Hin knáa Kristina Ohlsson |
En nóg um það, ég hef nýlokið við tvær skandinavískar glæpasögur eftir höfunda sem hljóta að flokkast með þeim betri í þeim bransa og reyndust báðar bækurnar hin fínasta lesning. Fyrsta skal telja hina sænsku Verndarengla eftir Kristinu Ohlsson, en Kristina er fædd 1979 (ég stressast alltaf upp og fyllist minnimáttarkennd þegar ég les bækur eftir fólk á aldur við mig sem er búið að skrifa fullt af bókum), stjórnmálafræðingur og vann áður í einhvers slags hryðjuverkadeild hjá ÖSE. Nýlega kom út í Svíþjóð fimmta bókin í glæpaseríu hennar um Frediku Bergman, Alex Recht, Peder Rydh og félaga í Stokkhólmslögreglunni, en Verndarenglar er sú þriðja og kom út hjá Forlaginu á þessu ári. Áður höfðu komið út á íslensku Utangarðsbörn og Baldursbrár sem fjalla um þetta sama lögreglufólk. Hver bók er sjálfstæð og segir frá afmörkuðu glæpamáli en einkalíf Fredriku, Alex og Peder fléttast líka inn í söguþráðinn og því mæli ég með því að bækurnar séu lesnar í réttri röð.
Ég var svona þokkalega ánægð með fyrstu tvær bækur Kristinu Ohlsson; sögurnar voru nokkuð spennandi og ágætlega áhugaverð kemistría á milli aðalpersónanna, en í þeirri fyrstu fór fullmikið púður í kynningu á þeim og svo var eitthvað við Baldursbrár sem fór dálítið í taugarnar á mér og sú þótti mér ekki alveg nógu vel uppbyggð. Ég var þessvegna alveg temmilega spennt fyrir Verndarenglum og meira að segja lánaði hana tvisvar frá mér áður en ég las hana sjálf (fékk hana frá Kiljuklúbbi Forlagsins einhvern tíma um daginn). Það er hins vegar skemmst frá því að segja að Verndarenglar er algjör toppkrimmi og svo fór að ég parkeraði hinum bókunum sem ég var að lesa (já, ég er með margar í gangi í einu) og hesthúsaði þessari á þremur dögum. Ohlsson er búin að ná virkilega góðu valdi bæði á persónugalleríinu og frásagnartækninni; þrátt fyrir að hún gefi manni dramatískar upplýsingar strax í upphafi sem stjórna lestrinum og fylla mann satt að segja ákveðnum beyg þá heldur hún óvissunni lifandi og sagan tekur ótal óvæntar sveigjur. Þau Fredrika, Alex og Peder eru orðin mun áhugaverðari og þrívíðari persónur, og þrátt fyrir að Ohlsson fylgi hinu viðtekna mynstri um óhamingjusömu lögguna og sýni lögreglufólkinu sínu enga miskunn - "það á ekki af þessu fólki að ganga," hugsaði ég oftar en einu sinni - eru persónurnar í þróun og tilfinningalífið trúverðugt. Sjálf fléttan er virkilega vel heppnuð, sagan bæði óhugnanleg og spennandi. Stokkið er fram og til baka í tíma án þess að það verði nokkurn tíma ruglingslegt. Þýðing Jóns Daníelssonar þótti mér líka með ágætum og mun betri en þýðingin á Baldursbrám.
Svo ég minnist í örfáum orðum á söguþráð Verndarengla þá hefst rannsókn lögreglunnar á því að sundurbútað kvenmannslík finnst úti í skógi (klassískt). Stúlkan reynist hafa horfið sporlaust tveimur árum áður og í fyrstu gengur Alex og félögum illa að rekja slóðina. Inn í söguna fléttast einnig óhugnanlegt myndbrot úr fortíðinni, barnabókahöfundur sem hefur ekki mælt orð af vörum áratugum saman, sambýlismaður Fredriku og bróðir Peders sem býr á sambýli fyrir þroskaskerta.
Næsti krimmi á dagskrá var svo Skýrsla 64 eftir vin minn Jussi Adler-Olsen, en hann er einhver vinsælasti rithöfundur Dana um þessar mundir og hefur notið mikillar hylli fyrir bækur sínar um deild Q. Jón St. Kristjánsson þýðir þessa nýjustu bók um Carl Mørck, Assad og Rose í deild hinna gömlu mála í kjallaranum á aðallögreglustöðinni í Kaupmannahöfn. Skýrsla 64 er sú fjórða í bókaflokknum sem hérlendis kemur út hjá Forlaginu (og vel á minnst, kæra Forlag, skyldi einhver þaðan lesa þetta - þarf ekki að fara að uppfæra síðuna ykkar? Leitin er handónýt og ýmsir hlekkir vísa aðeins út í tómið!). Alls eru komnar út fimm í Danmörku svo við erum óðum að ná þeim.
Í fyrra bloggaði ég um Veiðimennina, aðra bókina í flokknum, og af einhverjum dularfullum ástæðum hefur útgáfa þeirrar þriðju alveg farið framhjá mér. Flöskuskeyti frá P kom út í fyrra, mögulega á því tímabili þegar ég hafði ekki tíma til að lesa neitt annað en Jane Austen og samtímafólk hennar. Það sem mér þykir einkar skemmtilegt við bækurnar um deild Q er rannsóknarliðið, þau Carl, Rose og Assad, sem stundum mynda spaugilegt mótvægi við óhugnanlega glæpi en eiga þó jafnframt sína fortíð, sorgir og leyndarmál. Í kringum Carl er svo ansi litskrúðugur hópur, til að mynda stjúpsonurinn sem einhvern veginn endaði hjá honum, leigjandinn Morten, gamli félaginn Hardy og nú síðast Mika, kærasti Mortens, en þegar hér er komið sögu er húsið hans Carls orðið fullt af þessum misskrítnu skrúfum. Gegnumgangandi í bókunum er mystíkin í kringum Assad og það hvernig hann endaði í Danmörku, og einnig árásin sem varð til þess að Carl missti félaga og annar slasaðist illa. Ég er hins vegar orðin ansi óþolinmóð eftir að fá meira að vita um þetta tvennt og þá sérstaklega fortíð Assads; ég bjóst fastlega við því eftir Veiðimennina að nú færu málin að upplýsast en það á greinilega að láta mann bíða lengur eftir því. Á einum stað í Skýrslu 64 hugsar Carl eitthvað á þá lund að kannski muni Assad leysa frá skjóðunni fyrr en síðar, og ég hnussaði upphátt og hugsaði með mér að því mætti Jussi alveg pæla í sjálfur.
Jussi er mystískur |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli