15. febrúar 2012

Mein Kampf 2012

Ættum við að endurútgefa gamlar bækur sem innihalda hatursáróður í garð einstakra þjóða eða þjóðfélagshópa? Er vel til fundið að gefa þær út sem heimildir og einhvernskonar minnisvarða um liðna tíð sem vonandi gengur ekki aftur? Eða gætu þær mögulega orðið innblástur fyrir frekari hatur og illvirki og ættum við þess vegna að banna þær með lögum? Ættum við að hlífa fórnarlömbum ofsóknanna við minningunum?

Þetta eru allt góðar og gildar spurningar og eins og Kristín Svava bendir á í nýrri færslu þá stóðu Íslendingar frammi fyrir þeim þegar stóð til að endurútgefa þýðingu á Tíu litlum negrastrákum með myndskreytingum eftir Mugg. Ég var sjálf þeirrar skoðunar að bókin ætti ekkert erindi. Mér fannst hún meiðandi og vísurnar óhugnarlegar og ég er enn þeirrar skoðunar. Við það vil ég bæta að mér finnst vægast sagt undarlegt að a.m.k. tveir (1, 2) íslenskir leikskólar hafi þessar vísur í sínum söngbókum. Það er í svo hróplegu ósamræmi við allt sem leikskólar eiga að standa fyrir og kenna börnunum okkar - að bera virðingu fyrir öðrum, rækta ástina og friðinn svo ég taki nú bara handahófskennd dæmi. Ég verð stundum þreytt á ákveðnum öfgum í því sem kallast "pólitískt rétthugsun" hér í Bandaríkjunum en það veit Guð að ef 2 ára syni mínum væri kennt að syngja þessar vísur á leikskólanum sínum hvar svo sem í heiminum hann væri staðsettur, þá myndi fjúka verulega í mig og ég myndi grípa til aðgerða. En að öðru skyldu máli.

Nú nýlega bárust fréttir af því í fjölmiðlum að til stæði að endurútgefa Mein Kampf - einskonar manifesto Hitlers með sjálfsævisögulegu ívafi sem hann skrifaði meðan hann sat í fangelsi fyrir aðild að misheppnaðri valdaránstilraun árið 1923. Bókin er ekki bönnuð Í Þýskalandi en hefur verið ófáanleg síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk. Auðvelt hefur þó verið að nálgast hana á þýsku á bókasöfnum, kaupa hana á öðrum tungumálum eða hlaða textanum niður af internetinu.

Útgefandi tímaritsins Zeitungszeugen tilkynnti í byrjun janúar að hann hyggðist birta valda kafla úr Mein Kampf í fylgiriti með tímaritinu ásamt skýringum. Útgefandinn vildi með þessu varpa ljósi á hugmyndir Hitlers og hvetja almenning til þess að kynna sér þær betur og skilja þannig betur hvernig Þjóðverjar leiddust út í hörmungar síðari heimsstyrjaldar. Þessar fyrirætlarnir vöktu hörð viðbrögð í Þýskalandi. Margir sögðu að þeir sem lifðu helförina af ættu að geta farið um almannarými - drukkið kaffi í bókaverslunum og farið á markaðinn án þess að þurfa að óttast að rekast á Hitler. Aðir óttuðust að útgáfan gæti orðið frekara vatn á myllu nýnasistahreyfinga og mörgum var tíðrætt um hversu ósmekklegt það væri að selja tímarit og græða á minningunni um helförina. En það voru ekki allir Þjóðverjar andsnúnir útgáfunni og einhverjum fannst tími til kominn að þjóðin horfðist með þessum hætti í augu við sögu sína og útgáfa að bókinni ætti að vera til á þýsku eins og öðrum tungumálum. Hún hefði jafnvel verið gefin út á hebresku í Ísrael og hversvegna ekki í Þýskalandi?

Bæjaraland á útgáfuréttinn að Mein Kamp og öðrum nasískum literature þar til árið 2015 er liðið, en þá eru 70 ár frá dauða Hitlers. Þessi sami útgefandi Zeitungszeugen, Peter McGee, birti fyrir nokkrum árum brot úr dagblöðum nasista í tímaritinu og var fyrir það stefnt af ríkisstjórninni í Bæjaralandi. Dómstóll í München komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að enginn vafi léki á því að útgáfa nasísks áróðurs bryti í bága við lög þá væri McGee ekki sekur því tilgangur hans hefði ekki verið sá að dreifa hatri heldur hefði hann einungis ætlað sér að uppfræða almenning. Í ljósi þessa er ólíklegt að hægt verði að sækja hann til saka fyrir að birta valda kafla úr Mein Kampf en engu að síður hefur fyrirætlununum verið frestað vegna hótana um frekari málsóknir. Það verður áhugavert að fylgjast með framhaldi þessa máls og ekki síður hvað úr verður þegar rétturinn að bókinni rennur út árið 2015. Þær raddir hafa heyrst frá sagnfræðingum að hefjast ætti strax handa við vandaða og gagnrýna útgáfu verksins sem geti komið út fljótlega og áður en nýnasistar ná að koma höndum yfir það og gefa út sína útgáfu.

Engin ummæli: