Sýnir færslur með efnisorðinu Norður-Kórea. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Norður-Kórea. Sýna allar færslur

30. nóvember 2018

Heill sé Angústúru, lengi lifi Angústúra!

Þegar ég kom heim frá útlöndum í vikunni beið mín pakki. Ég er farin að kannast við þessa nettu hvítu pakka en þeir koma mér einhvern veginn alltaf á óvart – ég hef aldrei verið í bókaklúbbi áður og er enn óvön slíkri heimsendingarþjónustu á sérvöldum gæðabókmenntum. Upp úr nýjasta pakkanum kom bók með þeim fagra titli Etýður í snjó eftir Yoko Tawada (ekki að ég viti hvað etýða er, en orðið er afar hljómfagurt), í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Mér telst til að þetta sé sjötta bókin í áskriftarseríu hins unga forlags Angústúru, en serían hóf göngu sína á síðasta ári og er ein gleðilegasta viðbótin við íslenska bókmenntaflóru á síðustu misserum.

Tvær bækur komu út árið 2017: Veisla í greninu (annar glæsilegur titill) eftir mexíkanska höfundinn Juan Pablo Villalobos í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur og Einu sinni var í austri eftir kínverska höfundinn Xiaolu Guo í þýðingu Ingunnar Snædal. 2018 var fyrsta fulla starfsár bókaklúbbsins, með fjórum útgefnum bókum: Allt sundrast eftir Nígeríumanninn Chinua Achebe í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur, Sæluvíma eftir hina bandarísku Lily King í þýðingu Ugga Jónssonar, smásagnasafnið Sakfelling eftir norður-kóreskan rithöfund undir dulnefninu Bandi í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur og loks fyrrnefnd bók japanska höfundarins Yoko Tawada.

Af þeim fimm bókum sem ég er búin að lesa voru heilar þrjár í sérstöku uppáhaldi. Það var í fyrsta lagi Einu sinni var í austri eftir Xiaolu Guo, sem var jafnframt fyrsta bókin úr seríunni sem ég las. Ég fékk hana í afmælisgjöf en var dálítið lengi að koma mér að því að lesa hana; einhvern veginn stóð ég í þeirri trú út frá káputextanum að hún sækti í goðsögur eða þjóðsögur, sem mér finnst yfirleitt frekar leiðinlegar bókmenntir, en komst síðan að því að svo var ekki, heldur er þetta býsna raunsæisleg frásögn af oft heldur nöturlegum aðstæðum aðalsöguhetjunnar, frá því hún elst upp hjá afa sínum og ömmu í bláfátæku kínversku fiskiþorpi á áttunda áratugnum og þar til hún flytur til Bretlands sem ungur rithöfundur og byrjar að skrifa bækur á ensku.

Xiaolu Guo vandlega dúðuð
Frásögn hennar af bernskuárunum er eftirminnileg og var stundum erfið aflestrar, sérstaklega lýsingarnar á ömurlegu lífi hinnar kúguðu ömmu hennar, en stíllinn er látlaus og húmorinn kaldhæðinn. Ég hafði sérstaklega gaman af köflunum í seinni hluta bókarinnar um tilraunakenndu listasenuna í Beijing um 1990; sögukonan verður meðal annars vitni að ólöglegum líkamslistargjörningum við Kínamúrinn þar sem einn listamaðurinn sviptir sig klæðum, grefur holu í jörðina og hefur ofsafengin mök við móður Jörð – síðan mætir lögreglan á staðinn. Xiaolu Guo kom til Íslands í sumar og talaði fyrir troðfullu húsi í Veröld. Hún er sjúklega töff týpa og það var gaman að fá tækifæri til að sjá hana og horfa á heimildarmynd hennar um fyrstu utanlandsferð foreldra hennar, sem eru jú líka persónur í bókinni.