Ida Bäckmann var óvenjuleg og illa liðin kona. Hún fæddist 1867 í Åmål og dó ekki langt hérna frá árið 1950. Ida var dóttir málarameistara, hún fékk að mennta sig, fór til Stokkhólms í stúlknaskóla og tók stúdentspróf. 22ja ára gömul, árið 1889, rakst hún á skáldið Gustaf Fröding í lystigarði í Karlstad. Þau hittust varla, hún sá hann bara, en þessi viðburður sneri lífi konunnar algjörlega á hvolf. Fröding hafði á þessum tíma ekki gefið út ljóðabók, hann var 29 ára og þekktur blaðamaður í Karlstad og það var slúðrað um ólifnað hans, en unga stúlkan heillaðist og varð ekki söm.
Árið 1890 gerðist Ida barnakennari og næstu fimmtán árin eða svo stundaði hún kennslu og skólastjórn og var óvinsæll kennari. Hún virðist algjörlega hafa verið með Fröding á heilanum, hún tók upp bréfasamband við hann og fór síðan að umgangast hann og var stöðugt með hann í sjónlínunni og skiptandi sér af honum. Hún gaf út bók árið 1898 sem virðist vera einhvers konar lykilskáldsaga um drykkjubolta sem líkist Fröding mjög en bókin varð upphafið að höfundarferli Idu Bäckmann.
Árin 1891 og 1894 komu út ljóðabækur eftir Gustaf Fröding sem slógu í gegn og fleiri bættust við næstu árin. Síðan hefur hann haft þjóðskáldsstatus og var orðaður við Nóbelsverðlaun skömmu áður en hann dó. Fröding dvaldi langtímum saman á hælum og stofnunum og var augljóslega vanhæfur til margs sem venjulegt fólk þarf að sinna, hann dó árið 1911 rétt fimmtugur. Ida gerðist hins vegar fréttaritari víða um heim, hún skrifaði smám saman margar bækur, var hædd og smáð af mörgum og endaði sem hænsnabóndi í sænskri sveit og dó, eins og fyrr sagði, árið 1950.
Gustaf Fröding. Hann dó fimmtugur. |
Á árunum 1899–1913 ferðaðist Ida Bäckmann um heiminn eins og Beverly Gray með ritvél og skrifaði fréttapistla m.a. frá Afríkulöndum, Rússlandi, Argentínu og Hollandi, hún þvældist líka um á slóðum Búastríðsins og við olíulindir Arabíu. Samkvæmt bók Sigrid Combüchen voru pistlarnir hennar mjög lítið samfélagsgreinandi, hún var léttsnobbaður rasisti og saknar þess að hafa ekki efni á að kaupa sér svartan þjón til að taka með sér heim. Í einni ferð sinni tók Ida viðtal við Tolstoj og ferðapistlarnir hennar sem birtust í blöðum voru gefnir út í nokkrum bókum.
Skömmu eftir dauða Frödings, árið 1911, hitti Ida Bäckmann Selmu Lagerlöf á alþjóðegri kvennaráðstefnu í Stokkhólmi. Ida var nýkomin frá Rússlandi og niðurbrotin eftir dauða skáldsins og náinna ættingja sem hrundu niður um þetta leyti. Þarna upphófst samband Idu og Selmu og í hundrað ár eða svo hefur Ida verið þekkt fyrir að vera erfiða og leiðinlega vinkonan hennar Selmu Lagerlöf, en Ida er líka höfundur tveggja binda verks sem kom út 1944 og heitir Mitt liv med Selma Lagerlöf og fjallar um samskipti þeirra.
Ævisaga Idu og verkin um líf hennar með Selmu |
Svo virðist sem kynni Idu af Fröding, snobb Selmu fyrir fólki sem þekkti hann, hafi orðið til þess að þær kynntust. Hún hvatti Idu til að skrifa bók um samskiptin við skáldið og sú bók kom út árið 1913, en fyrir hana var höfundurinn hædd og spottuð. Bókin þótti léleg og allt of opinská, Ida fjallaði um allskonar undarlegheit og kynferðislegar þráhyggjur Gustafs og því var jafnvel haldið fram að hún hefði ekkert þekkt karlinn, sem var auðvitað algjört rugl. Selma Lagerlöf sveik Idu um að skrifa formálann, hann hefði kannski reddað einhverju, en bókin um Fröding var endurútgefin löngu síðar og fékk þá ekki eins slæma útreið.
Ida Bäckmann var sennilega einhvers konar eltihrellir og furðufugl en líka merkileg kona. Hún skrifaði fullt af ferðabókum, skáldsögur og þrjár barnabækur um rauðhærðu stelpuna Röpecka (Rauðka) sem var gælunafn hennar sjálfrar og það nota þær Selma í bréfasamskiptum. Ida Bäckmann var augljóslega ekki hvers manns hugljúfi. Hún reið í hnakk en ekki söðli og hafði lítinn áhuga á að klæða sig eftir óþægilegri kventísku síns tíma. Hún flakkaði um heiminn sem fréttaritari á tímum þegar afar óvenjulegt var að konur gerðu slíkt og hún þótti hvorki kvenleg né blíð eða með æskilega eiginleika kvenna. Hún baðst ekki afsökunar á sjálfri sér og var kölluð lítil og ljót og almennt óviðeigandi á allan hátt. Hún hefur auðvitað líka verið kölluð karlmannleg, kynköld, lygin piparjúnka og eitthvað fleira eins og búast má við. Mér finnst gaman að hafa kynnst þessari konu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli