8. apríl 2010

Barnabækur vítt og breitt

BornogMenning 1 2010Þessa dagana smjúga vorhefti Barna og menningar eitt af öðru inn um bréfalúgur áskrifenda.  Börn og menning er alþýðlegt fræðirit sem kemur út vor og haust og er gefið út af Íslandsdeild IBBY-samtakanna, sem eru samtök áhugafólks um víða veröld sem vill efla barnamenningu og ekki síst barnabókmenntir. Nýja heftið, sem er fjörutíu síður, er fullt af efni sem tengist menningu barna. Þar er t.d. umfjöllun um barnastarf á söfnum, barnamenningarhús, grein um Múmínálafabókina Halastjörnuna eftir Tove Jansson og nokkrar greinar um nýjar bækur og leikrit sem eru á fjölunum og ætlaðar börnum, auk ýmislegs annars.

Forsíða blaðsins er auðkennismynd barna- og unglingabókmenntahátíðarinnar Myndir úti í mýri, sem haldin verður í Norræna húsinu síðar í mánuðinum, en Áslaug Jónsdóttir hefur hannað myndina. Mýrarhátíð er nú haldin í fimmta skipti síðan 2001 en um er að ræða alþjóðlega bókmenntahátíð helgaða barna- og unglingabókmenntum og þema hátíðarinnar í ár er myndskreyttar bækur og tengsl mynda og texta.  Helgina 24.-25. apríl verður Norræna húsið lagt undir opna dagskrá, fyrri daginn verður vöngum velt yfir fræðilegum atriðum, en þá munu fjórir fræðimenn og myndskreytar frá jafnmörgum löndum fjalla um tengsl texta og mynda í barnabókmenntum, en á sunnudeginum verður dagskrá fyrir börn, sem hefst kl. 11 með heimsókn Fíusólar, en síðan kynna íslenskir og erlendir höfundar verk sín og allt verður túlkað eða lesið á íslensku. Allir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér málið á myrin.is, endanleg dagskrá dettur fljótlega inn á síðuna. Þarna má líka lesa heilmikið um gestina, en þeirra á meðal eru heimsfrægir höfundar og myndskreytar, nefna má Wolf Erlbruch sem skrifaði söguna um Moldvörpuna sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni og Sven Nordqvist höfund bókanna um Pétur og köttinn Brand.

Ungir sem aldnir sem áhuga hafa á barnabókmenntum og myndlýsingum barnabóka eru hvattir til að taka helgina 24.-25. apríl frá og það má strax byrja að hlakka til.

P.S. Hægt er að panta áskrift að Börnum og menningu með því að senda línu á netfangið bornogmenning@gmail.com.

Engin ummæli: