Sýnir færslur með efnisorðinu One flew over the cuckoo´s nest. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu One flew over the cuckoo´s nest. Sýna allar færslur

2. febrúar 2012

Stofnunin og mæðraveldið

Undanfarið hef ég verið að lesa á kyndlinum tvær skáldsögur sem hafa verið lengi á leslistanum og eiga ýmislegt sameiginlegt. Þær eru báðar af þeirri tegund sem lendir gjarnan á listum yfir hundrað bestu bækur 20. aldarinnar, þær eru báðar frá 1962, þær fjalla báðar um samskipti einstaklingsins við yfirvaldið og það hafa verið gerðar frægar kvikmyndir eftir þeim báðum; A Clockwork Orange eftir Anthony Burgess og One Flew Over the Cuckoo´s Nest eftir Ken Kesey (myndarlega manninn með pípuna hér til vinstri).

Ég hafði gaman af A Clockwork Orange, sérstaklega rússneskuskotna nadsat-slangrinu sem talað er í þessari dystópísku veröld og setur mark sitt á frásögnina, en plottið greip mig ekki sem slíkt og mér fannst endirinn ósannfærandi (rétt eins og bandarísku útgefendum Burgess, sem og Stanley Kubrick, sem slepptu síðasta kaflanum). Ég man reyndar ekki eftir neinni bók þar sem mér hefur þótt uppljómun syndara í blálokin sannfærandi, sem er það sem á sér stað í A Clockwork Orange. (Eitthvað svipað gerist í Les Liasions Dangereuses, sem Guðrún Elsa skrifaði um fyrr í vikunni, og af líkum ástæðum fór endirinn á Glæp og refsingu rosalega í taugarnar á mér á sínum tíma.) Gaukshreiðrið er hins vegar mun dramatískari bók og olli mér á endanum mun meiri óþægindum en ofbeldið og djöfulgangurinn í Burgess.

Söguþráðurinn hljómar sennilega kunnuglega fyrir marga. Gaukshreiðrið gerist á deild á geðsjúkrahúsi þar sem valdasjúka hjúkrunarkonan Ratched ræður ríkjum. Hún stjórnar mönnunum á deildinni með járnhendi í flauelshanska, etur þeim saman, niðurlægir þá og og kúgar með útsmognum sálfræðihernaði. Sögumaðurinn er Chief Bromden, hálfur indíáni og tröll að vexti, sem þykist vera mállaus og heyrnarlaus en fylgist náið með því sem á sér stað. Einn daginn kemur nýr vistmaður á deildina, hinn rauðhærði og tattúveraði McMurphy, sem hefur tekist að svindla sér út úr fangelsi þar sem hann sat inni fyrir kynferðisglæp og inn á geðsjúkrahús í staðinn. McMurphy er hress, blátt áfram og blygðunarlaus töffari, semsagt allt sem hinir vistmennirnir eru ekki. Koma hans hleypir lífinu á deildinni í uppnám og endar á að frelsa mennina undan yfirráðum Ratched hjúkrunarkonu og eigin veikleikum.