28. febrúar 2012

Á bókaslóðum í Manchester

Hvaða bókanjörður kannast ekki við það að leita uppi bókatengd fyrirbæri á ferðum um útlönd? Ég hef farið á Jane Austen-safnið í Bath, gengið um Edinborg á slóðum Rebusar vinar míns, ráfað um Oxford í Morse-nostalgíukasti, og þegar ég fór fyrst til Parísar 17 ára gömul langaði mig að vera Andri hans Péturs Gunnarssonar.

John Rylands Library, Manchester
Svo er líka gaman að skoða almennari bókatengd fyrirbæri. Í síðustu viku eyddi ég afar ljúfum degi í Manchester og eitt af því sem ég hafði ákveðið fyrirfram var að skoða John Rylands-bókasafnið. Það reyndist auðvelt að finna þetta fallega safn, sem er háskólabókasafn undir Manchester-háskóla og staðsett í göngufæri við miðbæinn og t.d. Piccadilly-brautarstöðina. Ekki spillir fyrir að um miðborgina alla ganga ókeypis strætisvagnar sem kallast Metroshuttle og er afskaplega einfalt að nýta sér. Gott framtak í þágu umhverfisins og borgarmenningarinnar.

Byggingin sem hýsir John Rylands-safnið var reist fyrir þarsíðustu aldamót og safnið formlega opnað á nýársdag árið 1900. John þessi Rylands ku hafa verið auðkýfingur úr borginni sem sýslaði með bómull og önnur textílefni, en iðnaðararfleifð Manchester byggist ekki síst á vinnslu og sölu textílefna. Það var ekkja Johns, Enriqueta Rylands, sem stofnaði bókasafnið og styrkti byggingu þess í minningu eiginmannsins sem lést 1888. Ansi veglegur minnisvarði það.

Og hvað er svona skemmtilegt við að skoða John Rylands-bókasafnið?

Inni í lestrarsalnum (ég tók ekki þessa mynd en finn ekki
nafn ljósmyndarans, því miður)
Fyrir það fyrsta er safnið sjálft mjög falleg neó-gotnesk bygging full af skrautgluggum, súlum og bogadregnum göngum. Þessi bygging hýsir síðan mikið af gömlum bókum, handritum og ýmsum safnmunum sem tengjast bókmenningu. Ég skoðaði gamla lestrarsalinn sem er enn í notkun sem slíkur en er einnig fullur af ævagömlum bókum; þar er einnig hægt að sjá skemmtilega sýningu á bókbandi sem mér fannst hápúnkturinn á heimsókninni. Þar er að finna gríðarlega fallegar bækur frá miðöldum, meðal annars trúarrit og aðra texta sem voru innbundnir fyrir kóngafólk og aðalinn - og svo mýmörg dæmi um alls kyns bókband allt fram á okkar daga. Fjölbreytilegt og listavel gert. Af skiljanlegum ástæðum má ekki taka myndir af þessum sýningargripum en annars er leyfilegt að valsa um með myndavélina eins og manni sýnist. Ég er hins vegar ekki mikið fyrir að taka myndir á söfnum - mér finnst skemmtilegra að upplifa hlutina filterslaust með eigin augum. Ég smellti þó af nokkrum myndum fyrir siðasakir.

Einn af mörgum fallegum gluggum
Af góðum titlum sem ég rakst á í hillum safnsins má nefna The Heroyk Life of Henry IV, A Worke Concerning the Trunesse of Christian Religion, A Thankfull Remembrance of God's Mercy og Unheard of Curiosities.




Ég skoðaði einnig sýningu um St Bartholomew's Day 1662 (miklir umbrotatímar í bresku þjóð- og trúarlífi), sýningu um bókaútgáfu og prentverk í Manchester, og listaverk eftir Nicolu Dale sem kallast Kindle.

Safnið er að sjálfsögðu líka í notkun sem bókasafn og þeir sem eiga bókasafnskort hafa aðgang að fleiri krókum og kimum en óinnvígðir. Það var engu að síður mun skemmtilegt að koma við á John Rylands Library sem túristi og ég mæli eindregið með því fyrir bókhneigt ferðafólk, sem og þá sem hafa gaman af fallegu handverki og/eða bókbandi.
Ég og nokkrar skruddur

Engin ummæli: