30. nóvember 2018

Heill sé Angústúru, lengi lifi Angústúra!

Þegar ég kom heim frá útlöndum í vikunni beið mín pakki. Ég er farin að kannast við þessa nettu hvítu pakka en þeir koma mér einhvern veginn alltaf á óvart – ég hef aldrei verið í bókaklúbbi áður og er enn óvön slíkri heimsendingarþjónustu á sérvöldum gæðabókmenntum. Upp úr nýjasta pakkanum kom bók með þeim fagra titli Etýður í snjó eftir Yoko Tawada (ekki að ég viti hvað etýða er, en orðið er afar hljómfagurt), í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Mér telst til að þetta sé sjötta bókin í áskriftarseríu hins unga forlags Angústúru, en serían hóf göngu sína á síðasta ári og er ein gleðilegasta viðbótin við íslenska bókmenntaflóru á síðustu misserum.

Tvær bækur komu út árið 2017: Veisla í greninu (annar glæsilegur titill) eftir mexíkanska höfundinn Juan Pablo Villalobos í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur og Einu sinni var í austri eftir kínverska höfundinn Xiaolu Guo í þýðingu Ingunnar Snædal. 2018 var fyrsta fulla starfsár bókaklúbbsins, með fjórum útgefnum bókum: Allt sundrast eftir Nígeríumanninn Chinua Achebe í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur, Sæluvíma eftir hina bandarísku Lily King í þýðingu Ugga Jónssonar, smásagnasafnið Sakfelling eftir norður-kóreskan rithöfund undir dulnefninu Bandi í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur og loks fyrrnefnd bók japanska höfundarins Yoko Tawada.

Af þeim fimm bókum sem ég er búin að lesa voru heilar þrjár í sérstöku uppáhaldi. Það var í fyrsta lagi Einu sinni var í austri eftir Xiaolu Guo, sem var jafnframt fyrsta bókin úr seríunni sem ég las. Ég fékk hana í afmælisgjöf en var dálítið lengi að koma mér að því að lesa hana; einhvern veginn stóð ég í þeirri trú út frá káputextanum að hún sækti í goðsögur eða þjóðsögur, sem mér finnst yfirleitt frekar leiðinlegar bókmenntir, en komst síðan að því að svo var ekki, heldur er þetta býsna raunsæisleg frásögn af oft heldur nöturlegum aðstæðum aðalsöguhetjunnar, frá því hún elst upp hjá afa sínum og ömmu í bláfátæku kínversku fiskiþorpi á áttunda áratugnum og þar til hún flytur til Bretlands sem ungur rithöfundur og byrjar að skrifa bækur á ensku.

Xiaolu Guo vandlega dúðuð
Frásögn hennar af bernskuárunum er eftirminnileg og var stundum erfið aflestrar, sérstaklega lýsingarnar á ömurlegu lífi hinnar kúguðu ömmu hennar, en stíllinn er látlaus og húmorinn kaldhæðinn. Ég hafði sérstaklega gaman af köflunum í seinni hluta bókarinnar um tilraunakenndu listasenuna í Beijing um 1990; sögukonan verður meðal annars vitni að ólöglegum líkamslistargjörningum við Kínamúrinn þar sem einn listamaðurinn sviptir sig klæðum, grefur holu í jörðina og hefur ofsafengin mök við móður Jörð – síðan mætir lögreglan á staðinn. Xiaolu Guo kom til Íslands í sumar og talaði fyrir troðfullu húsi í Veröld. Hún er sjúklega töff týpa og það var gaman að fá tækifæri til að sjá hana og horfa á heimildarmynd hennar um fyrstu utanlandsferð foreldra hennar, sem eru jú líka persónur í bókinni.

Klassíkin í hópi bókanna frá þessu ári er Allt sundrast eftir Chinua Achebe, sem kom upphaflega út árið 1958 og var mjög þarft verk að þýða á íslensku. Talandi um glæsilega titla er titill hennar sóttur í hið magnaða kvæði W.B. Yeats, Endurkoman eða The Second Coming, og er mjög viðeigandi, enda fjallar bókin um það hvernig ein samfélagsgerð hopar fyrir annarri í Nígeríu á 19. öld þegar hvítu nýlenduherrarnir mæta á svæðið. Sú menning sem aðalsöguhetjan, stríðsmaðurinn Okonkwo, tilheyrir – gamla valdakerfið, heimsmyndin, trúarbrögðin, siðareglurnar – byrjar að sundrast; miðjan heldur ekki. Styrkleiki bókarinnar liggur ekki síst í því að myndin sem Achebe dregur upp af hinni hverfandi menningu er ekki rómantíseruð, ekki smættuð í fórnarlambshlutverk sögunnar, heldur flókin og blæbrigðarík; við kynnumst bæði göllum og grimmd gamla samfélagsins en líka því sem er dýrmætt og fallegt. Mér þótti sérstaklega skemmtilegt hvernig hugsanagangi fólks er miðlað í orðtökum og líkingum sem eru iðulega fyndnar og heimspekilegar í senn.

Allt sundrast er ágætt dæmi um það hvers vegna það er þrátt fyrir allt ástæða til að þýða bækur á íslensku úr ensku. Þótt ég hefði vel getað lesið bókina á frummálinu hefði ég ekki viljað missa af þeirri upplifun að lesa hana á mínu eigin móðurmáli, sem er auðugra fyrir vikið; textinn er svo fallegur og þýðing Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur svo lipur og þokkafull. Hún fetar vel línuna milli þess að færa textann á eðlilega og óþvingaða íslensku en viðhalda þó ákveðinni tilfinningu fyrir framandleika þessa fjarlæga samfélags. Svo er auðvitað staðreynd að þótt ég hefði getað orðið mér úti um bókina á ensku þá er ekki þar með sagt að ég hefði gert það – þar liggur gildi þess að láta aðra stundum velja ofan í sig bækurnar, sé valið á annað borð vandað.

Margaret Mead gluggar í bók
Loks verð ég að nefna skáldsöguna Sæluvímu eftir Lily King, sem fylgdi í kjölfar Allt sundrast, og ég myndi lýsa svo í stuttu og óhátíðlegu máli: Hún er ógeðslega skemmtileg. Hún fjallar um þrjá mannfræðinga frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu sem eru að störfum í Papúu Nýju-Gíneu um 1930, ástir þeirra og örlög (og er að nokkru leyti byggð á atburðum í lífi hins þekkta bandaríska mannfræðings Margaret Mead). Í þessari bók kemur allt saman: Sannfærandi og áhrifamikil persónusköpun, þétt og spennandi plott og stórkostlega áhugavert sögusvið. Saman við persónulega sögu mannfræðinganna þriggja fléttast á áreynslulausan hátt umræða um hugmyndafræðilegan grundvöll og siðferðisleg vafamál mannfræðinnar sjálfrar á árdögum greinarinnar og hin flóknu tengsl rannsakanda og viðfangs, vesturs og austurs, nýlendna og nýlenduvelda.

Það er yfirlýst markmið og einn helsti styrkleiki áskriftarseríu Angústúru að „gefa innsýn í ólíka menningarheima og víkka sjóndeildarhringinn“. Allar bækurnar falla að þessu markmiði, hver á sinn hátt, ásamt því að vera skemmtilegar og áhugaverðar bókmenntir – eina bókin þar sem mér fannst skorta nokkuð upp á það síðarnefnda var norðurkóreska smásagnasafnið Sakfelling, en þótt sögurnar í henni hafi ekki heillað mig veita þær óneitanlega sjaldgæfa innsýn í þrúgandi veruleika norðurkóreskra borgara og hafa gildi sem slíkar. Ég veit ekkert um bókina Etýður í snjó eftir Yoko Tawada en á bókarkápu kemur fram að einn sögumanna sé ísbjörninn frægi og harmræni Knútur frá Berlín, og það nægir til þess að kveikja hjá mér töluverða eftirvæntingu.

Hönnun bókanna er einföld og falleg – Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir voru tilnefndar til Íslensku hönnunarverðlaunanna fyrir hana – og ber, eins og serían öll, vitni um að hér hafi verið vandað til verka frá upphafi. Ofan á allt saman er áskriftin á meira en sanngjörnu verði – bækurnar kosta 2.980 kr. með sendingarkostnaði. Ég segi því takk, Angústúra, fyrir að gefa okkur allar þessar góðu bækur á íslensku, ég hlakka til að sjá hvað kemur næst.

Engin ummæli: