Sýnir færslur með efnisorðinu Stieg Larsson. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Stieg Larsson. Sýna allar færslur

11. júní 2010

Reyfarajúní ... glæpir í Skandinavíu

elsku_poona_fossumraudbrystingur0069
Fast á hæla reyfaramaí fylgir að sjálfsögðu reyfarajúní. Síðan skóla lauk um miðjan maí hef ég kastað frá mér í fússi nánast öllum bókum sem ekki innihalda alla vega eitt gróft morð – ég vil ekki sjá efnahagsbrot eða fíkniefnamisferli – morð skal það vera.

Ég hef fleygt mér skammlaust í faðm skandinavískra glæpahöfunda sem þýðir að sjálfsögðu að miklum tíma hefur verið eytt í félagsskap drykkfelldra, þunglyndra lögreglumanna sem ekki spila alltaf eftir leikreglunum og eru undantekningalítið upp á kant við yfirboðara sína.

Í maí lokaði ég með söknuði Stieg Larsson hringnum þegar ég las loksins síðustu bókina í Millennium séríunni – ég sá nú meira eftir Lisbet Salander en Michael Blomkvist en ég er varla sú eina sem þreyttist örlítið á yfirgengilegri kvenhylli hans – látum vera að þær svæfu allar hjá honum  - en að hver ein og einasta yrði líka ástfangin af honum fannst mér orðið dáldið vandræðalegt. Þegar þessi aríska útgáfa af Grace Jones úr öryggislögreglunni horfði á hann sofandi með tárvotum augum áður en hún fór í ræktina að beygja stál með berum höndum var mér eiginlega allri lokið. En samt...leiðinlegt að vera búin með þessar bækur – Salander er stórskemmtileg og sagan hörkuspennandi!

Á eftir Larsson kom Karin Fossum með Elsku Poona – afskaplega niðurdrepandi samfélagsádeila þar sem ég gat ómögulega ákveðið mig hvort væri skuggalegra – rasisminn eða kvenhatrið í þessum huggulega smábæ í Noregi. Þrátt fyrir þunglyndið var hún þó ekki gersneydd húmor og endirinn skemmtilega/óþægilega opinn.

Rasisminn og kvenhatrið halda svo áfram að blómstra í Rauðbrystingi Jo Nesbö og fullkomnast næstum í framhaldinu Nemesis. Þar er lögreglumaðurinn Harry Hole ekki bara drykkfelldur heldur blússandi alkóhólisti sem getur ekki einu sinni verið viss um að hafa ekki framið morð í blakkáti. Þorgerður sagði réttilega að plottið væri hin sterka hlið Nemesis og það sama á við um Rauðbrystinginn sem er brjálæðislega spennandi. Hins vegar varð ég næstum jafn æst yfir öllum innsláttarvillunum sem eru ekki eins mikil meðmæli – útgefendur: PRÓFARKALESA – ég bið ykkur á hnjánum! Þriðja bókin um Harry Hole er ekki væntanleg fyrr en 2011 svo ég sprakk á limminu og keypti fjórðu bókina á ensku – þriðja var ekki til. Nú er bara að vona að þessi uppstokkun eyðileggi ekki undirliggjandi auka atburðarás sem virðist ætla að halda áfram út í gegnum bækurnar...

Það er ófögur mynd sem Larsson, Fossum og Nesbö draga upp af skandinavísku samfélagi – en þó birtist vonin alltaf í formi þunglyndra og alkóhólíseraðra lögreglumanna (og stöku kvenna) sem þrátt fyrir allt eru prinsipp fólk sem leggur allt í sölurnar til þess að eitthvað réttlæti megi ná fram að ganga.

Maríanna Clara

22. janúar 2010

Hver skrifaði bækurnar eftir Stieg Larsson?

stieg

Enn eina ferðina er allt að verða tjúllað út af Stieg heitnum Larssyni. Vinur hans, Kurdo Baksi, gaf nýlega út bókina Min ven Stieg Larsson þar sem hann segir Stieg hafa verið meðalmenni í blaðamannastétt en sambýliskona Stiegs segir bókina óhróður og níð. Og ekki nóg með það, fyrrverandi kollegi Stiegs úr blaðamannastéttinni, Anders Hellberg, segir í meira lagi grunsamlegt að Larsson hafi skrifað bækurnar vinsælu um Lisbeth Salander og Mikael Blomqvist. Hann grunar kærustuna, Evu Gabrielsson, hreinlega um að hafa stýrt pennanum. Anders Hellberg segir að Stieg hafi verið hugmyndaríkur rannsakandi en að hann hafi hreinlega ekki kunnað að skrifa og hafi Eva Gabrielsson verið með puttana í handritunum sé það ekki í fyrsta skipti sem ástkonur karlkyns rithöfunda hafi átt meiri þátt í þeirra verkum en almennt sé viðurkennt. Anders Hellberg heldur því fram að til þess að skrifa sögur á borð við verk Stiegs Larssons þurfi menn vissulega að búa yfir kostum sem höfundurinn (meinti) hafi haft en hins vegar hafi skriftir verið hans veika hlið. Hellberg fullyrðir að eftir að hafa árum saman, oft kvöld eftir kvöld, lesið það sem Stieg skrifaði, hafi hann gert sér grein fyrir því að sjálft handverkið var ekki hin sterka hlið þessa fjölhæfa manns. Fyrir þá sem vilja lesa meira um deilurnar eru hér krækjur á grein Anders Hellbergs í Dagens nyheter og meira um deilurnar í Politiken. En á meðan klögumálin ganga á víxl eru bækurnar rifnar út og um helgina ætla ég að horfa á bíómyndina um stúlkuna sem lék sér að eldinum.

Þórdís

8. ágúst 2009

Stieg Stieg Stieg

Fyrstu dagana sem myndin Karlar sem hata konur var sýnd á Íslandi fóru yfir tíuþúsund manneskjur í bíó til að sjá hana og ég er ein þeirra. Ég er ekki nema mátulega hrifin af myndinni, sé eiginlega smá eftir að hafa ekki hlaðið henni niður ólöglega og sent Evu Gabrielsson, sambýliskonu Stiegs heitins Larssons, pening í pósti fyrir. Allir sem hafa séð heimildarmyndina um Stieg og Millenium-fyrirbærið vita hvers vegna mann langar lítið að styrkja erfingjana. En hvað sem því líður þá halda bækurnar um Mikael Blomqvist og Lisbeth Salander áfram að seljast og von er á mynd númer tvö í haust, hún á örugglega eftir að slá í gegn líka og sömuleiðis sú þriðja.

Fyrr í sumar fékk Stieg Larsson bresk bókmenntaverðlaun fyrir Karla sem hata konur. Bókin, sem á ensku kallast The girl with the dragon tattoo, fékk British Book Awards sem glæpasaga ársins. Meðal annarra British Book Awards-verðlaunahafa er Barack Obama sem fékk viðurkenningu fyrir æskuminningarnar Dreams from my father.

Danska forlagið Modtryk, sem gefur út bækur Stiegs, græðir auðvitað á tá og fingri enda hafa 1,3 milljónir eintaka af bókum hans selst á dönsku. Politiken hafði það eftir forleggjaranum um daginn að gróðinn væri svo mikill að forlagið ætlaði að stofna sérstakt barnabókasysturforlag og nota hluta af millenium-peningunum til að gefa út barnabækur. Gott mál!

Og nú eru víst þrjár bækur UM Stieg Larsson á leiðinni og margir bíða áreiðanlega spenntir eftir þeim. Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Kurdo Baksi (hann kemur fyrir í eigin persónu í þriðju bókinni) vinnur að bók sem á að koma fljótlega út hjá Norstedts í Svíþjóð. Sú bók hefur vinnuheitið Vinur minn Stieg. Þar segir höfundurinn frá góðum og slæmum hliðum Stiegs og langvarandi vináttu þeirra tveggja. Forleggjari bókaforlagsins Ordfront, Jan-Erik Pettersson, vinnur líka að bók um Stieg Larsson, það verk á að vera hefðbundin ævisaga byggð á heimildum. Loks er sambýliskonan, Eva Gabrielsson, sem fær ekki krónu af öllum peningunum sem flæða inn, líka að skrifa bók en hún vill ekki ræða hana í bili.

23. febrúar 2009

Konur sem hata karla

Þúsaldarþríleikur Stiegs Larssons hefur að sögn sænskra blaða selst í yfir tíu milljónum eintaka. Fyrsta bókin, Karlar sem hata konur, kom út á íslensku fyrir jólin. Á föstudaginn verður bíómynd sem gerð er eftir bókinni frumsýnd í Svíþjóð og auðvitað má búast við nýjum sölukipp í kjölfarið. Þýðingarréttur bókanna hefur verið seldur til um þrjátíu landa og bækurnar um Lisbeth Salander og Mikael Blomkvist hafa undanfarið sturtast úr prentvélum um allan heim.

Menn velta því auðvitað fyrir sér hvað geri einmitt þessar bækur svona vinsælar og ómótstæðilegar, við sem höfum lesið þær vitum að það er næstum ómögulegt að slíta sig frá þeim þegar maður er einu sinni byrjaður. Skýringar lesenda og þeirra sem allt þykjast skilja og vita eru auðvitað fjölbreyttar. Sögurnar finnst mörgum vera í meira lagi lunkin samtímalýsing og persónurnar eru um margt óvenjulegar og heillandi. Í bókunum er hefðbundnu kynjahlutverkunum til dæmis snúið á rönguna; Lisbeth Salander, aðalkvenhetjan, er húðflúraður tölvunörd og slagsmálahundur en karlhetjan, Mikael Blomkvist, er hins vegar tilfinningaríkur og mjúkur náungi. Svo eru bækurnar vel skrifaðar og úthugsaðar, nú og loks má nefna að einkamál og erfðamál höfundarins heitins hafa líka farið hátt og mikið verið um þau skrifað, en óþarfi er að segja frá því hérna.

Áður en hinn stórmerkilegi blaðamaður og baráttumaður Stieg Larsson lést úr hjartaáfalli árið 2004 hafði hann skrifað þrjár og hálfa bók í röð sem hann hafði hugsað sér tíu bóka seríu en ekkert var enn komið út. Við hann var tekið eitt einasta viðtal um bækurnar og þar sagði hann að hann hefði haft stórvinkonu okkar allra, Línu langsokk, sem fyrirmynd Lisbeth Salander. Hann hugsaði sér Línu orðna tuttugu og fimm ára, félagslega óhæfa og uppá kant við allt og alla en auðvitað algjöra ofurkonu. Ég persónulega sé samt Lisbeth meira fyrir mér sem fullorðna hliðstæðu Míu litlu í Múmínálfabókunum; hún er pínulítil og þvengmjó, oft öskureið, öllum óháð, reddar sér í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum og vílar ekki fyrir sér að kála andstæðingum sínum. En varðandi persónur Astridar Lindgren þá hljóta margir að hafa tekið eftir að Mikael Blomkvist er nafni persónu úr safni þeirrar góðu konu, þar er auðvitað átt við ráðagóða og vandaða leynilögreglumanninn Kalla Blómkvist, tvær bækur um hann komu út á íslensku á sjötta áratug síðustu aldar í þýðingu Skeggja Ásbjarnarsonar.

Nú er bara að vona að bíómyndinni um Salander og Blomkvist skoli hingað upp á sker hörmunganna sem allra fyrst.

Femínistinn Nina Björk skrifaði í fyrra grein í Dagens Nyheter um Lisbeth Salander. Hér er tengill á greinina. Ef einhverjir eru ofurspenntir yfir efninu en skilja ekki sænsku þá gæti ég alveg þýtt hana eða skrifað útdrátt – en það geri ég aðeins vegna fjölda áskoranna.

18. janúar 2009

Eðalglæpir í boði Svía

Það þarf varla að taka fram að Íslendingar hafa tekið glæpasögum fagnandi á undanförnum árum, Arnaldur er kóngurinn og á hæla hans koma hinir ýmsu krónprinsar og svo Yrsa. Flestir þessara höfunda skrifa sögur sem eru í ætt við skandinavísku glæpasagnahefðina svokölluðu þar sem þjóðfélagsmálum og allskonar félagslegum vandamálum er fléttað saman við glæpaplottið. Vandamálin liggja venjulega ekki síst hjá aðalsöguhetjunum sem eru upp til hópa misvirkar fyllibyttur, iðulega með að minnsta kosti einn hjónaskilnað að baki og ýmisskonar samskiptavandræði þar að lútandi.

Ég held að það megi segja að íslenskar glæpasögur hafi notið mikillar velvildar og athygli lesenda og fjölmiðla. Það má líka segja að íslenskar glæpasögur verði sífellt betri en það má hinsvegar deila um það hvort þær standist samanburð við það besta í þessum geira. Fyrst og fremst finnst mér að íslenskir glæpasagnahöfundar megi oft vanda sig betur þegar kemur að plottinu en glæpasaga er auðvitað ekkert á almennilegs plots. Þeir fjölmörgu sem hafa látið dáleiðast af Millenium þríleik Stieg Larsson vita hvað ég á við, þær bækur eru gríðarlega vel skrifaðar og spennandi, sérstaklega sú fyrsta sem kom út fyrir nýliðin jól í íslenskri þýðingu. Það fór að vísu merkilega lítið fyrir henni í jólabókaoforsinu, svona miðað við vinsældir höfundarins, en enskar þýðingar á tveimur fyrstu bókunum eru vinsælustu glæpasögur bresku amazon netverslunarinnar þegar þetta er skrifað. Stieg Larsson var blaðamaður, þekktastur fyrir skrif sín og þekkingu á hægri öfgahreyfingum og kynþáttafordómum, en hann fékk hjartaáfall og lést árið 2004. Bækurnar komu út eftir andlát hans en hér má lesa meira um Stieg Larsson og bækur hans. Mér tókst að rúlla í gegnum múrsteinsígildin þrjú á undraskömmum tíma og veit til þess að það á við um ansi marga. Þeir sem vilja lesa allar bækurnar í einum rykk verða þó að sætta sig við það að lesa þær á einhverju öðru tungumáli en íslensku eða ensku, það er von á síðustu bókinni á ensku á þessu ári og vonandi er ekki langt í bók númer tvö á íslensku.

Karlar sem hata konur var ekki eina sænska glæpasagan sem gefin var út fyrir þessi jól hérlendis, einnig kom út þýðing á bók eftir Henning Mankell en hún er ekki síst merkileg fyrir þær sakir að druslubókadama nokkur þýddi hana af mikilli list. Þetta er bókin Fyrir frostið (Innan frosten 2002)en í henni er Linda Wallander, dóttir lögregluforingjans Kurt Wallander í aðalhlutverki, hún er nýútskrifuð úr lögregluskólanum þegar hér er komið sögu og er um það bil að hefja störf við hlið föður síns. Hér er fjallað um trúarofstæki sem á rætur sínar að rekja til raunveruleikans svokallaða, en við sögu kemur söfnuður Jim Jones og fjöldasjálfsmorð safnaðar hans í Jonestown í Gvæjana. Þeir sem hafa sjúklegan áhuga á fjöldamorðingjum og ofsatrúarhreyfingum, eins og ég, ættu því að kunna að meta þessa ágætu bók. Einhvern tímann var því haldið fram að Henning Mankell hefði stolið frá Arnaldi Indriðasyni. Einhvern veginn finnst mér það ólíklegt.

Í lokin langar mig aðeins að minnast á ansi hreint fína glæpasögu eftir enn einn Svíann, Håkan Nesser. Þetta er bókin En helt annan historia sem fékk sænsku glæpasagnaverðlaunin árið 2007. Nesser hefur skrifað heil ósköp af glæpasögum og einhverjar hafa verið þýddar yfir á ensku en hinsvegar kannast Gegnir ekki við að neitt hafi komið út eftir þennan höfund á íslensku. Einhversstaðar heyrði ég að Nesser sé uppáhalds glæpasagnahöfundur Ævars Arnar Jósepssonar en sel það svo sem ekki dýrara en ég keypti það. Ef eitthvað er að marka þessa einu bók sem ég hef lesið er óhætt að mæla með Nesser fyrir glæpasagnaaðdáendur. En helt annan historia er önnur bókin í svokölluðum Barbarotti þríleik og ég er nú þegar búin að útvega mér fyrstu bókina sem bíður nú eftir næsta glæpasagnaskeiði í mínu lífi.

Ég les glæpasögur nefnilega í skorpum og nú hef ég snúið mér að öðru í bili.