19. febrúar 2012

Downton Abbey og Life below stairs

Jafn klisjukennt og það nú hljómar þá er ég einlægur aðdáandi sjónvarpsþáttanna um fólkið í Downton Abbey. Því miður þá náði ég ekki að fylgjast með þáttunum alveg frá byrjun og hef því fengið söguna í aðeins bútasaumskenndu formi, en það sakar svosem ekki. Nú bíð ég auðvitað spennt eftir framhaldinu, það hýtur bara að vera að það verði framleiddir þætti alveg þangað til ættin verður komin á vonarvöl og afkomendurnir farnir að ganga í hippalegum klæðum og taka þátt í Aldermaston marches. Ég er alveg viss um að í næstu þáttaröð þá fer allt í rugl og enginn nema pólitíski bílstjórinn sem lady Sybil giftist getur bjargað familíunni.Annars er það kannski ekkert svo skrítið að kona sem hefur sérstakan áhuga á herragarðsbókmenntum og lifir sig inní bækur Jane Austen, Elizabeth Gaskell og Brontë systra skuli hafa gaman af Downton Abbey. Samt ef til vill best að fara ekkert að sálgreina þetta of mikið. En mitt í Downton Abbey fárinu í vetur var ég stödd í bókabúð í London. Þar var að sjálfsögðu aðeins verið að gera útá þennan áhuga á sjónvarpsþáttunum og búið að stilla upp ýmiskonar bókum sem áhangendum gætu hugnast. Þar á meðal var bók eftir menningarsagnfræðinginn (cultural historian) Siân Evans sem ber nafnið Life below Stairs in the Victorian & Edwardian Country House. National Trust gefur bókina út, en höfundurinn hefur m.a. unnið fyrir þá sem og Victoria & Albert Museum og Design Museum.

Life below Stairs mætti etv flokka sem einhverskonar “coffee table” bók. Hún myndi amk sóma sér ágætlega til skrauts á huggulegu sófaborði. Hún er samt í heldur minna broti en þær bækur eru oft og ekki eins glansleg og þannig bækur eru gjarnan. Það er mjög mikið af afskaplega fallegum litmyndum í bókinni, sem teknar eru í hinum ýmsu “stately homes” sem National Trust hefur umsjón með. Þrátt fyrir að í bókinni séu lýsingar á hinum ýmsustu aðstæðum sem vinnufólk á heldri heimilum bjó við þá eru myndirnar allar mjög estetískar og það sem þær sýna af híbýlum þjónustufólksins er allt þannig að maður gæti svosem alveg hugsað sér að búa þar sjálfur! Í bókinni eru skemmtilegar og fróðlegar lýsingar á því sem höfundur kallar “the characters below stairs” og þar finna Downton Abbey aðdáendur upplýsingar sem þeir geta mátað karakterana úr þáttunum við. Það er eiginlega ótrúlegt að lesa margar þessar lýsingar og reyna að skilja hvernig hugarheimurinn sem þarna er lýst varð til. Kaflinn um sem heitir “The footman” er t.d. mjög áhugaverður, en þar kemur fram að það þótti mjög fínt að vera með “footman/men” sem þjónuðu til borðs og sinntu ýmsum öðrum störfum. Þeir voru nokkurskonar status symbol fyrir vinnuveitandann og voru iðulega ráðnir á grundvelli útlits og stimamýktar. Það skipti sum sé miklu máli að vera með fallega “footmen” og oft voru þeir ráðnir í pörum sem pössuðu saman útlitslega. Ekki er síður áhugavert að lesa um “The lady´s maid” en aðalskonur sem vildu vera konur með konum þurftu á stöðugri þjónstu að halda. Bæði var fatnaður þeirra þannig hannaður að það var næsta ómögulegt fyrir þær að klæða sig sjálfar – umfangsmiklar krínólínur, korselett sem þurfti að reyra og svo það að kjólar og skyrtur voru hnepptar á bakinu og jafnvel upp á háls. Kjóla- og skyrtukragar voru víst líka stundum þannig úr garði gerðir að í þeim voru bein sem héldu þeim stífum og heftu mjög hreyfingar. Þetta ku m.a. hafa verið gert til að bæta limaburð kvennanna. Það magnaðasta í þessu kafla fundust mér reyndar upplýsingarnar um það að aðalsfrúrnar hafi þurft að skipta um föt 6 sinnum á dag!

Fyrir þá sem hafa óbilandi áhuga á öllu því sem fornt er og breskt þá svíkur Life below Stairs ekki. Fyrir þá sem hafa áhuga á menningarsögu og stéttvitund gætu bókin líka verið áhugaverð.

3 ummæli:

Maríanna Clara sagði...

ég hef vandræðalega mikinn áhuga á þessu og finnst bókin hljóma afskaplega vel!

Nafnlaus sagði...

Úh, ég hef líka vandræðalega mikinn áhuga á þessu og hef alltaf haft. Síðasta árið hef ég lesið talsvert af bókum sem koma inn á þjónustufólk og þessa stéttaskiptingu "stóru húsanna", ris þeirra og hnignun. Annars vegar hef ég verið að lesa mér til í kringum Jane Austen og hins vegar hefur tilviljunin leitt mig að ýmsum bókum sem tengjast sama efni, eins og virðist alltaf gerast um leið og maður fer að pæla í einhverju tilteknu. Bill Bryson fjallar t.d. talsvert um líf þjónustufólksins í At Home, sem ég bloggaði um einhvern tíma eftir áramót. Ég þarf greinilega að tékka á Life Below Stairs.

Salka

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Já og National Trust finnst mér frábært fyrirbæri. Það er ótrúlega vel haldið utan um húsin sem eru í þeirra umsjón og virkilega gaman að heimsækja hin ýmsustu hús. Ég mæli með því við fólk sem ferðast til Englands að það reyni að komast í a.m.k. eina slíka heimsókn, en reyndar er gallinn sá að (skiljanlega) eru flest húsin utan þéttbýlissvæða og þess vegna þarf maður iðulega að vera á bíl til að komast alla leið.