11. febrúar 2014

Í gryfju Nabokovs: Guðrún Elsa og Kristín Svava spjallblogga um Pale Fire

KST: Sæl, Guðrún mín, velkomin í enn eitt Google Docs-skjalið! Þá er komið að því að við höldum áfram með druslubókaverkefnið Níðumst á Nabokov, sín hvoru megin Atlantsála, þó nokkuð löngu eftir að það hófst. Varst það ekki þú sem tókst fyrst upp Pale Fire hér um árið?

GEB: Sæl og blessuð, kæra Kristín Svava. Jú, það var víst ég sem tók hana fyrst upp, en ég er ansi hrædd um að ég hafi líka orðið síðust til að leggja hana niður.

KST: Þú tekur þér bara góðan tíma í að njóta þess unaðsmjúka súkkulaðikonfekts sem orðin eru.

GEB: Hér er mjög mikilvægt að lesendur átti sig á því að ekkert háð felst í þessum orðum þínum. 

KST: Það er hverju orði sannara.

GEB: „Unaðsmjúkt súkkulaðikonfekt“ er nefnilega alls ekki fjarri lagi. Fáir höfundar skrifa jafn fallegan og úthugsaðan texta og Nabokov. Ég hef allavega aldrei lesið höfund sem er jafn heillaður af tungumálinu, en mér skilst að hann hafi hrifist af engu eins og orðum, nema ef vera skyldi fiðrildum og skák. Annars hugsa ég að það hafi helst verið strúktúr sögunnar sem gerði það að verkum að ég dróst ekki beinlínis inn og var því lengi að klára bókina þrátt fyrir að hafa alltaf gaman af því að grípa í hana og lesa.

KST: Pale Fire er óvenjulega uppbyggð. Hún hefst á hinu 999 línu langa ljóði „Pale Fire“ eftir skáldið og háskólakennarann John Shade, en meginhluti bókarinnar er síðan útlegging Charles Kinbote, nágranna hans og kollega, á ljóðinu, línu fyrir línu. Kinbote er því aðalsögumaður bókarinnar. Í brotakenndri umfjöllun sinni um ljóðið segir hann jafnframt söguna af kynnum sínum af John Shade, en Kinbote er vægast sagt sérstakur, og frekar vafasamur, karakter.

GEB: Já, einmitt. Kinbote er frábær persóna, virkilega fyndin, en ég afskrifaði hann kannski fullfljótt sem geðsjúkling sem ekkert mark væri takandi á. Hann er afar gott dæmi um óáreiðanlegan sögumann og það er ljóst frá upphafi, alveg frá fyrstu blaðsíðu inngangs hans að ljóði Shades. Eftir á að hyggja hefði ég viljað lesa söguna sem hann segir svo í útskýringunum á ljóðinu gaumgæfilegar, vegna þess að ég veit að ég missti af smáatriðum sem skiptu máli þegar leið á bók, ég var til dæmis vandræðalega lengi að kveikja á mjög mikilvægu atriði sem ég veit að aðrir lesendur – þar á meðal þú – áttuðu sig á mun fyrr… en ég vil ekki koma með neina spoilera. Mistökin sem ég gerði voru að vera alltof föst í ljóði Shades þegar ég hefði frekar átt að gefast frásögn Kinbotes á vald. Textinn er að minnsta kosti margslunginn og ég get vel ímyndað mér að það væri gaman að lesa bókina aftur.

Hljómsveitin Pale Fire – myndin tengist
efni bloggsins óbeint.
KST: Ég átti einu sinni samtal við annan lesanda, sem var ekki mjög hrifinn af Nabokov af því að honum fannst hann hafa of mikla stjórn á skáldskapnum, taka hann of yfirveguðum tökum. Þá hafði ég bara lesið Lolitu og var ekki alls kostar sammála, en við lesturinn á Pale Fire skildi ég betur hvað hann átti við; þetta er allt svakalega útreiknað af hálfu höfundar, næstum mekanískt. Hinn óáreiðanlegi sögumaður - sem er fyrirbæri sem ég hef mjög gaman af - krefst auðvitað alltaf ákveðinna úthugsaðra bragða af hálfu höfundar, en einhvern veginn fannst mér það þjóna minni endanlegum tilgangi hér en í Lolitu.

GEB: Munurinn á bókunum tveimur liggur ekki síst í muninum á þessum tveimur óáreiðanlegu sögumönnum; í Lolitu leikur Nabokov sér með samsömun lesenda við aðalsöguhetjuna og fokkar þannig rosalega í manni, á meðan lesandi heldur alltaf fjarlægð við Kinbote – hann hefur afskaplega lítinn sjarma og er einhvern veginn í sífellu að afhjúpa það hversu mjög hann er á skjön við alla í kringum sig, sem verður pínlegt en líka mjög fyndið á köflum.

KST: Nákvæmlega. Eitt af því sem kemur mér á óvart í viðbrögðum margra við Lolitu, þeirra sem vilja helst lesa hana sem sögu af forboðnu ástarsambandi fullorðins karlmanns og kornungrar stúlku en ekki sem sögu um valdbeitingu, er að mér finnst sá lestur gera heldur minna úr skáldskaparhæfileikum Nabokovs en efni standa til. Fyrir mér er það einmitt þessi meistaralega beiting hans á hinum óáreiðanlega sögumanni sem er grundvöllur þess hversu góð og áhrifarík bók Lolita er, og ég held ekki að sú túlkun þurfi endilega að fela það í sér að maður geri ráð fyrir mórölskum skilaboðum af hálfu Nabokovs. (Mér finnst ólíklegt annað en að Nabokov - sem ég veit reyndar lítið um - láti stúlkuna Dolores Haze fyrst og fremst lúta sínum eigin listræna metnaði en ekki einhvers konar femínískum áróðri.) Hvað sem því líður fannst mér Pale Fire mun síður eftirminnileg - það hversu oft mér varð hugsað til hennar síðustu mánuði stafaði frekar af þessu langa bloggskrifaferli okkar en áhrifum bókarinnar sjálfrar.

GEB: Hér finnst mér samsömunin líka skipta mjög miklu máli, slagkraftur Lolitu felst ekki síst í því að Nabokov dregur lesandann inn þannig að hann gleymir því bókstaflega á köflum hversu sjúkur karakter Humbert Humbert er, en verður fyrir þeim mun meiri áhrifum þegar hann rankar allt í einu við sér og hugsar: „bíddu nú við, hér var aðalsöguhetjan að nauðga tólf ára barni.“ Líka vegna þess að Humbert Humbert sjálfur miðlar sögunni og vísbendingar um það sem raunverulega er í gangi eru gjarnan svo lúmskar. Maður þarf ekkert að vera móralisti til að láta það trufla sig, þetta er ekkert Woody Allen – Soon Yi dæmi, hér er alls ekki verið að dansa á neinni (vissulega afar óþægilegri) línu.

Kristín Svava komst yfir mynd af
Birni og vann með hana í paint-
forritinu.
KST: Við reyndumst hafa frekar svipaða skoðun á bókinni eftir að við höfðum klárað hana, og til að fá annað sjónarhorn settumst við niður í óþolandi hávaða Stúdentakjallarans (væri einhver til í að láta þá vita að sándtékk á kvöldmatartíma sé ekki besta hugmynd í heimi?) með fremsta sérfræðingi landsins í Pale Fire, Birni Þór Vilhjálmssyni.

GEB: Mikið rétt! Björn Þór hrópaði margt áhugavert á meðan á þessu notalega sándtékki stóð, hann ræddi meðal annars hinsegin lestur á bókinni og benti líka á að það er í raun stöðugt verið að níðast á vesalings Kinbote í háskólaumhverfinu sem hann reynir að tilheyra. Því er gjarnan miðlað lúmskt, eins og barnagirnd Humberts Humberts, en vegna þess að hann er svona ósympatískur þá hættir manni til þess að horfa framhjá því sem hægt væri í raun að kalla einelti og hlæja með hinum að honum. En ég er sammála Birni um að samkynhneigð sé mikilvægur þáttur í sögunni og stór þáttur í því hvers vegna Kinbote er, eins og ég orðaði það hér fyrir ofan, á skjön við aðrar persónur. Ég held að grundvallarmunurinn á því hvernig við og Björn upplifðum söguna felist kannski í þessari samsömun sem ég er alltaf að tala um, eða fjarlægðinni sem er haldið við lesanda, sem Björn fílaði meira en við. Ég þoli samt ekki tilhugsunina um að tilfinningaleg tengsl mín við sögupersónur skipti svo miklu máli, ég fer ósjálfrátt að hugsa um ákveðinn bókmenntagagnrýnanda sem þoldi ekki The Road eftir Cormac McCarthy vegna þess að litli drengurinn í bókinni hreyfði ekki nóg við henni. Nei, þetta samræmist engan veginn þeirri mynd sem ég hef af sjálfri mér – til dæmis hataði ég The Road af allt öðrum ástæðum. En nú er ég aðeins farin út fyrir efnið. Ég held að ég sé að reyna að segja að ég sé voðalega töff. Hvað segir þú um þetta mál, Kristín Svava?

Nabokov hreifst af fiðrildum og skapaði
gjarnan krípí sögupersónur.
KST: Getum við samt ekki alveg notið þess að lesa bækur þótt við tengjumst sögupersónunum ekki tilfinningalega eða samsömum okkur þeim? Ég fann bara einhvern veginn ekkert annað í Pale Fire sem mér fannst nógu spennandi. Byggingin er alveg sniðug en hreif mig samt ekkert sérstaklega. Hins vegar fannst mér samkynhneigði þráðurinn sem Björn Þór lagði áherslu á mun áhugaverðari. Sjálf hafði ég ekki áttað mig almennilega á honum, mér fannst krípfaktorinn í hegðun Kinbote skemmtilegur og hugsaði meira um hann sem hefðbundinn stjáklara - féll kannski þar með í gryfjuna sem Nabokov ætlaði mér. Það getur þess vegna vel verið að mér þætti bókin betri við annan lestur...en ég held ég nenni honum ekki í bráð.

GEB: Jú, ég held að þetta sé alveg rétt hjá þér, fjarlægðin er snilld ef maður hrífst af því sem höfundurinn er að gera. Og ég er sammála þér með krípfaktorinn, hann var með því skemmtilegasta við verkið! Fátt gleður mig jafn mikið og almennilegur stjáklari.

KST: Eigum við kannski að nota tækifærið til að mæla með því við rithöfunda allra landa að þeir séu soldið meira krípí?

GEB: Ekki spurning.

Engin ummæli: