8. janúar 2018

Afrek ársins 2017: Lestrardagbókin

Ég lít á það sem eitt af afrekum mínum árið 2017 að hafa í fyrsta sinn á ævinni tekist að halda skrá yfir bóklestur minn. Lykillinn að því reyndist vera að skrifa svolitla umsögn um allar bækurnar og upplifun mína af þeim, sem jók á lestraránægjuna og gerði það skemmtilegra að rifja bækurnar upp eftir á. Ég gaf stjörnur eins og sannur bókmenntagagnrýnandi – en held reyndar að ég hafi þjáðst af dálítilli stjörnuverðbólgu, sérstaklega framan af, og hyggst mæta með sveðjuna reidda til höggs í lestrardagbókinni á nýju ári. (Fyrsta bókin sem ég opnaði eftir áramót, ævisaga Patriciu Highsmith eftir Andrew Wilson, sem er búin að vera mörg ár ólesin uppi í hillu, er að reynast býsna slöpp, þannig að það ætti að auðvelda mér að sýna fulla hörku strax í upphafi.)

Samkvæmt mínum útreikningum las ég fimmtíu og eina bók á árinu sem var að líða, rétt tæplega bók á viku, sem mér sýnist mun minna en hjá mörgum af lesóðum facebookvinum mínum, en mér finnst samt bara fínt. Ég taldi bækur sem ég las utan vinnu (og ég skilgreini skrif mín um íslenska klámsögu sem vinnu, þótt lítt launuð séu, og tel því ekki með bækur á borð við Kynblendingsstúlkuna frá 1970) og sem ég kláraði. Þar af voru 33 skáldsögur, tvö smásagnasöfn, tíu ljóðabækur og fimm bækur óskáldaðs efnis. Meirihluti bókanna voru eftir íslenska höfunda, eða 27 bækur, næstu þjóðlönd voru Svíþjóð, Bandaríkin og Portúgal með 4-5 bækur hvert, en það var skammarlega lítið um bækur frá löndum utan Evrópu og Bandaríkjanna – aðeins ein eftir rússneskan höfund, ein frá Chile og ein frá Suður-Kóreu. Það hallaði nokkuð á konur í höfundahópnum; 21 bók var eftir konu en 29 eftir karla.

Það hafði einhver áhrif á fjölda íslenskra höfunda og fjölda karlhöfunda að í ár ákvað ég – einnig í fyrsta sinn – að lesa allar skáldsögur tveggja höfunda, og bækur eftir þessa tvo höfunda tróna í efstu sætum yfir

uppáhaldsskáldsögurnar mínar árið 2017: 

Í sama klefa eftir Jakobínu Sigurðardóttur frá 1981
Gæludýrin eftir Braga Ólafsson frá 2001

Ég las semsagt fjórar skáldsögur Jakobínu á árinu og sjö skáldsögur Braga. Ég hafði lesið flestar bækur Braga áður en engar af bókum Jakobínu.

Bragi er einn af mínum eftirlætisrithöfundum og það var einfaldlega alveg sjúklega gaman að lesa allar bækurnar hans í einum rykk. Ég er hrifin af þeim eiginlega öllum en Gæludýrin var held ég uppáhalds; ég elskaði bygginguna og sjónarhornin, söguna og persónurnar (með hinn ógeðfellda Hávarð Knútsson fremstan í flokki), og ekki síst þá staðreynd að aðalsöguhetjan eyddi öllum lottóvinningnum sínum í geisladiska í þessari bók sem kom út árið 2001, en meðan ég var að lesa hana árið 2017 var ég að pakka öllum mínum geisladiskum niður í kassa og setja upp á háaloft. Það var punkturinn yfir hið andstyggilega i, rúsínan í hinum íroníska pylsuenda. Það er ekki verra að ein af mínum góðu vinkonum í Druslubókum og doðröntum, Guðrún Lára Pétursdóttir, er sérfræðingur í bókum Braga Ólafssonar og var alltaf til í að ræða við mig um alls konar ósagða hluti, plotttvist og duldar perversjónir sem heilluðu mig í bókunum. Duldar perversjónir eru mögulega uppáhaldsbókmenntafyrirbærið mitt í öllum heiminum.

Bækur Jakobínu Sigurðardóttur eru óneitanlega nokkuð frábrugðnar bókum Braga Ólafssonar og ég er ekki jafn jafnhrifin af þeim. Mér fannst Snaran til dæmis ekki mjög skemmtileg; þessi tegund af þjóðernisklisjukenndri kaldastríðsádeilu vekur næstum því með mér líkamlegan viðbjóð. Þótt Lifandi vatnið sé ekki alveg laus við hana heldur (ó, hvað Jakobína er frábær í bókatitlunum!) fannst mér margt í henni mjög flott.

Það var hins vegar Í sama klefa sem var óumdeild uppáhaldsbók ársins 2017, bókin um konurnar tvær sem deila klefa í skipi á suðurleið eina nótt, sögu þeirra og samskipti. Ég vitna í lestrardagbókina:

„Þær eru „í sama klefa“ eina nótt en hvað eiga þær sameiginlegt? Er einhver flötur á samkennd eða raunverulegum samskiptum þeirra á milli? Hvers eðlis eru tengslin á milli þeirra? Þær eru af ólíkri kynslóð, koma báðar úr sveit en hafa farið í ólíkar áttir, hugsa á ólíkan hátt, en samt en samt. (Bókin skrifuð 1981; eftir Rauðsokkurnar, rétt fyrir kvennaframboðin.) Þetta eru ekki væmnar vangaveltur um lífræn tengsl milli ólíkra kynslóða kvenna eins og sumar kynsystur mínar virðast vera með á heilanum heldur þvert á móti bók um það hvað þessi tengsl geta verið sársaukafull, vitundin um hið sameiginlega erfið, þegar maður getur ekki gengist inn á samkenndina fyrirvaralaust af því að maður kærir sig kannski ekkert um að vera með viðkomandi í liði eða trúir ekki á að maður geti það. Ég myndi líka segja að þetta væri langáhugaverðasta bók sem ég hef lesið um hið klassíska íslenska þema um tilfinningaátökin sem fylgdu flutningunum úr sveit í borg – af því að þetta er feminísk bók, saga frá augum kvenna, sem gátu ekki leyft sér jafn hreina nostalgíu gagnvart sveitinni og fortíðinni af því að það var samt svo margt í bænum og nútímanum sem gaf konum tækifæri. Indriði G. og þessir kallar geta bara átt sig með sínar Babýlonshórur úr borginni og skinheilögu sveitapilta.“

Uppáhaldsbækurnar óskáldaðs efnis 

Dan Josefsson, The strange case of Thomas Quick. The Swedish serial killer and the psychoanalyst who created him. 2015

Phil Baker, William S. Burroughs. 2010

Það er ágætis spark í rassinn að taka þennan lista saman því við Guðrún Lára vorum komnar vel á veg með bókablogg um fyrrnefndu bókina í haust, sem við ættum augljóslega að klára sem fyrst, til að sem flestir fái notið hinnar ómótstæðilega furðulegu sögu af sænska raðmorðingjanum Thomasi Quick, a.k.a. Sture Bergwall. Ég tek fram að það var ég en ekki meðbloggari minn sem sýndi af mér leti við skrifin. Og við höfum samið um að ljúka þeim sem fyrst. Ég hef ekki fleiri orð um það.

Seinni bókin var þessi líka frábæra, stutta en hnitmiðaða bók um líf og verk Williams Burroughs, úr seríunni Critical Lives frá Reaktion Books í Bretlandi. Ómótstæðileg blanda af umfjöllun um ævi, skáldskap og hugmyndaheimi þessa dáleiðandi höfundar, hvers höfundarverk „stands almost as a reductio ad absurdum of many of the concerns central to the American canon, including final frontiers, escape from matriarchy, male bonding, personal autonomy and freedom from control“, svo vitnað sé í höfundinn Phil Baker í setningu sem mér fannst svo skemmtileg að ég skrifaði hana niður.

Uppáhaldsljóðabækurnar 

Solveig Thoroddsen, Bleikrými. 2017
Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Flórída. 2017

Ég las ýmsar fínar ljóðabækur á árinu, flestar nýjar, og á enn eftir nokkrar úr ljóðabókaflóðinu 2017. Þessar tvær voru í uppáhaldi. Þær eiga ýmislegt sameiginlegt sem ég fíla: Mikið hold og efni og lífrænu – mikið bleikrými, beisikklí, sterka heildarmynd og stundum soldið prakkaralegan subbuskap, taka sig ekki of alvarlega. Það er rétt að taka fram að ég er ekki alveg hlutlaus í tilfelli Bleikrýmis, því ég ritstýrði henni hjá Meðgönguljóðum. Ég hef því eðli málsins samkvæmt lesið hana mjög oft, en Flórída á ég eftir að lesa oftar en einu sinni í viðbót.

Það voru ýmsar aðrar bækur sem eru eftirminnilegar frá árinu. Góðar þýddar skáldsögur voru Allt sem ég man ekki eftir Jonas Hassen Khemiri og Kona frá öðru landi eftir Sergej Dovlatov, báðar frábærlega þýddar, sú fyrri af Þórdísi Gísladóttur og sú seinni af Áslaugu Agnarsdóttur. Tvær sérdeilis skemmtilegar glæpasögur voru The talented Mr. Ripley eftir Patriciu Highsmith og An unsuitable job for a woman eftir P.D. James. Fyrir utan duldar perversjónir er ég mjög veik fyrir hvers konar svindlurum í bókmenntum og því var hin óskáldaða El impostor eftir Javier Cercas afar áhugaverð – hún fjallar um katalónskan mann sem var formaður samtaka Spánverja sem höfðu setið í fangabúðum nasista, nema hvað svo kom í ljós að hann hafði aldrei setið í fangabúðum nasista, og það var sko ekki eina lygasagan sem hann hafði kokkað upp gegnum tíðina.

Ætli það verði svo ekki að nefna bókina sem fékk lægstu einkunnina sem gefin var í ár, eina og hálfa stjörnu, en það var safn af portúgölskum leynilögreglusögum frá 2008. Ég vitna í lestrardagbókina: „Heilt yfir voru sögurnar frekar leiðinlegar og óspennandi. Í kaldhæðnislegum formála lýsti ritstjóri bókarinnar því svo að hann hefði ákveðið að gefa hana út í von um að lífga við hefð bókmennta sem hefði aldrei verið sinnt að ráði í Portúgal – en ef þetta er niðurstaðan þá er bara ágætis ástæða fyrir því að portúgalskir höfundar hafi ekkert sinnt leynilögreglusögum.“

Engin ummæli: