10. október 2020

Harmræn saga erfingja mjólkurfernuveldisins

Sumarið 2012 fylltust fjölmiðlar af myndum og fréttum um harmleik í einni af tuttugu ríkustu fjölskyldum heims. Fjölskylda þessi, sem hafði alltaf verið mjög fjölmiðlafælin og haldið einkalífi sínu eins fjarri slúðurpressunni og mögulegt var, komst ekki lengur undan því að lenda á forsíðum blaðanna. Eva Rausing, fædd 1964, hafði fundist látin af völdum ofskammts fíkniefna á heimili sínu í glæsihýsi í Belgravia í London. Eva þessi var eiginkona Hans Kristians Rausings, tæplega fimmtugs erfingja drykkjarfernuveldisins Tetra Pak. En Eva Rausing var ekki nýlátin, Hans Kristian hafði látið lík eiginkonunnar liggja og rotna bak við luktar dyr í tvo mánuði. Bæði hjónin voru háð vímuefnum, þau voru einnig foreldrar fjögurra barna og þekkt par í samkvæmislífi ríka og hressa fólksins í Lundúnaborg.

 

Sársaukafullt líf aðstandenda
Fimm árum eftir að lík Evu fannst gaf Sigrid Rausing, systir Hans Kristians, sem
er árinu eldri en hann, út bók. Þar segir hún frá sænsku Rausing-fjölskyldunni, ævi þeirra systkina, lífi bróður síns fíkilsins og aðdraganda dauða mágkonunnar. Sigrid býr í Englandi. Hún er með doktorspróf í mannfræði og er eigandi bókaforlagsins Granta Books þar sem hún er forleggjari og ritstjóri. Bók Sigrid hefur titilinn Mayhem: A Memoir. Ég veit ekki almennilega hvernig á að íslenska hugtakið mayhem; upplausn, ringulreið, öngþveiti, limlestingar, koma upp í hugann, en samkvæmt orðsifjabókinni er orðið mayhem, skylt íslensku sögninni að meiða. Sigrid Rausing skrifar:
„Að neyðast til þess að verða vitni að ofneyslu fíkniefna er skelfilega erfitt. Sem aðstandanda skipti það mig engu máli hvort þetta væri opinbert eða ekki. Áhyggjurnar voru slíkar að fyrirsagnir blaðanna skiptu engu máli. En ég vildi ekki að fjölmiðlar slægju eign sinni á söguna.“
Mayhem er áhrifarík bók um sársaukafullan raunveruleika aðstandenda fíkla. Af hreinskilni og virðingu miðlar Sigrid Rausing reynslunni af því sem hún hefur upplifað með fjölskyldu sinni. Örvæntingu, vonum, vonbrigðum og angist er lýst af einlægni og skerpu, en textinn er lágmæltur og oft svolítið dáleiðandi. Höfundurinn sagði í viðtali þegar bókin kom út að hún tryði á mikilvægi hins skrifaða orðs, enda eru skriftir og ritstjórn hennar daglega iðja. Sigrid Rausing segir frá barnæskunni með litla bróður sínum, krúttlegum krakka sem var sólginn í kakómalt, en breyttist á skömmum tíma í heróínfíkil um tvítugt. Rausing-systkinin eru þrjú, Lisbet, Sigrid og Hans Kristian. Þau fæddust með skömmu millibili og ólust upp í Lundi í Svíþjóð hjá foreldrum sínum, Märit og bissnissmanninum Hans Rausing, en faðir hans, Ruben Rausing, afi systkinanna, var einn af stofnendum Tetra Pak. Við þekkjum öll þær drykkjarfernur. Sigrid Rausing lærði sagnfræði og mannfræði og varði doktorsritgerð við University College í London. Ritgerðin fjallar um Sovétveldin eftir fall Sovétríkjanna, hún dvaldi í tvö ár á samyrkjubúi í Eistlandi við doktorsrannsóknirnar. Systkinunum lýsir Sigrid þannig að þau hafi verið mjög lík sem börn, ekki síst hún sjálf og Hans Kristian, en þegar þau stálpuðust skildi leiðir, bæði bókmenntalega og pólitískt. „Ég las Jane Austen en hann las Charles Bukowski. Ég hallaði mér til vinstri en hann til hægri“ skrifar hún.

Hans og Eva Rausing

Afdrifaríkt ferðalag

Rétt fyrir tvítugt fór Hans í ferðalag með vinum sínum, þeir tóku Síberíuhraðlestina í gegnum Sovétríkin og ferðuðust síðan til Kína og Indlands. Á strönd í Goa á Indlandi kynntust þeir ítölskum stelpum sem buðu þeim heróín og Hans ákvað að prófa. Eftir að hann sneri heim aftur festist hann fljótlega í neyslu. Sigrid reyndi að hjálpa honum að hætta en með litlum árangri. Hún sjálf sökk niður í örvæntingu og þunglyndi og brotnaði niður andlega. En hún jafnaði sig og hóf doktorsnám sem hún lauk með góðum árangri. Á meðan var bróðir hennar í ruglinu. Hans Kristian kynntist Evu á meðferðarheimili þegar þau voru tuttugu og fjögurra og tuttugu og fimm ára gömul. Þau heilluðust hvort af öðru og í átta ár eftir útskrift úr meðferð neyttu þau engra fíkniefna. Þau gáfu fúlgur fjár til stofnana sem aðstoða fíkla og eignuðust fjögur börn. En á gamlárskvöld árið 2000 skutu þau tappa úr kampavínsflösku, drukku það sem var í flöskunni, sneru sér svo að sterkari efnum og við tóku tólf skelfileg ár. „Ég var þrjátíu og átta ára þegar þetta hófst og fimmtíu þegar því lauk“ skrifar Sigrid Rausing í bókinni Mayhem.

Líkið í rúminu
Þann 9. júlí árið 2012 var Hans Rausing stöðvaður á bíl af lögreglunni sem tók eftir því að eitthvað væri undarlegt við aksturslagið. Í biðfreiðinni fundust fíkniefni og krakkpípa. Þetta varð til þess að lögreglan sótti sér heimild til húsrannsóknar. Þá fannst lík Evu Rausing, það hafði legið í tvo mánuði í rúminu, læknir staðfesti síðar að dánarosök væri ofskammtur og að hún hefði að öllum líkindum látist 7. maí. Líkið var vafið inn í ábreiðu, ofan á henni var sæng og þar ofan á hafði verið staflað fjölmörgum sjónvarpsskjám. Hans Kristian, frávita af neyslu, afneitaði því að konan hans væri liðið lík: „Ég gat ekki horfst í augu við þann raunveruleika að hún væri dáin. Ég reyndi bara að halda áfram að lifa líkt og þetta hefði ekki gerst og ýtti frá mér öllum spurningum um hvar hún væri,“ sagði hann í yfirheyrslu hjá lögreglunni. Hans Rausing horfði á Evu taka skammtinn sem varð henni að bana, en gat síðan ekki viðurkennt að hún væri dáin. Nokkrum árum áður en hún lést höfðu börnin verið dæmd af þeim, Sigrid systir hans fékk forræði yfir þeim.
Sigrid Rausing skrifar: „Ég hugsaði mikið um fyrirbærið fjölskyldu og hvað felst í því að vera fjölskylda. Hvar liggja mörkin varðandi ábyrgð? Hans og Eva elskuðu börnin sín,“ heldur hún áfram, „en verður ekki hugtakið ást klisjukennt þegar talað er um foreldrahlutverkið? Hvaða merkingu hefur það að elska ef fíkniefnin ganga alltaf fyrir?“ Það tekur á að lesa um réttarhöldin þegar Sigrid berst fyrir því að fá forræði yfir börnum bróður síns. Eva gerir það sem hún getur til að spyrna á móti, hún sendir hatursbréf til mágkonu sinnar og segir hana hafa stolið börnunum frá sér, en málið snýst í raun um hvort Sigrid fái börnin, og þau geti þá mögulega haldið einhverju sambandi við foreldrana, eða hvort bresk barnaverndaryfirvöld sendi börnin í fóstur til vandalausra.



Í meðferð með Amy Winehouse

Sem lesandi skynjaði ég vanlíðan höfundarins mjög sterkt. Hún reynir að feta einhvern vandrataðan stíg, gera það sem henni finnst rétt og halda haus við algjörlega ömurlegar aðstæður. Tilvistarlegar spurningar leita á hana. Er hún að gera rétt? Hvað er rétt? Á hún að vera með sektarkennd? Á árunum 2006 og 2007 fór Hans í nokkrar árangurslusar vímuefnameðferðir. Í einni þeirra var söngkonan Amy Winehouse samtímis honum. Á ritunartíma Mayhem horfir Sigrid Rausing á heimildarmynd Asif Kapadia um Amy og verður fyrir áhrifum. Hún finnur til samlíðunar með döprum vinum hennar en mest áhrif hafa sjálfsmyndir af Amy sem hún tók dagana fyrir andlát sitt. Magurt andlit, baugar og kuldalegt og fjarrænt augnaráð minna hana á mágkonuna. Sigrid veltir því fyrir sér hvort Amy og Eva hafi áttað sig á því rétt fyrir andlát sín að þær væru í bráðri lífshættu. Sigrid segist á tímabilum hafa látið sig dreyma um að ræna bróður sínum:
„Mig langaði að fara með hann á afvikinn stað, losa hann við fíkniefnin og neyða hann til að takast á við lífið án efnanna. Ég velti því fyrir mér hver gæti hjálpað mér, ég velti fyrir mér hvaða lækna ég gæti fengið í lið með mér og hvernig ég gæti lokað hann inni. Ég var með sektarkennd yfir þessum fantasíum, og ég skammaðist mín fyrir að ætla að bjarga honum en ekki Evu.“
Þessar vangaveltur finnst mér mjög skiljanlegar, efnin höfðu í raun rænt Hans Kristian, hann var fangi og systir hans þráði að ræna honum til baka úr klóm vímuefnanna. En Sigrid Rausing rændi aldrei bróður sínum. Hún barðist í réttarsal og fékk að taka börnin hans að sér þegar foreldrarnir voru orðnir vanhæfir til þess að hugsa um þau. Hún missti í kjölfarið alveg samband við Hans en átti alltaf í einhverjum samskiptum við Evu. Þegar systkinin hittust og féllust í faðma, tveimur árum eftir lát Evu, árið 2014, höfðu þau ekki sést í sex ár.


Hvað er að vera manneskja?

Í bókinni Mayhem reynir Sigrid Rausing að komast til botns í því sem gerðist, hún leitar svara við sársaukafullum spurningum sem aðstandendur þeirra sem neyta vímuefna í óhófi standa frammi fyrir. Þær spurningar eru margar og við fæstum fást eindregin svör. Mayhem er saga um átankanlegar afleiðingar fíkniefnaneyslu, áhrifin á fjölskyldu fíklanna og vanmátt allra aðstandenda. Eftir lát Evu fékk Hans Rausing tveggja ára skilorðsbundinn dóm. Hann var einnig dæmdur til meðferðar á fíknideild. Árið 2014 kvæntist hann Juliu Delves Braughton, framkvæmdastjóra hjá uppboðsfyrirtækinu Christie's, og meðal gesta í brúðkaupinu voru heimsfrægar poppstjörnur og fjölmiðlafólk. Þegar ég sló nafn Hans Rausings inn í leitarvél í dag komst ég að því að haustið 2019 leiddi hann Lucy, 24ra ára dóttur þeirra Evu heitinnar, upp að altarinu þegar hún gifti sig.

Það þarf hugrekki til að skrifa bók eins og Mayhem. Ég held að hvati höfundar hafi að töluverðu leyti verið að svara slúðurpressunni sem einfaldar flókna hluti, veltir sér af slepjulegri tilfinningasemi upp úr þjáningum fólks og svarar fáum spurningum. Sigrid Rausing segir að erfiða reynslu þurfi að setja í orð, ekki vegna þess að það þjóni meðferðarlegum tilgangi fyrir skrifarann heldur vegna þess að þannig megi öðlast skilning á því hvað felst í því að vera manneskja.

Engin ummæli: