Sara Stridsberg |
Allt frá því ég heyrði fyrst um skáldsöguna Drömfakulteten hefur hún kallað á mig, enda fjallar hún um Valerie Solanas sem fræg er fyrir karlhatandi manifestó sitt SCUM, sem ég þýddi fyrir mörgum árum á íslensku og kom út undir nafninu SORI. (Það hefur lengi verið á dagskrá hjá mér að endurskoða þessa ungæðislegu þýðingu mína og gera hana aðgengilega á netinu, vonandi kem ég mér að því áður en mjög langt um líður.) Ákall skáldsögunnar var hins vegar eðli málsins samkvæmt á sænsku og ég er svo ókúltíveraður plebbi að hana get ég ekki lesið mér til ánægju. Nú hefur bókin loksins verið þýdd á ensku undir titlinum The Faculty of Dreams, var meðal annars á langa tilnefningalistanum til Man Booker-verðlaunanna í fyrra, og það er komið eintak á Borgarbókasafnið í Grófinni; var mér þá ekkert að landbúnaði að vinda mér í lesturinn. Í stuttu máli sagt elskaði ég bókina svo mikið að ég finn mig knúna til að skrifa systurblogg við færslu Þórdísar frá 2009 og vekja athygli annarra ó-sænskumælandi lesenda á verkinu.
Draumadeildin fjallar, sem fyrr segir, um bandaríska skáldið Valerie Solanas. Hún var fædd árið 1936, æska hennar markaðist af erfiðu heimilislífi og ofbeldi og hún fór ung að heiman. Hún lærði sálfræði í háskóla en flosnaði upp úr náminu á síðari stigum og flutti til New York. Tvö meginritverk hennar, hvorugt mikið að vöxtum, eru leikritið Up Your Ass frá 1965 og manifestóið SCUM frá 1967 en þau innihalda mikla reiðilestra yfir hinu ófullkomna karlkyni, sem hún vill fjarlægja úr veröldinni með ýmsum misharkalegum aðferðum. Í New York kynntist Solanas Andy Warhol og fólkinu í The Factory en þegar hann hafði ekki áhuga á að setja upp leikritið hennar reiddist hún og endaði á að skjóta hann og særa lífshættulega árið 1968. Hún átti við geðræn vandamál að stríða og mikil eiturlyfjaneysla bætti ekki úr skák. Hún var oft heimilislaus og framfleytti sér með vændi. Eftir fangelsisvistina í kjölfar árásarinnar á Warhol lifði hún á jaðri samfélagsins, fyrst á austurströndinni en svo í San Francisco þar sem hún lést úr lungnabólgu á gistiheimili fyrir heimilislausa árið 1988. Valerie Solanas
Skáldsaga Stridsberg fylgir ævi Solanas í grófum dráttum en er þó alls ekki hefðbundin ævisaga heldur það sem höfundurinn hefur kallað „litterär fantasi“, magnaður samruni skáldskapar og raunveruleika á mörgum plönum. Frásögnin er tilraunakennd og ögrandi án þess að vera hörð undir tönn, heimspekileg án þess að vera uppskrúfuð, draumkennd og ljóðræn án þess að vera tilgerðarleg (hér opinberast allir mínir fordómar gagnvart tilteknum gerðum texta). Margir kaflar eru í formi samtala, milli persóna eða milli persóna og höfundar. Byggingin er brotakennd, kaflarnir stuttir og stokkið til og frá í tíma og rúmi, en eins konar útgangspunktur eru síðustu stundir Solanas á gistiheimilinu í San Francisco þar sem sögukonan kemur sér fyrir í herberginu með henni og á í samræðum við hana um söguna meðan endalokin færast nær; heldur í höndina á henni, reynir að koma á tengslum, miðla samkennd.
Solanas er uppreisnargjörn fram í rauðan dauðann, beitt og sniðug, illskeytt og agressív, flókin persóna (sem sumum lesendum finnst greinilega mjög fráhrindandi, samanber til dæmis skoðanaskipti karlanna í kommentakerfinu hér) en persónustúdía Stridsberg er líka flókin og blæbrigðarík. Í frásögninni nær hún á einhvern ótrúlegan hátt að sameina skarpa listræna fjarlægð, sem stundum er grimm og óþægileg, og einbeitta mannlega hlýju og næmni gagnvart viðfangsefninu. Í bakgrunninum eru alltaf erfiðar aðstæður Solanas, fátæktin, heimilisleysið og ofbeldið, en án þess að þær séu dregnar fram sem einföld skýring á persónu hennar og örlögum. Samtímis bregður Stridsberg upp mjög áhugaverðri mynd af tengslum Solanas við aðrar konur og kvennahreyfinguna, sem eru ekki síður full af andófi og togstreitu; þótt hún sé jafnan talin til femínískra höfunda sjöunda áratugarins passaði hún að mörgu leyti illa inn í hópinn, rakst yfirhöfuð illa í hóp, og lifði sjálf á jaðrinum og leit svo á að kvennahreyfingin samanstæði aðallega af borgaralegum pabbastelpum.Ég er ekki búin að taka saman lista og tölfræði yfir lestur ársins 2020 en ég held að mér sé óhætt að fullyrða að Draumadeildin sé besta skáldsaga sem ég las á árinu. Sara Stridsberg er algjör töframaður og ég vildi að það hefði meira verið þýtt eftir hana á íslensku. Þórdís hafði það eftir gagnrýnanda Dagens Nyheter á sínum tíma að Stridsberg tækist bæði að sýna kalda skarpskyggni og skrifa texta sem minnti á brennandi ástarbréf – hún á sjálf skilið að fá eitt stykki brennandi ástarbréf fyrir þessa bók.
1 ummæli:
BUSINESS LOAN PERSONAL LOAN HERE APPLY NOW WhatsApp +918929509036 financialserviceoffer876@gmail.com Dr. James Eric
Skrifa ummæli