Ég hefði líklega ekki sett Að eilífu, ástin eftir Fríðu Bonnie Andersen í jólabókabunkann (þótt hver rithöfundur með sjálfsvirðingu myndi drepa fyrir þetta skáldanafn) ef ég hefði ekki frétt út undan mér að hún fjallaði um lesbískar ástir á Íslandi á millistríðsárunum. Um það gefur káputextinn ekkert uppi, þar eru mjög óræðar yfirlýsingar um „dimma sali bak við djúprauð flauelstjöld“, líf sem „fléttast saman“ og „mikil og afdrifarík átök“, en framan á kápunni er myndabankaleg ljósmynd af konu með samkvæmisgrímu og Eiffelturninn í baksýn; vissulega hefur Parísardvöl afgerandi áhrif á líf annarrar aðalsöguhetjunnar, en þetta segir manni ekkert um bókina. Ég segi ekki að hún hefði þurft að heita Forboðnir ávextir og líta svona út
en það má kannski eitthvað á milli vera.
Hvað um það – „mikil og afdrifarík átök“ er í sjálfu sér ekki ónákvæm lýsing, því hér er nóg af hasar og drama. Önnur aðalsöguhetja bókarinnar, Elín, elst upp á Íslandi en fer ung utan að læra fatasaum, fyrst í Kaupmannahöfn og síðan í París. Þar kynnist hún hinu ljúfa lífi, þar á meðal fyrrnefndum „dimmum sölum bak við djúprauð flauelstjöld“ þar sem karlar eru með körlum og konur með konum og hefðbundnum kynhlutverkum er ögrað (það bregður meira að segja fyrir heimboðum hjá Gertrude og Alice á Rue de Fleurus). Elín eignast kærustu en eftir nokkur vandræði í ástamálum endar hún í Aþenu, þar sem hún gengur í sýndarhjónaband með samkynhneigðum karlmanni og eignast með honum barn, áður en hún snýr aftur heim til Íslands sem einstæð móðir.
Í Reykjavík millistríðsáranna takast síðan ástir með Elínu og Þórhöllu, ungum ljósmóðurfræðinema. Meðfram saumaskapnum fer Elín að skrifa sögur og ljóð og inn í ástarsögu hennar og Þórhöllu blandast ýmsar flækjur tengdar bróður Þórhöllu, bókaútgefandanum Þórði, og skáldaferli Elínar. Saga Elínar og Þórhöllu kallast svo á við þann hluta bókarinnar sem gerist í nútímanum; Þórhalla er þá orðin háöldruð kona á elliheimili, Alexander sonur Elínar er sjálfur kominn á níræðisaldur og gruflar í sögu móður sinnar, en einnig fáum við sjónarhorn Siggu, trans konu sem vinnur á elliheimilinu þar sem Þórhalla býr og hefur gefið upp vonina um að verða prestur.
Höfundinum tekst í rauninni ótrúlega vel að halda allri þessari sögu saman og bókin er blessunarlega laus við þann þvingaða frásagnarmáta sem stundum setur mark sitt á sögulegan skáldskap þar sem fólk er sínkt og heilagt að þvælast um Bakarabrekkur og Hlíðarhúsastíga, ekki vegna þess að það eigi þangað neitt erindi heldur til að lesandinn missi nú ekki af því hvað viðkomandi saga gerðist mikið í gamla daga. Markmiðið með Að eilífu, ástin sem sögulegri skáldsögu er greinilega heldur ekki að setja fram marglaga samfélagslýsingu á liðinni tíð í anda til dæmis Söruh Waters heldur er fókusinn fyrst og fremst á ástir kvennanna tveggja í samhengi þess tíma sem þær lifa. Ástarsaga þeirra er staðsett í íslensku samfélagi í frekar nálægri fortíð – þar sem slíkar ástarsögur áttu sér án alls vafa stað, en án þess að um það væri talað og án þess að um það hafi verið fjallað í almennri sagnaritun fyrr en á allra síðustu árum – og spurt: Hvernig hefði slík ástarsaga getað litið út?
Alice B. Toklas og Gertrude Stein í íbúðinni sinni á Rue de Fleurus í París árið 1923 |
Myndaalbúmið sem Elín hefur með sér heim frá útlöndum, og inniheldur meðal annars ljósmyndir af kærustu hennar og vinum í París, verður hins vegar eins konar lykill að skilningi persónanna á möguleikum ástarinnar, bæði þegar Elín sýnir Þórhöllu albúmið eftir nokkurt hik en einnig þegar það kemur aftur í leitirnar áratugum síðar. Orð Elínar í dagbókinni hennar, sem kemur í ljós á sama tíma, eru mun óræðari, því þar skrifar hún undir rós um samband sitt við Þórhöllu og gefur henni dulnefni – rétt eins og það gæti til dæmis enn verið á huldu að bak við nafn skáldsins Arnliða Álfgeirs, sem gaf út ljóðabókina Kirkjan á hafsbotni árið 1959, leyndist kona sem orti til konu, ef sonur mannsins sem bókin hafði verið eignuð hefði ekki skrifað um það blaðagrein fyrir hálfgerða tilviljun.
Að eilífu, ástin segir stóra og viðburðaríka sögu en bókin sjálf er ekki nema tæpar þrjúhundruð síður með góðri spássíu. Söguþráðurinn er nokkuð allsráðandi í bókinni og frásögnin knúin miskunnarlaust áfram af því sem á að gerast næst. Þetta hefur þann kost að það er alltaf eitthvað að gerast og aldrei dauð stund, en mér þótti að höfundurinn hefði víða mátt leyfa sér að varpa öndinni aðeins, staldra lengur við einstaka atburði og gefa sér pláss fyrir meiri blæbrigði í stemmningu og persónusköpun – því efniviðurinn býður tvímælalaust upp á það. Bygginguna hefði ef til vill mátt einfalda á móti; það fer ekki illa á því að láta fortíðina kallast á við nútímann og sýna til dæmis togstreituna í sambandi hinnar öldruðu Þórhöllu við Siggu, sem er sjálf að takast á við fordóma í sínum samtíma sem trans kona, en það verður á köflum dálítið yfirþyrmandi að fá söguna á tveimur tímaplönum frá sjónarhorni heilla fjögurra persóna til skiptis og þar af þriggja sem tala í fyrstu persónu.
Ég vona að Að eilífu, ástin fái þá athygli sem hún á skilið og að Fríða Bonnie Andersen láti ekki staðar numið hér. Þetta er heilmikið sögulegt drama um spennandi viðfangsefni, sem ég er viss um að margir munu hafa ánægju af að lesa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli