14. apríl 2017

Stírur, hárflækjur, hrukkur og sviti

Það er alltaf gaman þegar skáld gefur út sína fyrstu ljóðabók. Ég er hálfgerður þjóðernissinni fyrir hönd ljóðsins (ég veit það blasir við að skrifa ljóðernissinni en kommon, maður hefur smá sjálfsvirðingu) og gleðst jafnan yfir nýjum fylgismönnum við málstaðinn. Enn meiri er þó gleðin þegar skáld sendir frá sér ljóðabók númer tvö, sem sýnir fram á ákveðið þolgæði og gefur til kynna að viðkomandi hyggist halda þessu tímafreka rugli til streitu.

Eitt af þeim fjölmörgu skáldum sem gáfu út sína fyrstu ljóðabók árið 2015 var Vilborg Bjarkadóttir, sem sendi frá sér bókina Með brjóstin úti og var meðal þeirra sem sat fyrir rafrænum svörum í ljóðaviðtalaseríu Druslubóka og doðranta af því tilefni. Eins og fram kemur í viðtalinu – og titill bókarinnar sjálfrar gefur raunar vísbendingu um – er Með brjóstin úti mjög líkamleg bók, nánar tiltekið kvenlíkamleg. Hún fjallar um getnað, meðgöngu, fæðingu og fyrstu vikurnar í lífi nýrrar manneskju, um það hvernig móðir býr til barn og barn býr til móður. Rétt fyrir jól 2016 sendi Vilborg síðan frá sér aðra ljóðabók, Líkhamur, sem á það meginþema sameiginlegt með fyrri bókinni að fjalla um líkamann, en er að öðru leyti töluvert ólík henni.

[Innskot: Ég var búin að skrifa heilt bókablogg um ljóðabókina Líkham þegar ég fór að skoða facebooksíðu útgefandans Sæhests og komst að því að þar er hún kölluð örsagnasafn. Ég tek þessu hins vegar bara sem dæmi um hið sveigjanlega eðli ljóðsins og held mínu striki.]

Með brjóstin úti var frekar hrá og frjálsleg. Ljóðin í Líkham eru prósaljóð, bókin er lengri og skipulegri og virðist útpældari að forminu, og nú er það ekki líkami móðurinnar sérstaklega sem er viðfangsefnið heldur mannslíkaminn í öllum sínum myndum. Bókin skiptist í níu hluta sem hver er kenndur við líkamshluta eða líffæri og strax af efnisyfirlitinu er ljóst að þótt líkami mannsins sé í forgrunni er skáldið meðvitað um að líkami hans er ekki óskyldur líkömum annarra dýra. Einn kafli er til dæmis kenndur við litlutána – en annar við rófuna. Enda er rófan ennþá þarna einhvers staðar:

Hún hefur átt marga líkama; verið mjó, feit og með holdlegar mjaðmir, mitti og læri. Nú er hún nærri þyngdarlaus, fötin farin að hrynja af henni og rassinn horfinn. Hún situr á rófubeininu og bíður eftir því að komast til himna og fá að velja sér vængi. 

Mörg bestu ljóðanna í bókinni draga einmitt fram skyldleika mannsins við aðrar skepnur og stillir ólíkum dýrum upp hlið við hlið. Í einu ljóði kemur til dæmis fyrir listamaður sem málar dýr án þess að hafa í rauninni mikinn áhuga á þeim, af því að hann hefur „mestan áhuga á dýrinu í manninum“. Í lokaljóði kaflans um rófuna birtist sá lúmski húmor sem er einn af höfuðkostum bókarinnar:

Kona nokkur hringdi í meindýraeyði vegna músagangs í húsinu sínu. Þegar hann hafði lokið við að eitra fyrir dýrunum þakkaði hún manninum fyrir að losa sig við þau. Hann hló og sagði: þetta voru ekki mýs heldur rottur. En þær voru svo litlar, sagði hún. Já, sagði hann og klappaði á kollinn á syni hennar. Þessi verður líka einhvern tímann stór. 

Eins og Úlfhildur Dagsdóttir segir í umfjöllun sinni um Líkham á vefnum Bókmenntir.is er minnt á það í bókinni að líkaminn sé aldrei fasti heldur er hann í stöðugri mótun, hvort sem það er yfir nótt eða heila ævi – og eins og má kannski lesa vísbendingu um út úr titli bókarinnar. Ég tek undir það með Úlfhildi að þetta er einn af styrkleikum bókarinnar. Hún hefur sterka heildarmynd og eins og oft vill verða með slíkar bækur er hún vel til þess fallin að fletta og lesa ítrekað og uppgötva ný ljóð og nýjar hliðar á ljóðunum. Bókin er í lengri kantinum af ljóðabók að vera, um hundrað blaðsíður, og þótt textarnir séu missterkir hefði ég ekki viljað hafa hana styttri.

Hinn síbreytilegi líkami birtist á ólíkan hátt í ólíkum ljóðum bókarinnar, stundum sem líffræðilegt fyrirbæri, stundum félagslegt, sem eitthvað sem maðurinn stýrir – þvær til dæmis af honum lyktina en úðar hann svo aftur með tilbúinni lykt – en líka sem eitthvað óstýrilátt sem lætur ekki að stjórn:

Þrátt fyrir áralanga líkamsögun skemmast tennur mínar, hárið slitnar og líffæri mín hegða sér svívirðilega. Það er sama hvort ég biðji þau um að hægja á sér eða hraða sér, þau láta orð mín eins og vind um eyrun þjóta. Jafnvel þótt ég fylli líkama minn af vítamínum og borði ofurmat spretta mér grá hár á höfði. Daglega mæta mér nýjar augnastírur, hárflækjur, hrukkur og sviti; ég get með engu móti sagt skilið við þetta ofbeldissamband. 

Vilborg er líka myndlistarkona og rétt eins og Með brjóstin úti er Líkhamur myndskreytt af henni, hverjum kafla fylgir teikning af líkamspartinum sem hann er kenndur við, eins og augað á kápunni er gott dæmi um. Auk þess að vera áhugaverð og skemmtileg er bókin þess vegna líka mjög fallegur og vandaður gripur. Vonandi koma ennþá fleiri bækur frá Vilborgu!

Engin ummæli: