8. febrúar 2012

Eins konar X-Men

Sjáiði, hún svífur!
Miss Peregrine´s Home for Peculiar Children er unglingabók eftir Bandaríkjamanninn Ransom Riggs (já, ég held hann heiti það í alvörunni).

Hún fjallar um unglinginn Jacob sem á ríka foreldra sem virðast hvorki hafa tíma fyrir hann né mikinn áhuga á honum. En hann og afi hans, pólskur gyðingur sem missti alla fjölskyldu sína í útrýmingarbúðum í seinni heimsstyrjöldinni, eru afar nánir. Afi hans segir honum ótrúlegar sögur af því þegar hann barðist í stríðinu, hvernig hann lærði á byssur, hvernig hann lærði að komast af í óbyggðum og síðast en ekki síst sögur af börnunum sem hann ólst upp með á munaðarleysingahæli á velskri eyju, undir dyggri stjórn Miss Peregrine.

Þar voru engin venjuleg börn, sagði hann, heldur gátu sum flogið, önnur voru ósýnileg og önnur með andlit aftan á hausnum o.s.frv. Hann á meira að segja myndir af þeim öllum sem hann sýnir Jacob. Hann varar hann líka við skelfilegum skrímslum sem hafa elt hann á röndum alla ævina og lýsir þeim niður í smæstu smáatriði.


Þegar Jacob eldist fer hann að efast um að ævintýralegar sögur afa hans séu sannar og afskrifar þær sem ímyndun gamals manns sem sé að reyna að endurskrifa fortíð sína því sannleikurinn sé of sársaukafullur. En þegar afi hans er myrtur á hrottalegan hátt, Jacob er fyrstur á vettvang og sér með eigin augum skrímslið sem afi hans lýsti fer hann að efast um að sögur afa hans hafi verið uppspuni. Foreldrar hans senda hann til geðlæknis sem reynir að telja honum trú um að skrímslið hafi einungis verið hugarburður hans, en Jacob á erfitt með að kyngja því að hann sé geðveikur. Hann ákveður að fara til Wales og reyna að grennslast fyrir um uppruna afa síns og hvað sé til í sögum hans. Geðlæknirinn styður ákvörðunina, Jacob og pabbi hans fljúga til Wales og Jacob finnur dapurlegar rústirnar af munaðarleysingjahælinu þar sem afi hans ólst upp. Hann er í þann mund að snúa heim og sætta sig við að vera ímyndunarveikur geðsjúklingur þegar hann rekst á skara af börnum sem hann kannast óneitanlega við.

Auðvitað eru þetta sömu börnin og á myndunum sem afi hans sýndi honum og þau hafa ekki elst um dag. Jacob eltir þau inn um göng og þegar hann kemur út á hinum endanum þá ...

Nei, ók ég ætla ekki að rekja söguþráðinn frekar, en það þarf engan að undra að í ljós kemur að það var heilmikið til í sögunum sem afi Jacob sagði honum og skrímslin eru til í alvörunni.

Sagan minnir meira en lítið á X-Men og ef ég væri í stuði til að fetta fingur þá gæti ég hnýtt í hitt og þetta og t.d. bent á Jacob gæti verið meira spennandi aðalpersóna og foreldrar hans séu afar ótrúverðugir karakterar, en mér fannst bókin skemmtileg og hnökrarnir trufluðu mig varla nokkuð.

Höfundurinn fer heldur óhefðbundna leið við karaktersköpun, sem ég hafði gaman að, því hann sankaði að sér fullt af gömlum og ógeðslega krípí myndum, sem sýna allskonar skrýtið fólk að gera allskonar skrýtna hluti sem það ætti ekki að geta gert, eins og vera ósýnilegt, fljúga o.fl. Í lokaorðum bókarinnar þakkar hann nokkrum söfnurum sem hafa það undarlega áhugamál að kemba antíkbúðir og markaði í leit að svona furðumyndum. Myndirnar fylgja með í bókinni og það er gaman að rýna í þær, sérstaklega þegar maður veit að þær voru ekki búnar til í Photoshop, heldur eru í alvörunni gamlar (en örugglega falsaðar fyrir því, þó maður geti auðvitað látið sig dreyma um að veröldin og fólkið sem bjó í henni hafi verið skrýtnara þá og allskonar furðuverk verið til og fest á filmu).

Hér eru nokkur dæmi úr bókinni:

Bókin er svo bara sú fyrsta í heilli seríu (ég veit ekki hvað þær eiga að vera margar, en ég hef á tilfinningunni að það komi slatti) og fregnir herma að sjálfur Tim Burton ætli að gera bíómynd eftir henni.

Þannig að ég held að við munum heyra þónokkuð frá honum Jacob í framtíðinni.

4 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Þetta hljómar nú ansi skemmtilega, ekki síst myndirnar.

Kristín Svava sagði...

Krípí gamlar myndir eru frábærar. Ég sá heimildarmyndina Wisconsin Death Trip á síðustu RIFF - hún notar ekki ósvipað myndefni, en ljósmyndirnar voru reyndar það langbesta við hana.

Nafnlaus sagði...

Úhh!

Jóhann Þórsson sagði...

Ég var alveg agalega svekktur með þessa bók, eins og lesa má hérna.

En myndirnar í bókinni eru flottar, og afar creepy.