Boðskapurinn er í grófum dráttum sá að við höfum gefið upp á bátinn hugsjónir um betra samfélag og látum okkur nægja einstaklingsmiðaða drauma sem tengjast persónulegum framgangi og aukinni neyslu. Hugsjónin um betra samfélag er hins vegar óeigingjörn, hún byggir á útópíu en ekki draumi.
Sem dæmi um þessa drauma tekur Björk draumaverksmiðjuna sjálfa, Disney. Ævintýramyndirnar úr þeirri verksmiðju og aðrar í svipuðum dúr eru gjarnan byggðar upp í kringum draum aðalsöguhetjunnar sem svo rætist. Söguhetja af lágum stigum sannar sig, kemst til metorða og ríkir svo yfir öðrum. Ekkert er hins vegar hróflað við stéttaskiptingu eða öðru óréttlæti. Samfélagið er þannig engu bættara, það er bara söguhetjan sem endar í betri stöðu en hún byrjaði í og við eigum að láta það nægja. Malarasonurinn verður kóngur, olnbogabarnið verður drottning og útskúfaði ljónaprinsinn nær völdum meðan dýr merkurinnar bugta sig fyrir honum og beygja. Hin rangláta samfélagsskipan stendur óhögguð og draumurinn rætist með auð og valdi.
Draumar okkar snúast líka mikið til um neysluvarning, segir Björk. Hún tekur dæmi af tímariti ætluðu mæðrum sem státar sig af því að innihalda engar predikanir heldur eigi það að hvetja og gleðja mæður. Blaðið reynist svo stútfullt af vörukynningum og mömmurnar geta látið sig dreyma um bleik sólgleraugu og alls konar dótarí. Hvers vegna er það predikun, spyr Björk, þegar hún talar um draum sinn um styttri vinnudag en pepp þegar einhver talar um draum sinn um skreytta kokteila? Hún segir svarið vera að hið fyrrnefnda feli í sér útópíu, draum um annars konar samfélag, sem ekki er vel séð í neyslusamfélagi nútímans.
Ég má láta mig dreyma um bleik sólgleraugu, um ómótstæðilega strigaskó á smábörn, um Taílandsferðir yfir jólin, um tíma fyrir sjálfa mig í baðkerinu með ilmkerti á nýjum gólfflísunum og um starfsferil sem vísar beint upp í loft rétt eins og nýkeypt orkídean á sófaborðinu. Það eina sem ég má ekki láta mig dreyma um er annar háttur á að haga tímanum og lífinu. Það eina sem ég má ekki láta mig dreyma um er önnur skipan hagkerfis og stjórnkerfis. Þá er ég nefnilega farin að predika (bls. 54).
Þeir draumar sem eru samþykktir eru sem sagt þeir sem falla að hinu ríkjandi kerfi þar sem neyslukapphlaupið er allsráðandi. Okkur er uppálagt að hugsa út frá okkar eigin hagsmunum og reyna að ná sem stærstri sneið af kökunni. En það er ekki bara neysla á varningi sem við eigum að láta okkur dreyma um heldur eigum við að gera okkur sjálf að neysluvarningi. Við þurfum að selja vinnuafl okkar, fá vinnuveitendur til að ráða okkur í vinnu og í starfinu þurfum við að veita þjónustu. Það sem okkur er uppálagt þar er að vera einlægir seljendur. Enginn vill þiggja þjónustu frá þeim sem er með gervibros, brosið skal vera ekta og við eigum að samsama okkur hlutverkinu, selja okkar raunverulegu tilfinningar og lifa okkur inn í starfið, finna til raunverulegrar gleði yfir hlutverkinu og vera vinir viðskiptavina okkar. Þarna eru mörk hins mannlega og hins efnahagslega gerð að engu, þetta rennur saman. Þetta gerist líka þegar við látum okkur dreyma um neysluvarning. Við látum okkur dreyma um hluti sem eiga að auðga líf okkar, fjölga gleðistundum fjölskyldunnar, veita okkur vellíðan, gleði og dýrmæt augnablik. Þannig höfða auglýsingar til tilfinningalífs okkar og við reynum að kaupa okkur góðar tilfinningar.
Björk heldur því líka fram að sú einstaklingshyggja, eða eiginhagsmunahyggja, sem gert er ráð fyrir að við öll aðhyllumst grafi undan pólitískri hugsun. Pólitísk afstaða snýst um það að hafa hugsjónir um samfélagið, skoðanir á því hvað sé gott samfélag. Þeir sem hugsa pólitískt verða því að geta horft út fyrir sína persónulegu hagsmuni og tekið ákvarðanir út frá því hvað sé gott fyrir samfélagið í heild. Þegar kjósendur taka hins vegar ákvarðanir sínar um hvað skuli kjósa eingöngu út frá því hvað komi sér best fyrir þá persónulega þá eru það ekki pólitískar ákvarðanir heldur einfaldlega eiginhagsmunagæsla. Þessar eiginhagsmunaákvarðanir eru nokkuð sem oft er höfðað til í kosningaáróðri. Þannig verða þær ákvarðanir sem eiga að heita pólitískar byggðar á eigingjörnum draumum en ekki þeim útópíuhugmyndum sem raunveruleg pólitísk hugsun þarf á að halda.
Eins og sjá má er þarna að finna beitta ádeilu á þá samfélagsgerð sem við sitjum uppi með, eða í það minnsta á öfl sem eru afar ráðandi bæði í hugsun okkar og samfélagi. Björk býður svo sem ekki upp á neinar lausnir á færibandi og úr ýmsu mætti vinna betur. En meginboðskapurinn er meinhollt umhugsunarefni: Við eigum að láta draumana víkja fyrir útópíum.
Björk heldur því líka fram að sú einstaklingshyggja, eða eiginhagsmunahyggja, sem gert er ráð fyrir að við öll aðhyllumst grafi undan pólitískri hugsun. Pólitísk afstaða snýst um það að hafa hugsjónir um samfélagið, skoðanir á því hvað sé gott samfélag. Þeir sem hugsa pólitískt verða því að geta horft út fyrir sína persónulegu hagsmuni og tekið ákvarðanir út frá því hvað sé gott fyrir samfélagið í heild. Þegar kjósendur taka hins vegar ákvarðanir sínar um hvað skuli kjósa eingöngu út frá því hvað komi sér best fyrir þá persónulega þá eru það ekki pólitískar ákvarðanir heldur einfaldlega eiginhagsmunagæsla. Þessar eiginhagsmunaákvarðanir eru nokkuð sem oft er höfðað til í kosningaáróðri. Þannig verða þær ákvarðanir sem eiga að heita pólitískar byggðar á eigingjörnum draumum en ekki þeim útópíuhugmyndum sem raunveruleg pólitísk hugsun þarf á að halda.
Eins og sjá má er þarna að finna beitta ádeilu á þá samfélagsgerð sem við sitjum uppi með, eða í það minnsta á öfl sem eru afar ráðandi bæði í hugsun okkar og samfélagi. Björk býður svo sem ekki upp á neinar lausnir á færibandi og úr ýmsu mætti vinna betur. En meginboðskapurinn er meinhollt umhugsunarefni: Við eigum að láta draumana víkja fyrir útópíum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli