Í síðustu viku las ég einkar fagra barnabók sem er tiltölulega nýkomin út hjá Forlaginu. Listamaðurinn Bernd Ogrodnik hefur komið víða við í íslensku menningarlífi síðustu árin og ekki síst á sviði barnamenningar. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Bernd brúðulistamaður sem meðal annars hefur unnið að vel heppnuðum og vönduðum leiksýningum fyrir börn. Fyrir rúmum tveimur árum var frumsýnd barnasýningin
Gilitrutt eftir þá Bernd, Benedikt Erlingsson leikstjóra og fleiri góða listamenn. Sú sýning var einstaklega skemmtileg, metnaðarfull og hugvitssamleg, og fer sveimérþá bara efst á listann hjá mér yfir uppáhaldsbarnasýningarnar á síðustu árum. Nú hefur Bernd unnið bók upp úr sýningunni ásamt þeim Kristínu Maríu Ingimarsdóttur hönnuði og Silju Aðalsteinsdóttur þýðanda. Bókin nefnist
Gilitrutt og hrafninn, væntanlega til að koma í veg fyrir að henni sé ruglað saman við eldri útgáfur af þjóðsögunni þekktu um bóndakonuna lötu sem lætur blekkjast af tröllskessu en snýr að lokum á hana með aðstoð krumma og bónda síns. Bernd og Kristín María hafa áður unnið saman bókina
Pétur og úlfurinn, sem var sömuleiðis unnin upp úr brúðusýningu Bernds.
|
Kristín María og Bernd á góðri stundu |
Sagan er sögð bæði með myndum og orðum. Textinn er ekki látinn flæða inn í myndirnar eins og er ein aðferð við myndskreytingar, heldur er textinn til hliðar við myndirnar. Við fyrstu sýn fannst mér eins og þau Bend og Kristín væru þar með að missa af tækifæri til að samþætta texta og mynd, en við frekari umhugsun komst ég á þveröfuga skoðun og er eiginlega á því að myndirnar - sem eru ljósmyndir af brúðum og leikmynd Bernds - myndu ekki þola að texta væri blandað inn í þær og ómögulegt væri að gera það svo vel færi á. Galdrar þessa tiltekna myndheims liggja í öðru. Höfundur notar í grunninn nútímalegt orðfæri en fléttar við og við inn í "erfiðari" orðum sem er nokkuð sniðug aðferð; þannig skilst sagan þótt lesið sé fyrir lítil börn en tilefni gefst líka til að útskýra ókunnug orð, sem mér finnst sjálfsagður hluti af því að lesa fyrir krakka (vonandi vita foreldrarnir/kennararnir hvað vaðmál og bæjarburst eru!).
|
Pétur & úlfurinn
sem Bernd Ogrodnik hefur sýnt
fyrir ótal börn |
Myndirnar eru einstaklega fallegar og höfundum tekst vel upp með samsetningu, uppbyggingu og sjónarhorn. Það sem heillar við brúðuheim Bernds Ogrodnik er áferðin, leikurinn, smáatriðin og óvænt sjónarhorn, t.d. hvernig perspektívið breytist skyndilega og bóndakona sem áðan var tuttugu sentímetra stór er skyndilega orðin agnarlítil. Þannig verður veröld sagnanna virkilega lifandi og marglaga. Yfirleitt byggist brúðulist Bernds á viðurkenningu á forminu sjálfu, þ.e.a.s. við sjáum brúðumeistarann og nærvera hans er mikilvægur þáttur í hverri sýningu. Í bókarformi er þessu auðvitað öðruvísi farið en það er samt einhver brúðumeistaratilfinning yfir þessu öllu saman. Í Gilitruttarsýningunni var mikið unnið með íslenska ull og sú áferð fær að njóta sín í bókinni. Þannig höfðar bókin mjög til skynfæranna; við fáum tilfinningu fyrir áferð, þyngd eða léttleika, mjúkum lagði á dúllulegum kindum og hörðum viðargólfum á bæ þeirra hjóna, Jóns og Freyju, og svo mætti lengi telja. Ég er ánægð með þennan grip og gaman að leiksýningin um Gilitrutt skuli fá að lifa í fleiri birtingarmyndum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli