José Eduardo er kankvís |
Fortíðasölumaðurinn í portúgalska titlinum er albínóinn Félix Ventura, sem útvegar fólki nýja fortíð og ætterni fyrir peninga, en kameljónið í enska titlinum er væntanlega vísun í eðluna Eulálio sem býr í húsi Félix Ventura og er sögumaður bókarinnar. Eulálio var maður í fyrra lífi og samkvæmt vel lesnum netverjum eru ýmsar vísbendingar í sögunni um það hvaða maður hann var – rithöfundur nokkur frá Argentínu, allfrægur og vinsæll – en ég fattaði það auðvitað ekki.
José Eduardo Agualusa er af portúgölskum og brasilískum ættum en er fæddur og uppalinn í Angóla og sagan gerist að mestu í Luanda. Bókin segir frá samskiptum fyrrnefnds Félix Ventura við ýmsa dularfulla einstaklinga; Ângelu Lucíu, sem hann er ástfanginn af og sem ferðast um og tekur myndir af ólíkum blæbrigðum ljóssins, José Buchmann, sem byrjar skyndilega að renna saman við þá fölsku persónu sem Félix hefur skapað fyrir hann, útigangsmanninn og fyrrum öryggislögreglumanninn Edmundo Barata dos Reis sem fullyrðir að forsetanum hafi verið skipt út fyrir tvífara, og nafnlausan gjörspilltan ráðherra sem fær Félix til að skrifa fyrir sig upplognu sjálfsævisöguna Raunverulegt líf baráttumanns.
Það er ekki þétt plott eða æsilegir atburðir sem halda sögunni gangandi, þótt það bresti reyndar óvænt og dálítið ósannfærandi á með miklum hamagangi undir lokin. Frásögn eðlunnar er brotakennd og kaflarnir stuttir. Af og til er sagan rofin af draumum hans, eða ekki rofin því persónurnar í draumunum eru meira eða minna þær sömu og í sögunni og ekki alltaf auðvelt að greina á milli draums og vöku. Þegar ég svo bæti því við að frásögnin sé ljóðræn gæti þetta allt hljómað gríðarlega tilgerðarlega en textinn er léttur og flæðandi og húmorískur og mér finnst Agualusa yfirleitt ekkert uppskrúfaður þótt hann fílósóferi um sannleika og fölsun, fortíð og minni, og eigi það til að neimdroppa öðrum skáldum í gríð og erg.
Smá eðla í honum? |
En þótt hann sé ekkert eymdarlegur vakti Fortíðasölumaðurinn samt lukku í Evrópu. Bókin fékk Independent-verðlaunin sem besta erlenda bókin árið 2007, en José Eduardo Agualusa var fyrsti afríski rithöfundurinn til að hljóta þau. The Book of Chameleons er eina bókin sem er til eftir hann í enskri þýðingu á íslenskum bókasöfnum, en bréfaskáldsagan Nação Crioula er til í sænskri þýðingu á Þjóðarbókhlöðunni og heitir Kreolska riket.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli