6. apríl 2017

Það er svo sannarlega eitthvað sem stemmir ekki

Ég skammast mín dálítið fyrir að skrifa aldrei um neitt annað en sænskar bækur inn á þessa síðu. Þegar ég lauk við sænsku skáldsöguna Det är något som inte stämmer eftir Martinu Haag fyrir örfáum dögum var ég því fljót að ákveða að ég myndi ekki skrifa bókablogg um hana. Ekki bara vegna þess að bókin er sænsk og ég ímynda mér að allir séu búnir að fá nóg af pistlum um sænskar bækur - heldur líka vegna þess að ég ímyndaði mér að akkúrat þessi tiltekna bók ætti sérlega lítið erindi við íslenska lesendur. Það kom mér því ekki lítið á óvart þegar ég átti erindi í bókabúð daginn eftir að lestrinum lauk og sá að einmitt þessi bók er nýkomin út á íslensku. Það er eitthvað sem stemmir ekki heitir hún í þýðingu Kristjáns H. Kristjánssonar og það er MTH útgáfa á Akranesi sem gefur út.

Bókin segir frá rithöfundinum Petru sem tekur að sér að vera skálavörður í óbyggðum nyrst í Svíþjóð. Það kemur fljótlega í ljós að hún hefur flúið til fjalla í kjölfar erfiðs skilnaðar og eftir því sem frásögninni vindur fram taka að fléttast inn í hana minningar Petru um andarslitrur hjónabandsins og tímabilið eftir að Anders, maðurinn hennar, fór frá henni fyrir aðra konu.

Martina Haag er vel þekkt í Svíþjóð. Hún hefur skrifað nokkrar skáldsögur sem sverja sig í skvísubókaætt auk þess sem hún var afar vinsæll pistlahöfundur hjá glanstímaritinu Mama um árabil. Pistlarnir – sem hafa jafnframt verið gefnir út á bók – fjölluðu á kómískan hátt um fjölskyldulíf Martinu sjálfrar, hjónaband hennar og mannsins hennar Eriks Haag og uppeldið á sístækkandi barnahópi. Sænskir lesendur þekkja Haag-fjölskylduna því vel og það dylst engum sem les Det är något som inte stämmer að bókin fjallar leynt og ljóst um skilnað þeirra Martinu og Eriks árið 2014. Erik Haag, sem er þekktur sjónvarpsmaður í Svíþjóð, tók þá saman við kollega sinn Lottu Lundgren en þau höfðu séð um nokkrar vinsælar sjónvarpsþáttaraðir saman. Anders, eiginmaðurinn í skáldsögu Martinu er einmitt líka sjónvarsmaður sem heldur við samstarfskonu sína og Martina leggur Petru meira að segja í munn orð sem voru höfð eftir henni sjálfri í gulu pressunni þegar skilnaðurinn komst í hámæli. Ég er nokkuð viss um að einmitt þetta er ástæðan fyrir vinsældum bókarinnar en lesendur Bonnier bókaklúbbsins völdu hana bók ársins 2016 – líkt og MTH útgáfa kynnir á kápu íslensku þýðingarinnar. Mig grunar sem sagt að sú útnefning endurspegli umfram allt þrá lesenda eftir að fá að sökkva sér ofan í hörmungar fræga fólksins frekar en gæði bókarinnar sjálfrar. Það er nefnilega ýmislegt sem stemmir ekki í Það er eitthvað sem stemmir ekki.


Martina Haag
Minningarkaflarnir sem fjalla um tímabilið þar sem það rennur smám saman upp fyrir Petru að það sé eitthvað að í hjónabandi þeirra Anders og sérstaklega kaflarnir um vikurnar eftir að hann fer frá henni eru óneitanlega mjög áhrifamiklir. Kannski eru þeir ekki beint „góðir“ því það er engin sérstök listræn útfærsla á þeim, engin dýpri merking eða slíkt – bara óhaminn sársauki, kvíði, sorg og botnlaus örvænting sem hreyfir óneitanlega við lesandanum. Undirrituð engdist í það minnsta um af samlíðan meðan á lestri þeirra stóð og felldi jafnvel nokkur tár. Lýsingin á samskiptum hjónanna, hvernig Anders reynir að koma sökinni á vandræðum þeirra yfir á Petru og hvernig hann afgreiðir 15 ára hjónaband þeirra í einu vetfangi, er líka sannfærandi. Allt er þetta þó gert án þess að gera Anders að skrímsli. Það er þó ekki þar með sagt að vel sé farið með hann í texta Martinu en hann kemur lesandanum miklu fremur fyrir sjónir sem kjánalegur og kannski dálítið óþroskaður maður í miðaldrakrísu en illmenni. 

Hins vegar er rammasagan þar sem sagt er frá dvöl Petru í óbyggðum og verkefnum hennar sem skálavörður í hrópandi ósamræmi við þetta. Þar bregður Martina fyrir sig gamalkunnum grínstíl sem lesendur fyrri verka hennar kannast vel við. Þar er söguhetjan yfirleitt einhvers konar naívur klaufabárður sem gæti sem best verið sjöundi vinurinn í sjónvarsþáttaröðinni Friends. Hér er persóna Petru að vissu leyti mótuð á svipaðan hátt. Grínið nær svo hámarki í farsakenndum kafla þar sem fjöldi manns leitar í skálann meðan óveður geisar: sumir vilja ekki borga fyrir gistinguna, aðrir stela mat skálavarðarins, hurðir opnast, hurðum er skellt – og undir öllu hljóma háværar kynlífsstunur nýgifts norsks pars sem dvelur í einu herberginu. Að para þess konar texta með blæðandi skilnaðardrama – nei það stemmir svo sannarlega ekki.

Lokakaflinn er svo í þriðja stílnum. Þar gerir höfundur tilraun til að draga efni bókarinnar saman á myndrænan hátt. Textinn greinir frá martraðarkenndu ferðalagi Petru um óblíða náttúru lapplensku (er það orð?) fjallanna og ýmsum hættum sem á vegi hennar verða og á greinilega að endurspegla andlegt ferðalag hennar í gegnum skilnaðinn og eftirleik hans. Líkingin er í besta falli yfirborðskennd og kemur dálítið eins og skrattinn úr sauðaleggnum í lok texta sem annars hefur verið algjörlega laus við ljóðræn tilþrif.

Ég bíð spennt eftir því að heyra hvernig Það er eitthvað sem stemmir ekki leggst í íslenska lesendur. Það er spurning hvort hinir áhrifamiklu og sársaukafullu skilnaðarkaflar duga til að fleyta þeim í gegnum frásögnina eða hvort það kemur í ljós að án Séð og heyrt áhrifanna dugi bókin skammt.



Engin ummæli: