnir tveir við Südstern, en þeir koma nokkuð við sögu í lífi Martins Montag. Kirkjugarðarnir eru þeir almenningsgarðar sem hann gengur um og þar finnur hann sér staðgengilsforeldra á himnum þegar hans eigin foreldrar bregðast honum. Í Fyrir Lísu gengur hann jafnframt til sálfræðings sem hefur sérkennilega aðstöðu innan kirkjugarðsmúranna, og er reyndar sjálfur allsérkennilegur. Við gengum jafnvel framhjá sjálfu heimili Martins Montag, í huggulegu hvítmáluðu fjölbýlishúsi.

"Hvíldartími útrunninn. Vandamenn vinsamlegast hafi samband við afgreiðslu."
Sem er það sem Martin Montag gerir í Fyrir Lísu.
Síðan lá leiðin framhjá nýtískulegu sendiráði Vatíkansins áleiðis upp á Tempelhof, flugvöllinn sem nasistar byggðu og bandamenn notuðu í loftbrúnni 1948-49 og nú hefur verið breytt í útivistarsvæði og almenningsgarð. Þar var fólk að grilla á flötunum og spila hafnabolta og Steinunn las kafla úr Fyrir Lísu um pedófóbíu aðalsöguhetjunnar.

Við gengum síðan áleiðis framhjá lögreglustöðinni sem Martin Montag heimsækir í Fyrir Lísu og niður á Marheineke Markthalle-markaðinn við Bergmannstrasse. Þar tylltum við okkur niður og við frænkurnar dreyptum á hinum eðla drykk hvítvíni í sódavatni, sem er að mínu mati með því besta sem hægt er að drekka í hitamollu.

Hæðin í Viktoriapark er ekki manngerð, en það er fossinn hins vegar.
Á markaðnum hittum við jafnframt sérlegan leynigest göngunnar, sem ég veit ekki hvort má ljóstra upp um hver var, en reyndist alltént fróður um sögu hverfisins og gekk með okkur á síðasta viðkomustaðinn, í Viktoriagarðinn, sem er mikill örlagastaður í lífi Martins Montag. Í Viktoriapark er hæsti náttúrulegi punktur Berlínar, það er að segja, þar er hæð sem ekki er gerð úr rústum seinni heimsstyrjaldarinnar eins og svo margar hæðir í Berlín. Það var á þessum efsta punkti sem göngunni lauk, að sjálfsögðu með upplestri, við prússneskt minnismerki um Napóleonsstyrjaldirnar, þakið glerbrotum eftir partí næturinnar.

Höfundurinn les úr Fyrir Lísu í Viktoriapark.
Þær Steinunn Sigurðardóttir og Júlía Björnsdóttir hafa staðið fyrir bókmenntagöngunum síðan í fyrra og hyggjast halda því áfram. Steinunn Sigurðardóttir er með síðu á Facebook þar sem upplýsingar um fyrirhugaðar göngur koma fram. Fyrir ferðamenn í borginni er prýðileg hugmynd að slást í för með þeim og fá nasaþefinn af þessum hluta Kreuzberg-hverfisins. Það er ekki nauðsynlegt að hafa lesið Jójó og Fyrir Lísu en vafalaust skemmtilegra, enda eru bækurnar töluvert staðbundnar, ef svo má segja, og landafræði þeirra hentug til slíkrar göngu.

Engin ummæli: