21. desember 2019

Brotakennd mynd af merkilegum konum

Ung Vera Zilzer prýðir kápu bókarinnar Brot
Ég hugsa oft um allar ævisögurnar sem væri gaman að skrifa. Allar þessar áhugaverðu ósögðu ævir! Og hið dásamlega ævisöguform, hinn fasti frásagnarrammi, ævin, sem er hægt að fara með í svo margvíslegar áttir. Vissulega eru tilraunaglaðir ævisagnahöfundar í minnihluta, og leiðinlegar ævisögur eru með leiðinlegustu bókum, en það er líka svo ánægjulegt þegar vel tekst til.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni frjálslega undanfarin ár að það ætti að setja eins og tíu ára lögbann á kvikmyndir um tilvistarkrísur og þroskasögur karlmanna. Það myndi bæði auka á fjölbreytni kvikmyndanna og forða áhorfendum frá melódramatískum endurtekningum. Þetta sama mætti kannski segja um ævisögur; tíu ára lögbann á ævisögur íslenskra karlmanna. Það væri forvitnilegt að sjá hvað gerðist ef höfundar væru þvingaðir til að leita annarra viðfangsefna. Myndu ævisögur hætta að koma út?

Eða myndi ég kannski loksins fá bækur um allar forvitnilegu konurnar sem ég þrái að vita meira um og hinar sem ég veit ekki einu sinni að voru til? Hvernig eigum við að túlka líf og stöðu stórjarðeigandans Guðrúnar eldri Eggertsdóttur frá Skarði? Eða KFUK-frömuðarins Ingibjargar Ólafsson sem þrumaði svo harðorðar siðapredikanir yfir íslenskri þjóð um 1910 að hún þurfti að flýja land og bjó svo í marga áratugi með grískri prinsessu? Hvers konar Reykjavík aldamótanna myndum við kynnast gegnum augu Diðrikku Hölter, sem var skráð ómagi í manntölum en spákona í bæjarskránni?

Ég fékk slíkt kikk út úr Brot. Konur sem þorðu eftir Dóru S. Bjarnason sem er nýlega komin út hjá bókaforlaginu Benedikt og fjallar um þrjár kynslóðir óvenjulegra kvenna. Meðal þess sem gerir bókina athyglisverða er að þótt þetta sé íslensk ævisaga, gefin út á íslensku af íslenskum höfundi, eru konurnar þrjár staðsettar á mörkum Íslandssögunnar og hins alþjóðlega samhengis (hér koma fyrir persónur með nöfn eins og Ödön Zichy zu Zich sur Vasonykeö). Þær voru allar fæddar annars staðar og í rauninni eyddi engin þeirra löngum tíma á Íslandi.

Adeline Rittershaus
Sú elsta, Adeline Rittershaus, var fædd í Þýskalandi/Prússlandi 1869 en bjó lengi í Sviss. Þar kynntist hún og tók saman við íslenska námsmanninn Þorleif H. Bjarnason, sem síðar varð kennari við Lærða skólann. Adeline var af merkri frumkvöðlakynslóð menntakvenna, hún tók doktorspróf, sérhæfði sig í málfræði og germönskum málum og skrifaði doktorsritgerð um íslensk ævintýri. Hún flutti til Íslands þegar þau Þorleifur giftu sig árið 1899 en hundleiddist í Reykjavík – fannst „ekki tekið mark á sér í hópi karlmanna, til dæmis samkennara Þorleifs, og hún átti fátt sameiginlegt með eiginkonum þeirra og öðrum borgaralegum konum“ – svo hún sneri aftur til Þýskalands ári síðar, þá orðin ófrísk. Adeline vildi ekki gerast kennarafrú á Íslandi (lái henni hver sem vill) og Þorleifur vildi ekki freista gæfunnar á meginlandinu svo samband þeirra fjaraði út. Adeline varð háskólakennari í Sviss, giftist einhverju óbermi sem hún skildi svo við og flutti til Berlínar þar sem hún lést árið 1924.

Með henni til Berlínar flutti dóttir þeirra Þorleifs, fædd árið 1901, sem ólst upp hjá móður sinni. Hún hét Ingibjörg H. Bjarnason, skírð í höfuðið á föðursystur sinni Ingibjörgu Hákonardóttur Bjarnason, fyrstu þingkonu Íslendinga. Á þriðja áratugnum giftist hún manni sem hét Stein og þannig bættist við nafnið: Ingibjörg St. H. Bjarnason. Svo skildi hún við manninn og flutti til Parísar þar sem hún lagði stund á myndlist og var hluti af bóhemískum listamannakreðsum. Árið 1927 eignaðist hún dótturina Veru með ungverskum listamanni, Gyula Zilzer, en samband þeirra var stopult.

Ingibjörg St. H. Bjarnason var sú eina af konunum þremur í Brot sem ég hafði heyrt um áður, vegna tengsla hennar við myndlistarsenuna í París um 1930 og þátttöku hennar í merkri abstraktlistasýningu listahóps sem kallaði sig Cercle et Carré. Því miður eru flest verk Ingibjargar glötuð en eina málverkið eftir hana sem varðveist hefur prýðir saurblöð bókarinnar – mjög góð hugmynd og kemur fallega út.

Cercle et Carré-hópurinn árið 1930. Ingibjörg er lengst til vinstri.
Gyula Zilzer var af gyðingaættum, og dóttir þeirra Ingibjargar þar af leiðandi líka, og því var Ingibjörgu ekki rótt í París þegar komið var fram á fjórða áratuginn og Hitler kominn til valda í Þýskalandi. Hún hafði lært nudd, snyrtingu og kremgerð til að framfleyta þeim mæðgum og árið 1933 fluttu þær til Íslands þar sem Ingibjörg setti á fót snyrtistofu og kremframleiðslu undir nafninu Vera Simillon og tók til við að nudda skallann á reykvískum körlum, snyrti konurnar þeirra og fjarlægði óæskileg hár með einhvers konar rafgræju. Ótrúlegt nokk hafði Ingibjörg alltaf haldið góðu sambandi við föður sinn á Íslandi og fjölskyldu hans, þrátt fyrir fjarlægðirnar, en hann lést árið 1935.

Þótt fyrirtæki Ingibjargar gengi vel og hún fengi líklega meiri andlega örvun í Reykjavík en móðir hennar fjórum áratugum fyrr, til dæmis með því að umgangast fólkið í Unuhúsi, var Ísland ekki heldur öruggt skjól; það var eins víst að Hitler næði þangað líka. Ingibjörg giftist þýskum gyðingi sem einnig hafði flúið til Íslands og saman fluttu þau til Buenos Aires ásamt Veru litlu árið 1939. Þar bjó Ingibjörg þar til hún lést 1967.

Þriðji hluti bókarinnar fjallar um yngstu konuna, Veru Zilzer, sem ólst upp í Argentínu en bjó lengi í New York og á Ítalíu, þar sem hún lést 2004. Hún var myndlistarkona og listþerapisti og greinilega mikill karakter – örlát og kaotísk, örlynd og krefjandi. Ég hef á tilfinningunni að ég hefði haft minni þolinmæði fyrir henni en höfundur bókarinnar, sem lýsir kynnum sínum af henni og veltir fyrir sér hvort uppvöxtur Veru hafi ekki haft eitthvað að gera með það hversu rótlaus hún var; í æsku var hún oft send í burtu frá móður sinni um lengri eða skemmri tíma, auk flækingsins sem var á þeim í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar. Hún kynntist föður sínum ekki fyrr en á fullorðinsárum í Bandaríkjunum, þangað sem hann hafði flúið fyrir stríð, og þau kynni voru víst ekki sérlega ánægjuleg.

Saga Ingibjargar myndi ég segja að væri hryggjarstykkið í bókinni. Adeline er fjarlægari og tekur minnst pláss. Saga Veru er heldur ekki jafn skýr en hennar persónulýsing er þó ítarlegust og mest lifandi, enda næst okkur í tíma og fleiri á lífi sem þekktu hana. Höfundurinn Dóra S. Bjarnason hitti bæði Ingibjörgu og Veru og er, eins og nafnið gefur til kynna, tengd þeim fjölskylduböndum. Ástríða hennar og forvitni gagnvart viðfangsefninu er smitandi og hún hefur greinilega ekki látið neitt tækifæri ónotað í leit sinni að upplýsingum um konurnar, með allrahanda grúski, millilandasímtölum og ferðalögum til fjarlægra heimsálfa. Hún birtir löng brot úr frumheimildum, aðallega bréfum, sem eru bæði skemmtileg og undirstrika hina brotakenndu mynd – maður skilur ekki alltaf hvað bréfritararnir eiga við, en það fylgir því alveg sérstök tilfinning að lesa þeirra eigin orð.

Úr Chacarita-kirkjugarðinum í Buenos Aires
þar sem Ingibjörg St. H. Bjarnason var lögð til hinstu hvílu
Svo ég hnýti í frágangsatriði þá hefði bókin mátt við einum ritstjórnarlestri í viðbót; sums staðar komu nauðsynlegar upplýsingar um fólk og fyrirbæri ekki fram fyrr en á næstu opnu og annars staðar hefði mátt snyrta skipulagið á frásögninni. Að sama skapi hefði þurft að gæta betur að prófarkalestri, sérstaklega á myndatextum og öðrum aukatextum. Að öðru leyti er bókin vel úr garði gerð og hinar ýmsu myndir bæta miklu við, myndir af persónum og leikendum, mikilvægum skjölum og listaverkum þeirra mæðgna Ingibjargar og Veru.

Þegar ég sá bókina fyrst fór titillinn hálfvegis í taugarnar á mér, aðaltitillinn Brot fannst mér óeftirminnilegur og undirtitillinn Konur sem þorðu hálfklisjukenndur, en því verður ekki neitað að hvort tveggja er mjög lýsandi. Adeline, Ingibjörg og Vera voru sannarlega konur sem þorðu – þvældust fram og til baka um Evrópu og heiminn, eignuðust börn utan hjónabands, skildu við mennina sína, elskuðu fræðin og listina. Fjárhagslegur og félagslegur bakgrunnur þeirra er ekki ræddur ítarlega en þær virðast hafa verið þessar ættstóru týpur sem hegða sér alltaf eins og aðalskonur þótt þær eigi ekki bót fyrir boruna á sér.

Og titillinn Brot er lýsandi fyrir það sem mér finnst vera einn höfuðkostur bókarinnar, fyrir utan sjálft viðfangsefnið, sem er sú aðferð höfundar að leiða lesendur samhliða gegnum sögur kvennanna þriggja og sína eigin leit að þessum sögum og varpa þannig ljósi á hversu brotakennd myndin af þeim hlýtur að vera. Heimildir eru víða af skornum skammti og túlkun þeirra getur verið flókin af ýmsum ástæðum; samhengisleysi, tungumálaerfiðleikum, óræðu orðalagi. Heimildarmenn eru ekki hlutlausir aðilar heldur fólk með eigin hagsmuni og tilfinningar.

Hér vil ég ekki hafa mynd af Michel Seuphor
heldur frænkunni góðu, Ingibjörgu H. Bjarnason
Sé eitthvert illmenni í sögunni þá er það til dæmis hinn andstyggilegi Michel Seuphor, belgískur listmálari sem átti í stuttu ástarsambandi við Ingibjörgu í París um 1930 og virðist hafa verið bitur gagnvart henni fyrir að slíta því þar til hann hrökk upp af sjö áratugum síðar – eyðilagði verk eftir hana, skrifaði hana út úr öllum frásögnum sínum af starfi listahópsins Cercle et Carré og þverneitaði síðan að hafa þekkt hana en geymdi samt alltaf gamla nektarmynd af henni í leynihólfi í skrifborðinu sínu. Algjörlega grátlegt dæmi um það hvernig hefnigjarn karl beitir valdi sínu til að þurrka listakonu út úr sögunni og neitar að horfa á hana sem annað en kynferðislegt viðfang.

Adeline, Ingibjörg og Vera þurftu að takast á við ýmislegt um ævina; flótta og flæking, fátæktarhark og leiðinlega og ofbeldisfulla karla. En bókin um þær er enginn barlómur því þær voru líka allar hugdjarfar og úrræðagóðar og jafnvel ósvífnar þegar með þurfti og á bak við bókina liggur greinilega sá óslökkvandi þekkingarþorsti höfundarins sem einkennir bestu ævisögurnar.

2 ummæli:

Gudny Anna Arnthorsdottir sagði...

Frábærlega skrifuð gagnrýni og fær mig til að lesa þessa bók. Meira svona!

urgent loan sagði...

BUSINESS LOAN PERSONAL LOAN HERE APPLY NOW WhatsApp +918929509036 financialserviceoffer876@gmail.com Dr. James Eric