2. febrúar 2012

Stofnunin og mæðraveldið

Undanfarið hef ég verið að lesa á kyndlinum tvær skáldsögur sem hafa verið lengi á leslistanum og eiga ýmislegt sameiginlegt. Þær eru báðar af þeirri tegund sem lendir gjarnan á listum yfir hundrað bestu bækur 20. aldarinnar, þær eru báðar frá 1962, þær fjalla báðar um samskipti einstaklingsins við yfirvaldið og það hafa verið gerðar frægar kvikmyndir eftir þeim báðum; A Clockwork Orange eftir Anthony Burgess og One Flew Over the Cuckoo´s Nest eftir Ken Kesey (myndarlega manninn með pípuna hér til vinstri).

Ég hafði gaman af A Clockwork Orange, sérstaklega rússneskuskotna nadsat-slangrinu sem talað er í þessari dystópísku veröld og setur mark sitt á frásögnina, en plottið greip mig ekki sem slíkt og mér fannst endirinn ósannfærandi (rétt eins og bandarísku útgefendum Burgess, sem og Stanley Kubrick, sem slepptu síðasta kaflanum). Ég man reyndar ekki eftir neinni bók þar sem mér hefur þótt uppljómun syndara í blálokin sannfærandi, sem er það sem á sér stað í A Clockwork Orange. (Eitthvað svipað gerist í Les Liasions Dangereuses, sem Guðrún Elsa skrifaði um fyrr í vikunni, og af líkum ástæðum fór endirinn á Glæp og refsingu rosalega í taugarnar á mér á sínum tíma.) Gaukshreiðrið er hins vegar mun dramatískari bók og olli mér á endanum mun meiri óþægindum en ofbeldið og djöfulgangurinn í Burgess.

Söguþráðurinn hljómar sennilega kunnuglega fyrir marga. Gaukshreiðrið gerist á deild á geðsjúkrahúsi þar sem valdasjúka hjúkrunarkonan Ratched ræður ríkjum. Hún stjórnar mönnunum á deildinni með járnhendi í flauelshanska, etur þeim saman, niðurlægir þá og og kúgar með útsmognum sálfræðihernaði. Sögumaðurinn er Chief Bromden, hálfur indíáni og tröll að vexti, sem þykist vera mállaus og heyrnarlaus en fylgist náið með því sem á sér stað. Einn daginn kemur nýr vistmaður á deildina, hinn rauðhærði og tattúveraði McMurphy, sem hefur tekist að svindla sér út úr fangelsi þar sem hann sat inni fyrir kynferðisglæp og inn á geðsjúkrahús í staðinn. McMurphy er hress, blátt áfram og blygðunarlaus töffari, semsagt allt sem hinir vistmennirnir eru ekki. Koma hans hleypir lífinu á deildinni í uppnám og endar á að frelsa mennina undan yfirráðum Ratched hjúkrunarkonu og eigin veikleikum.

Það er ýmislegt gott um bókina að segja. Ég myndi í sjálfu sér segja að hún væri góð í þeim skilningi að hún er vel skrifuð, sagan er grípandi, persónur vistmannanna eru sannfærandi og vel gerðar sem og lýsingarnar á þrúgandi andrúmsloftinu í lokuðu samfélagi sem einkennist af vantrausti, óöryggi og andlegu ofbeldi. Hún hefur sennilega verið þörf gagnrýni á meðferð geðsjúkra á sínum tíma – raflostsmeðferðum og lóbótómíum beitt sem kúgunartæki og svo framvegis – og þess þá heldur almennari gagnrýni á hið alsjáandi stofnanavald, en þessi gagnrýni er svo gegnsýrð af neikvæðri afstöðu til valds kvenna að fyrir mér fellur hún að miklu leyti um sjálfa sig.

„Vondi kallinn“ í bókinni er auðvitað Ratched hjúkrunarkona, sem hefur komist á lista yfir verstu illmenni kvikmyndasögunnar og situr þar við hlið varmenna á borð við Drakúla og Hannibal Lecter. Ratched hjúkrunarkona er ekki einhver banal sadisti með varalit. Hún er fulltrúi stofnunarinnar, heldur yfirborðinu fáguðu en stjórnar bak við tjöldin. Hún reynir að vera eins konar kynlaus einráður. Hvíti hjúkrunarkonubúningurinn hennar er svo stífur að hann hylur kvenlegar línur hennar og hún gengur ekki með neitt kvenlegt smádót í veskinu sínu. Hins vegar, erum við ítrekað minnt á, er hún ekki kynlaus, og kyn hennar er dregið markvisst fram til að slá völdin úr höndum hennar. Hún er til dæmis með stór brjóst, og bitur vegna þess. Erkióvinur hennar, McMurphy, reynir stöðugt að koma henni úr hinu dýrmæta jafnvægi, meðal annars með því að afhjúpa hana sem konu. Hann snertir hana á óvelkomnum stöðum og gerir athugasemdir við líkama hennar. Í lokauppgjörinu þeirra á milli rífur hann utan af henni hjúkrunarkonubúninginn fyrir framan alla deildina og berar á henni brjóstin í myndrænni senu áður en hann reynir að kyrkja hana.

Aðferðir Ratched hjúkrunarkonu til að stjórna mönnunum á deildinni felast í að gera þá kvenlega eða barnalega – hún geldir þá, í stuttu máli sagt. Í upphafi sögunnar eru mennirnir eymdin uppmáluð, þeir eru bleyður sem þora ekki að standa með sjálfum sér, hvað þá hver öðrum. Í aumkunarverðri sjálfsbjargarviðleitni klaga þeir hver annan og svíkja (eins og konur hafa jafnan verið taldar gera). Þessi vægast sagt ömurlega staða er í bókinni rækilega tengd skorti þeirra á karlmennsku. Það er ekki bara Ratched hjúkrunarkona sem er hið geldandi afl heldur einnig mæður þeirra og eiginkonur. Hinum stamandi Billy Bibbit tekst næstum því að losna undan áhrifum hjúkrunarkonunnar með því að missa sveindóminn (með konu sem fær að vera sympatísk persóna af því að hún hefur ekkert annað vald en það kynferðislega), en henni tekst að snúa hann aftur niður með því að hóta því að segja hinni allsráðandi móður hans frá hegðun hans. Sögumaðurinn Chief Bromden brotnaði niður andlega eftir að hafa horft upp á stolta indíánahöfðingjann föður sinn niðurlægðan, ekki síst af hvítri eiginkonu sinni. Það er tekið fram oftar en einu sinni að indíánahöfðinginn hafi tekið eftirnafn konu sinnar við giftinguna en ekki öfugt – augljóslega hin algjöra niðurlæging karlmannsins. Þannig verður sagan af því hvernig McMurphy hjálpar mönnunum á deildinni að finna í sér hugrekkið, sjálfstraustið og lífsgleðina – sem er að öðru leyti hjartnæm – jafnframt sagan af endurreisn karlmennskunnar frammi fyrir kúgandi valdi konunnar. Mennirnir öðlast sjálfsvirðingu og finna hið týnda karlmannlega bræðralag sín á milli.

Þetta kom mér alveg í opna skjöldu. Ég sá myndina fyrir mörgum árum en annað hvort hefur þetta verið dempað í henni eða farið framhjá mér unglingnum. Í Wikipediu-færslunni um bókina er ekki minnst á afstöðu hennar til kvenna, en tekið fram að hún sé meðal annars gagnrýni á „the emasculation of men in society”, eins og það sé eðlileg og óhlutdræg fullyrðing. Ég fann ágæta grein hér um tengsl kynferðis og geðsjúkdóma í bókinni, en greinarhöfundurinn bendir meðal annars á að í tilfelli sumra vistmannanna á deildinni er sjúkleg undirgefni við mæðraveldið eini andlegi krankleikinn sem lýst er í frásögninni. Þegar mennirnir eru farnir að bera höfuðið hátt í lok bókarinnar hafa þeir ekki bara varpað af sér óttanum við valdamiklar konur í lífi sínu heldur eru margir þeirra hreinlega „læknaðir“ í leiðinni og útskrifast af spítalanum í kjölfarið.

Ég fann reyndar líka dæmi um það að bókin hafi verið lesin sem gagnrýni á stöðu kvenna í samfélaginu. Þá er Ratched hjúkrunarkona ekki valdasjúkur fulltrúi kerfisins heldur fórnarlamb þess rétt eins og vistmennirnir, kona sem beitir örvæntingarfullum aðferðum til að halda virðingarstöðu sinni í fjandsamlegu, karllægu samfélagi. Það þarf ekki að gúgla lengi til að komast að því að þessi túlkun er fjarri því að vera ríkjandi, en hún er kannski möguleg upp að einhverju marki. Óhjákvæmilega hefur hún í för með sér vangaveltur um hlutdrægni sögumannsins Chief Bromden. Hann á augljóslega við einhvers konar ofskynjanir að stríða, sem koma öðru hvoru fram í frásögn hans, en þrátt fyrir það datt mér aldrei í hug að draga hans skynjun á umhverfinu í efa. Það ber sennilega vitni um færni höfundarins að ofskynjanir Chief Bromden staðfesta heilindi hans sem sögumanns frekar en að draga úr þeim. Þegar hann lýsir samsæriskenndum hugmyndum sínum um samfélagið fyrir utan geðdeildina er maður fullkomlega tilbúinn til að kaupa þær, maður lagar þær bara að sínum eigin hugsunarhætti: „já, hér er hann að nota tungutak hins ofsóknarbrjálaða til að lýsa hinu ósýnilega valdi sem við finnum öll fyrir...“ og svo framvegis. Andlegt ástand Chief Bromden þarf reyndar heldur ekki að vera aðalatriðið í þessu; hann dáist einfaldlega mjög að McMurphy og getur verið að of- eða rangtúlka sumar gjörðir Ratched hjúkrunarkonu.

Þótt ég gæti alveg eins trúað því að þessi túlkun á bókinni væri eintóm óskhyggja tel ég bókinni það samt til tekna að það sé hægt að flækja hana á þennan hátt. Ég er mjög forvitin að heyra frá fleiri lesendum ef þeir vilja deila sínu sjónarhorni.

Engin ummæli: