24. febrúar 2012

Af yfirburðum hins góða: Tvær bækur eftir Iris Murdoch

Breski rithöfundurinn og heimspekingurinn Iris Murdoch lifði megnið af 20. öldinni, frá 1919 til '99. Eftir hana liggja fjölmargar bækur, bæði skáldsögur og heimspekirit. Ég las nokkrar af skáldsögunum í menntaskóla og varð hrifin af þeim, þótt ég einhverra hluta vegna bæri mig ekki eftir fleirum af verkum hennar þá. Ég minntist á Murdoch í færslu hér á blogginu fyrir nokkrum vikum þegar ég var nýbyrjuð á heimspekiritgerðasafninu The Sovereignty of Good, sem upphaflega kom út 1970, og hef í millitíðinni lokið við hana auk sjöttu skáldsögu Murdoch, An Unofficial Rose (1962).

The Sovereignty of Good er nett bók, 101 síða í kilju og inniheldur þrjár ritgerðir: „The Idea of Perfection“, „On ‘God’ and ‘Good’“ og „The Sovereignty of Good Over Other Concepts“. Í káputexta er henni lýst sem „one of the very few modern books on philosophy which people outside academic philosophy find really helpful“. Murdoch á það einmitt til að ræða meðvitað um heimspekiiðkun á þá leið að varpar ljósi á hana á ofureinfaldan hátt, án þess þó að einfalda hana um of ‒ samanber t.d. eftirfarandi tilvitnun: „Philosophers merely do explicitly and systematically and often with art what the ordinary person does by instinct.“  (s. 91)


Í ritgerðunum þremur ræðir Murdoch ýmis grundvallarhugtök sem hafa verið mannshuganum töm allt frá fornöld, en eru jafnframt af því taginu að geta færst undan skilgreiningu og leitað skjóls í myndhverfingum þegar athygli okkar beinist að þeim; í stað þess að átta okkur á því hvað raunverulega felist í umræddu hugtaki ‒ hvað það raunverulega er, þá eigum við oft auðveldara með að tjá hvað það sé eins og. Með orðum Murdoch, „we are creatures who use irreplaceable metaphors in many of our most important activities“. (s. 91) Þetta getur til dæmis átt við um fyrirbæri á borð við dyggð, ást og hið góða. Hér er semsagt tekist á við skilning okkar á slíkum hugtökum og fyrirbærunum að baki þeim, og tengsl þeirra í reynd við mannlega tilveru. Þótt um þrjár sjálfstæðar ritgerðir sé að ræða hentar vel að lesa þær hverja af annarri og þær mynda raunar ágætis heild ‒ pælingar seinni ritgerðanna kallast á við hinar fyrri og hafa undir lok þeirrar þriðju þrætt sig að nokkurs konar niðurstöðu um gildi auðmýktar í samhengi hins góða: þar sem hinn auðmjúki sé laus undan oki sjálfsins sé hann fær um að sjá hlutina í skýrara ljósi. Þótt hann sé ekki endilega samnefnari hins góða manns, þá sé hann kannski þess konar maður sem eigi hvað mesta möguleika á að verða góður: „The good man is humble; he is very unlike the big neo-Kantian Lucifer. He is much more like Kierkegaard's tax collector.“ (s. 100-101) Á síðustu blaðsíðunum er ástin einnig nefnd til sögunnar sem það fyrirbæri sem geti komist hvað næst því (sem auðvitað sé þó ómögulegt, þegar allt komi til alls) að vera samnefnari hins góða: „Of course Good is sovereign over Love, as it is sovereign over other concepts, because Love can name something bad. But is there not something about the conception of a refined love which is practically identical with goodness? Will not ‘Act lovingly’ translate as ‘Act perfectly’, whereas ‘Act rationally’ will not?“ (s. 99)

Ég velti því aðeins fyrir mér hvernig mætti þýða orðin sovereign og sovereignty í þessu sambandi. Skilgreiningar orðabókarinnar ganga allar að einhverju leyti út á vald; einræðis-, alræðis- eða óskorað ‒ stundum finnst mér það allt að því ókostur á tungumáli að vera eins merkingargegnsætt og íslenskan. Mér fannst allavega ekki passa að tala um alræðisvald hins góða, en datt svo í hug að orðsifjar sovereign eru náttúrlega hinar sömu og í súper ‒ einhverskonar yfirburðir. Svo ég ætla að kalla þetta yfirburði hins góða ‒ mér finnst það fallegra og jafnvel á einhvern hátt auðmjúkara (af því það virkar passívara og ómeðvitaðra) en einhverskonar vald.

Af An Unofficial Rose er það að segja að hún er fjölskyldusaga og rekur fjölmörg ástar(og annars konar)sambönd fjölskyldumeðlimanna, sem sum eru á frumstigi en önnur í dauðateygjum. Titill bókarinnar er fenginn úr ljóðlínu eftir Rupert Brooke sem birt er á titilblaðinu: ‘Unkempt about those hedges blows / An English unofficial rose’, enda fjallar sagan, auk ástarinnar, töluvert um það að vera ensk/ur, eða að minnsta kosti einhvern tiltekinn kima þess. Fjölskyldan sem segir frá er af yfirstétt, býr á herragarði í Kent en dvelur einnig eftir hentugleikum í London eða jafnvel á Indlandi og víðar, passlega samkvæm sjálfri sér í því að líta á eigin forréttindastöðu sem hvert annað náttúrulögmál. Tveir fjölskyldumeðlima stunda rósarækt á landareigninni og „rósin“ hefur svo auðvitað aðrar og skáldlegri skírskotanir í textanum. Líklega má kalla rósina hið últimat blóm, og þannig hið últimat tákn um einhverskonar náttúrulega, ómeðvitaða og óeftirlíkjanlega fegurð ‒ svar náttúrunnar við tilraunum mannsins til fegrunar og listsköpunar. Málverk eftir endurreisnarmálarann Tintoretto og allt að því tilbeiðslukennd aðdáun aðalpersónanna á því verður einnig miðlægt í frásögninni og öðlast að lokum möguleika á að hafa úrslitaþýðingu fyrir örlög sumra þeirra. Hagsmunir þeirra rekast þó svo harkalega á að svo virðist sem hamingja eins verði óhjákvæmilega vonleysi annars.

Þótt ég ætli ekki að fara út í neinar djúpar greiningar á persónum bókarinnar þá er athyglisvert að skoða þær með hliðsjón af ívitnuðum skrifum höfundarins um gæsku, auðmýkt og ást ‒ gæskan og auðmýktin virðast greinilega haldast í hendur, þótt þær nái ekki alltaf að eiga samleið með ástinni. Rósin og málverkið mynda andstæðu þess fábrotna og oft vanmetna, sem jafnframt er þó óendanlega vandað og margbreytilegt, við hið sláandi glæsilega og mikilsmetna, sem þó verður alltaf tilbúið; eftirlíking, og því forgengilegt. Ef maður er í skapi til að vitna í Platón (sem Murdoch gerir einmitt töluvert af í fyrrnefndum ritgerðum) mætti segja að rósin sé frummynd fegurðar, en Tintoretto-málverkið eftirlíking hennar eða skuggi ‒ þó ljóst sé að mennirnir geta metið eigin eftirlíkingar alveg jafn mikils eða meira en hinar auðmýkri og „óopinberari“ frummyndir.

Að öllu þessu sögðu mæli ég afar innilega með Iris Murdoch og ætla sjálf að bera mig eftir fleirum af bókunum hennar. Svo er líka áhugavert að síðan Murdoch lést hafa komið út þónokkrar bækur um hana; persónu hennar, höfundarverk eða hvorttveggja í bland og þar af þrjár eftir eiginmanninn eftirlifandi, John Bayley. (Reyndar fannst mér allt að því örlítið krípí að sjá að samkvæmt wíkípedíu komu tvær þeirra bóka, Iris and Her Friends: A Memoir of Memory and Desire og Elegy for Iris út árið sem hún dó (hún dó í febrúar) og sú þriðja, Iris: A Memoir of Iris Murdoch, kom út ÁRIÐ ÁÐUR.) Góða lestrarhelgi!

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst bækurnar eftir John Bayley fínar. Iris var búin að vera með elliglöp í einhver ár áður en hún dó og á meðan hefur kallgreyið örugglega verið að skrifa um hana eins og hún var áður en hún ruglaðist.
Þórdís.

Nafnlaus sagði...

Oh, hvað það er gaman að koma heim og lesa fullt af druslubókafærslum! Ég hef bara lesið eina Iris Murdoch, sem ég einmitt las í MH og fannst dálítið torskilin á þeim tíma (17 ára) en samt góð. Ég þarf klárlega að halda áfram með hana.

Salka

Erna Erlingsdóttir sagði...

Iris Murdoch er ein af þeim höfundum sem ég hef svo lengi ætlað að lesa eitthvað eftir. Ég ætti kannski að fara að gera mér lestrarlista. Verst að hann yrði sennilega yfirþyrmandi langur.

Maríanna Clara sagði...

Ég hef einmitt bara lesið The Sea, the Sea (fyrir lööööngu síðan) og fannst hún mjög góð en dapurleg...maður þarf að lesa fleiri!

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Já, það er af nógu að taka! og mig langar að tékka á minningabókunum líka.