„Sumarið 2004 hóf ég að rannsaka sögu manneskju sem ég þekkti ekki sérstaklega vel. Um var að ræða pabba minn. Verkefnið spratt upp úr beiskjutilfinningu, upp úr reiði dóttur sem átti foreldri sem hafði horfið úr lífi hennar. Ég var á höttunum eftir óbermi, slægum manni, sem hafði, háll sem áll, stungið af frá svo mörgu; ábyrgð, ást, skuldum, iðrun. Ég hóf undirbúning ákæru, safnaði saman sönnunargögnum til að nota við réttarhöld. En einhvers staðar á miðri leið breyttist saksóknarinn í vitni.“
Með þessum orðum hefst inngangur bandaríska feministans og Pulitzer-verðlaunahafans Susan Faludi að bókinni Í myrkraherberginu (In the Darkroom) sem kom út árið 2016, en bókin er afrakstur djúpköfunar þar sem höfundurinn sekkur sér í ævi og sjálfsmyndarleit pabba síns og staldrar víða við á meðan sagan er skrifuð.
Skömmu eftir að Susan Faludi fékk tölvupóst og komst að því að pabbi hennar, sem hún hafði ekki haft nein samskipti við í tuttugu og fimm ár, hafði flutt til Ungverjalands og látið leiðrétta kyn sitt í Taílandi á gamals aldri, ákvað hún að slá til og hitta hann aftur. Gat það virkilega staðist að ofbeldisfulli karlakarlinn sem hún ólst upp hjá væri orðin settleg kona í landinu sem hún flúði eitt sinn frá?
Pabbi sendir tölvupóst
Í myrkraherberginu er saga manneskju sem fæddist sem István Friedman í Ungverjalandi, varð seinna Steve Faludi, ljósmyndari í Bandaríkjunum, en lauk ævi sinni sem konan Stefánie Faludi í Búdapest.
Upphaf bókarinnar má rekja aftur til ársins 2004 þegar Susan Faludi, þá 45 ára, fékk tölvupóst frá foreldri sem hafði horfið úr lífi hennar áratugum áður. Í póstinum kom fram að hún, pabbinn, hefði látið leiðrétta kyn sitt. Í skeytinu stingur pabbinn, sem nú heitir Stefánie, upp á að dóttirin komi og hitti hana og skrásetji sögu hennar. Í kjölfar þessara óvæntu skilaboða rifjaðist æska Susan upp fyrir henni. Hún man pabba sinn sem grjótharðan karl sem stjórnaði allri fjölskyldunni. Afar amerískan macho-pabba sem fór eftir kvöldmat út á verkstæðið sitt í bílskúrnum, sem enginn annar var velkominn inn í, og dundaði sér við karlmannlega tómstundaiðju með Black og Decker-græjurnar sínar að vopni.
Í efnislínu tölvuskeytisins til dótturinnar stóð orðið CHANGES – breytingar. Kæra Susan, skrifaði Stefánie, 77 ára gömul, til dóttur sinnar: Ég hef ákveðið með sjálfri mér að ég hafi fengið nóg af því að vera álitin árásargjarn kallakall, sem ég hef í raun aldrei verið innst inni. Með skeytinu fylgdu nokkur viðhengi, það voru myndir sem voru teknar af Stefánie eftir kynleiðréttinguna.
Susan Faludi fylltist tortryggni þegar hún las tölvupóstinn, en eftir umhugsun fann hún að hana langaði að hitta aftur foreldrið sem sveik, pabbann sem nú bjó í gamla heimalandinu, Steve Faludi hafði aldrei sagt henni neitt að ráði frá fjölskyldu sinni, æsku eða úr hvaða umhverfi hann væri sprottinn. Skömmu síðar flaug Susan Faludi til Búdapest til að hitta pabba sinn.
Bjargaði foreldrum og flúði úr landi
István Friedman fæddist árið 1927 inn í vel stæða gyðingafjölskyldu í Búdapest, sem missti allt sitt þegar gyðingaandúð og fasismi blossuðu upp á árunum fyrir seinni heimsstyrjöld. Þegar István var sautján ára gamall stal hann armborða með örvakrossi, merki ungverska fasistaflokksins, útvegaði sér svo byssu og braust ógnandi, með byssuna óhlaðna, inn í byggingu þar sem gyðingafjölskyldum var haldið föngnum. Hann frelsaði foreldra sína og útvegaði þeim fölsuð skilríki og þannig gátu þau leynst í mannlausri íbúð í Pest.
Í lok stríðsins, þegar István var átján ára, breytti hann eftirnafni sínu í Faludi (sem mun þýða þorpsbúi á ungversku). Sem meðlimur í unglingakvikmyndaklúbbi komst hann ásamt tveimur vinum sínum til Danmerkur, undir því yfirskini að þeir þyrftu að færa Dönum nýjar ungverskar kvikmyndir. Í Danmörku dvöldu vinirnir um hríð og tókst síðan, með því að breyta upplýsingum í vegabréfum sínum, sennilega gerðu þeir sig eldri en þeir voru, að komast á skip sem sigldi til Rio de Janeiro. Þegar þangað var komið fengu þeir vinnu hjá flokki ljósmyndara sem tók náttúrulífsmyndir fyrir landfræðistofnun í Brasilíu og þannig lærði István Faludi ljósmyndun, sem varð ævistarf hans.
Að nokkrum árum liðnum fékk István vegabréfsáritun til Bandaríkjanna og kom einsamall til New York árið 1953. István, sem nú hafði breytt nafni sínu í Steven, flutti einn inn í leiguherbergi á Upper East Side og leigði sér einnig húsnæði þar sem hann setti upp myrkraherbergi og fór að vinna sem ljósmyndari fyrir auglýsingastofur á Manhattan. Árið 1957 kynntist hann Marilyn í kokteilpartýi, þau giftust sex vikum síðar í synagógu, keyptu sér hús rétt fyrir utan New York og eignuðust son og dóttur.
Frá árinu 1960 starfaði Steve Faludi aðallega við að framkalla myndir og endurvinna þær með þeirra tíma tækni, retúsera eins og það var kallað, myndirnar birtust í Vogue, Glamour, House and Garden, Vanity Fair og fleiri glanstímaritum. Hann þótti mjög fær í starfi en Susan segir að sem heimilisfaðir hafi hann verið óþolandi; svo vitnað sé í orð hennar: „Hann stjórnaði heimilinu með harðri hendi, við átum það sem honum fannst gott, fórum í ferðalög á staði sem hann langaði að sjá, gengum í fötum sem hann valdi; allar ákvarðanir sem teknar voru á heimilinu voru hans ákvarðanir.“
Kvikmyndaði aðgerðina
Í lok áttunda áratugarins krafðist Marilyn, móðir Susan og eiginkona Steves Faludi, skilnaðar eftir mörg ömurleg ár í hjónabandi. Hún henti karlinum út. Nokkru eftir skilnaðinn braust hann inn á heimili hennar þar sem hann barði nýjan kærasta fyrrverandi eiginkonunnar með hafnarboltakylfu og stakk hann síðan margoft í magann með vasahníf, en sem betur fer lifði maðurinn þetta af. Steve Faludi tókst með klækjum að sleppa við harða refsingu.
Árið 1989 flutti faðir Susan Faludi til Búdapest og til að gera langa sögu stutta þá hafði hann, árið 2004 og kominn á áttræðisaldur, tekið upp nafnið Stefánie og hún gekkst undir kynleiðréttingaraðgerð í Taílandi. Stefánie hafði gert lítið af því að koma fram sem kona fyrir kynleiðréttingu. Þar sem hún hafði ekki nein vottorð frá fagfólki um að hún stríddi við kynáttunarvanda, skrifaði hún sjálf vottorð sem hún sagði vera frá ungverskum vinum og þurrkaði tíu ár af aldri sínum úr persónuskilríkjum sínum því hún óttaðist að hár aldur yrði til þess að henni yrði neitað um aðgerðina. Þetta gekk upp hjá henni og Faludi flaug til Taílands með myndavélar, þrífót, vídeótökuvél, tölvu og fleiri græjur og tókst að fá starfsfólk sjúkrahússins til að fallast á að mynda kynleiðréttingaraðgerðina.
Eftir aðgerð dvaldi Stefánie um hríð á gistiheimilinu Melanies Cocoon í Phuket á Taílandi. Melanie Meyers frá Portland í Oregon, sem rekur þetta gistiheimili, hefur einnig gengist undir kynleiðréttingarðgerð. Gistihúsið er sérstaklega fyrir trans fólk og þar dvaldi Stefánie í nokkrar vikur, jafnaði sig og vingaðist við Mel. Skömmu síðar hafði hún samband við dóttur sína.
Mótsagnakennd manneskja
Í viðleitni sinni til að skilja sögu og umbreytingu föður síns ferðast Susan Faludi yfir mörg landamæri, bæði í bókstaflegum skilningi og einnig sögulegum, landamæri sem eru pólitísk-, trúarleg- og kyngerfisleg. Hún spyr sjálfa sig og lesandann í leiðinni: Er sjálfsmynd eitthvað sem manneskjan getur valið eða er hún eitthvað sem ekki verður komist undan? Og það kemur kannski engum á óvart að við þessum spurningum, sem brenna á mörgum, fæst ekki einfalt svar.
En sem sagt: Skyndilega sat Susan Faludi með öldruðum pabba sínum, heima hjá Stefánie Faludi, í Búdapest. Og samskipti þeirra og samtöl, og mér finnst það reyndar engin furða, eru á margan hátt undarleg og oft frekar fyndin. Susan vill fara út, skoða ferðamannastaði og heimsækja staðina þar sem Stefánie dvaldist á æskuárunum. En pabbinn, Stefánie Faludi, sem hafði eytt stórum hluta lífs síns í að retúsera ljósmyndir fyrir stærstu tískublöð heims, vildi frekar vera inni og sýna dótturinni myndir af sjálfri sér fótósjoppaðri í mismunandi fötum í tölvunni sinni. Stundum fóru þær þó á söfn og kaffihús, því Stefánie var æst í sachertertur og fleira bakkelsi með rætur í ríki Habsborgara. Stéfanie kemur í bókinni fyrir sem montin, hvatvís, þrjósk og snillingur í að koma sér undan því að svara erfiðum spurningum dótturinnar, hún er mótsagnakennd og léttóþolandi manneskja, en samtímis á einhvern hátt alveg ómótstæðilega skemmtileg. Fyrirmyndir hennar í lífinu voru Stefan Zweig, H.C. Andersen og Leni Riefenstahl.
Í samtölum við Stéfanie dregur dóttirin upp áhugaverða mynd af pabbanum, en þar sem pabbinn leynir augljóslega ýmsu og kemur sér hjá því að svara spurningum, fer Susan Faludi, sem varði tíu árum í að skrifa bókina, og hefur uppi á vinum Stéfanie og hún fer til Ísrael og finnur ættingja sem hún vissi varla að væru til, en hjá þeim er pabbinn hálfgerð goðsögn vegna framgöngu Istváns við að bjarga foreldrum sínum frá því að enda líf sitt í útrýmingarbúðum.
Meðal þeirra sem Susan Faludi talar við þegar hún er að kafa í sögu pabba síns er Mel, sem rekur gistiheimili fyrir transfólk í Taílandi og býr einnig í Portland í Oregon. Áður en þær hittast á kaffihúsi segist Mel, sem fæddist í líkama karlmanns en gekkst undir kynleiðréttingu, ekki vera búin að ákveða hvort hún komi til fundar við Susan sem karl eða kona, en Mel mætir síðan á kaffihúsið sem karlmaður. Þegar þær hafa kynnt sig segir Mel: „Ég var mjög fallegur þegar ég var karlmaður ... ég meina alvöru karlmaður ...“ og svo ranghvolfir Mel augunum og segir að þetta sé auðvitað allt mjög ruglingslegt. Mel sýnir Susan Faludi myndir af sér frá ýmsum tímabilum og segir henni frá öllum aðgerðunum, það voru meðal annars mjög umfangsmiklar andlitsaðgerðir þar sem kjálkum og nefi var breytt og Mel segist jafnframt vera með margar títanskrúfur í enninu.
Línan milli lífs og dauða sú eina sem skilur fólk að
Lífið hefur hins vegar ekki verið Mel auðvelt eftir aðgerðirnar, þær höfðu í för með sér atvinnumissi, hunsun fjölskyldumeðlima og sem kona segist Mel upplifa ýmsar hindranir í viðskiptalífinu sem hún varð ekki vör við sem karlmaður. Þegar þarna er komið sögu er hún farin að koma aftur fram sem karlmaður, og segir að í raun hafi hún alltaf verið androgyn eða vífguma. Ef kyn er mælt á skalanum 1-10 þar sem sá sem er karlmannlegastur sé 1 og sú kvenlegasta sé 10 þá hefur Mel alltaf verið fimma. Orðin sem Susan Faludi hefur eftir Mel eru á eitthvað á þessa leið: „Mér finnst ég vera vífguma en ég vil ekki vera það. Fólk getur ekki lifað án þess að vera flokkað. Meira að segja jaðarsetta fólkið þarf sína flokkun svo að það geti þrifist á jaðrinum. Fólk verður að hafa skýra sjálfsmynd.“
En hver er niðurstaða bókarinnar Í myrkraherberginu? Fær Susan Faludi einhvern botn í pabba sinn István/Steve/Stefánie? Er hún sammála Mel um að skýr sjálfsmynd sé mikilvæg?
Susan Faludi slær engu föstu í bókinni um föður sinn. Samt sem áður má taka saman einhvers konar niðurstöður. Hún telur að allt sitt líf hafi pabbi hennar átt í vanda með að skilgreina hver hún væri: til dæmis Gyðingur eða ekki-gyðingur, karl eða kona, Ungverji eða Ameríkani. En á því andartaki sem Susan Faludi sér pabba sinn á líkbörunum árið 2015 rennur upp fyrir henni að það sé í raun aðeins ein lína sem skilur fólk að og hún er sú sem markast af skilunum á milli lífs og dauða. Annað hvort lifir fólk eða það lifir ekki. Allt annað er óljóst og fljótandi eða mótanlegt. Þessi held að sé niðurstaða bókar Susan Faludi sem hefur yfirskriftina Í myrkraherberginu. Ég er samt alls ekki viss.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli