14. febrúar 2012

„Kynmögnuð kona sem ann manni sínum fróar honum af kostgæfni“

Einhvern tímann á síðasta ári áskotnaðist mér bókin Sjafnaryndi: Unaður ástalífsins skýrður í máli og myndum. Bók þessi kom út á Íslandi 1978 og er þýðing á The Joy of Sex sem kom út í Bretlandi 1972 og var ritstýrt af doktor Alex Comfort. Ég hafði lítið skoðað þessa bók, rétt svo gripið niður hér og þar og flissað yfir myndunum og undarlegri málnotkun, en fór að skoða hana betur í gærkvöldi. Í tilefni af degi elskenda hlýtur að vera við hæfi að birta umfjöllun um hana.


Tilgangur bókarinnar er að gefa fólki ráð um „unaðssemdir ástalífsins“ sem hlýtur auðvitað að vera hið besta mál. Lögð er áhersla á að ekkert sé syndsamlegt við að njóta kynlífs og að báðir aðilar eigi að mæta þörfum og löngunum hvor annars. Sem sagt get ég ekki annað en verið ánægð með tilgang bókarinnar. Eins og margir hafa sjálfsagt heyrt varð The Joy of Sex umdeild, ekki síst vegna hinna ýmsu trúarhópa sem töldu ástæðu til að fordæma svona dónagang. Ég tek að sjálfsögðu ekki undir fordæmingar á því að skrifað sé hispurslaust um kynlíf en hins vegar er ýmislegt í útfærslunni í þessari tilteknu bók sem mér finnst stuðandi. Mig grunar þó að þau atriði hafi ekki endilega verið þau sem fóru fyrir brjóstið á hinum fordæmandi siðapostulum.

Eftir inngangskaflann „Unaðssemdir ástalífsins“ tekur við kaflinn „Ástabrögð“ sem samanstendur af 32 blaðsíðum af teiknuðum litmyndum af pari (gagnkynhneigðu) við ýmiss konar hvílubrögð og bókina alla prýða svo svarthvítar teikningar af sama pari og ein og ein austurlensk samfaramynd. Þótt myndirnar séu að mörgu leyti bara fallegar og skemmtilegar þá er eitthvað „off“ við margar þeirra. Konan er þá mjög fjarræn á svipinn og horfir framhjá karlinum, svona eins og hún sé að hugsa um einhvern annan eða eitthvað annað en það sem þarna fer fram, eða eitthvað hikandi við þetta allt saman. Karlinn er frekar svona þrútinn um augun (kannski útgrátinn vegna þess hvað konan sýnir honum lítinn áhuga?). Hér má annars kynna sér sögu þessara mynda. Hverri mynd í þessum kafla fylgir stuttur texti úr einhverjum af öðrum köflum bókarinnar sem oft inniheldur hinn prýðilegasta boðskap, eins og „raunar gilda aðeins tvær „reglur“ um gott kynlíf: 1) Gerðu ekkert sem þú í raun nýtur ekki. 2) Þú skalt komast að því hverjar þarfir ástvinar þíns eru og settu ekki hömlur á þær ef þú kemst hjá því“ eða „Unaður kynlífsins felst ekki hvað síst í því að þar ríkja engar reglur – svo fremi þið njótið ástabragðanna – og valkostirnir eru nánast óþrjótandi“. Í mörgum tilfellum eru þessir myndatextar þó oft helgaðir einhverjum meintum mun á konum og körlum, og þá alhæfingum um hvort kyn fyrir sig. Þetta er dálítið skrýtið í ljósi þess sem sagt er frá í upphafi bókar, að hún sé fyrst og fremst byggð á reynslu einna hjóna sem ekki láta nafns síns getið. Sem sagt er þarna ýmislegt alhæft um kynferðisleg viðbrögð og langanir kvenna, eða viðbrögð og langanir karla, að því er virðist aðallega út frá reynslu einnar konu og eins karls. Við fáum til dæmis eftirfarandi fróðleiksmola: „Konur sem hafa raunverulega lært að njóta kynmaka eru yfirleitt hugfangnar af getnaðarlim samfaranauts síns“, „Kynræn viðbrögð karla eru mun snarpari og sjálfvirkari en kvenna og auðvelt er að vekja kynhvöt þeirra með hlutlægum áreitum“ og „Konur eru líklega kynferðislega ólíkari innbyrðis en karlmenn“.

Orðanotkun í þessari íslensku þýðingu er oft afar sérstök og stundum er maður í vafa um hvort þýðanda eða höfundi sé um að kenna þegar óskiljanlegir frasar birtast. Sem dæmi um nýstárleg orð má nefna „frjóvgunarvarnir“, „atlotanautur“, „framflatarstellingar“ (til glöggvunar má nefna að það munu vera þær samfarastellingar þar sem báðir aðilar snúa að hvor öðrum) og „bakraufarmök“ (hér eftir ætla ég alltaf að kalla leggangaopið gotrauf). Uppáhaldssetningarbrotið mitt úr bókinni er í augnablikinu þetta:  „kona sem kann þá list að leika við lim er næstum alltaf kjörinn rekkjunautur“ (bls. 126).

Í bókinni er hér og þar vísað til ýmissa hvílubragða sem vændiskonur af hinum og þessum þjóðernum hafi verið þekktar fyrir. Það er kannski einkennandi fyrir þá ofuráherslu á nautn karlmannsins sem eftir allt saman er í þessari bók. Jú, vissulega er talað um hvað karlinn þurfi að gera fyrir konuna og að báðir aðilar þurfi að vera vakandi fyrir þörfum hins. Samt sem áður er meira fjallað um hitt og þetta sniðugt sem konan geti gert fyrir karlinn og vændiskvennavísanirnar eru hluti af þeim hugsunarhætti að það sé bara sjálfsagt mál að hinar ýmsu konur helgi líf sitt því að veita körlum nautn. Í stuttum kafla um vændi kristallast þessi hugmyndafræði: „Hver kona sem er reiðubúin að njóta kynlífsins og skilja það, fús til að koma til móts við þarfir samfarafélaga síns í eins ríkum mæli og launuð ástkona en með ást og umhyggju, er mun fýsilegri rekkjunautur en vændiskona. Hún getur lært af þjóðum sem litu á vændishús sem ástarmusteri og það sem við köllum melluaðferðir ættum við að nefna blíðubrögð. Kona sem getur elskað mann og jafnframt elskað hann þarf ekki að óttast samkeppni vændiskvenna“ (bls. 249). Þar höfum við það: Ef karl leitar til vændiskonu er það vegna þess að konan hans hefur ekki sinnt honum nógu vel, allt henni að kenna að sjálfsögðu. Þessi boðskapur heldur áfram: „Leiti maður þinn til gleðikonu er það annaðhvort vegna þess að hann var fjarri þér, átti sér kynferðislegar þarfir sem þú vissir ekki um eða sökum ábyrgðarleysis- eða samkenndar sem fylgir því að njóta allragagns (löngun til að finna til slíkrar kenndar getur verið mjög sterk hjá ástríkustu mönnum) eða vegna stundarlöngunar sem hann skilur ekki. Reyndu að komast að því hvað býr að baki, jafnvel þótt hann hafi sært þig mikið, því það gæti orðið þér til mikils gagns kæmistu að hinu sanna“ (bls. 249). Ég veit ekki hvað ég get sagt um þetta og lýsi bara yfir orðleysi mínu. En blogglesendum til frekari skýringar þá er sem sagt talað um það annars staðar í bókinni (í kaflanum „Kviðmágar“) að karlmenn hafi einhvers konar hómóerótískar hvatir sem þeir fái stundum útrás fyrir með því að sofa hjá konum sem eru „allragagn“; þeir finni til samkenndar með öðrum körlum og fái þannig einhvers konar samkynhneigðarhvötum fullnægt með því að sofa hjá konum sem þeir viti til að hafi sofið hjá mörgum öðrum körlum. Hvaðan höfundur hefur þessa nýstárlegu sálfræðiskýringu er ekki tekið fram.

Afstaða til nauðgana í bókinni er með ógeðfelldara móti. Í hinum örstutta kafla sem er sérstaklega um nauðganir eru nauðganir vissulega fordæmdar, í það minnsta þær sem flokkast sem „raunverulegar“: „Elskendur setja oft nauðgunarleiki á svið til að magna ástríður sínar en raunveruleg nauðgun er skelfilegt fyrirbæri“ (bls. 249). Gott og vel. Svo kemur einhver furðuleg klisja sem ég hef satt að segja allmiklar efasemdir um að eigi við nokkur rök að styðjast: „Það virðist ekki geðslegt en er vel þess virði að vita það að kona getur hindrað nauðgun með því að láta frá sér saur. Það nægir til þess að flestir nauðgarar leggi árar í bát og láti konuna alveg í friði“. En lykilatriðið sem við konurnar þurfum auðvitað alltaf að hafa í huga er þetta: „Gættu þess að espa ekki kynhvöt manns, sem þú þekkir lítið, ef þú ætlar þér ekki að eiga mök við hann“. Kona sem lendir í nauðgun getur þá væntanlega sjálfri sér um kennt að hafa espað kynhvöt nauðgarans. Miðað við það sem stendur annars staðar í bókinni getur hins vegar reynst flókið að forðast það að espa kynhvöt karlmanns. Í kaflanum um karlmenn stendur meðal annars: „Kynræn viðbrögð karla eru mun snarpari og sjálfvirkari en kvenna og auðvelt að vekja kynhvöt þeirra með hlutum líkt og peningi sé stungið í sjálfsala“ (bls. 73). Líklega borgar sig að vita hvaða hlutir þetta eru svo maður sé ekki óvart að veifa þeim framan í mennina. Einnig stendur ritað:

„Menn ráða því ekki hvað vekur fýsn þeirra. Annaðhvort vekur eitthvað losta þeirra eður ei. Vitirðu hvað það er geturðu veitt uppáhaldsfiskinn þinn í hverju kasti. Þyki honum sítt hár eggjandi geturðu safnað því. Þú gætir meira að segja reynt að grenna þig eða litað hárið ljóst til að ganga frekar í augun á honum. Þú ræður ekki útliti þínu þótt þú getir haft áhrif á það en getirðu satt sérstaka löngun manns megnar ekkert að stöðva þig. Hlutur þinn er að láta hann finna að þú skynjir óskir hans og verðir við þeim. Segðu honum frá því ef eitthvað sérstakt tendrar fýsnaloga þinn og notfærðu þér það“ (bls. 58).

Skilaboðin til kvenna eru því þau að þær eigi að leggja sig fram um að gera sig þóknanlegar þeim mönnum sem þær vilja festa sér, hvort sem er með hárgreiðslu eða megrunartilburðum, klæðaburði eða hvílubragðakunnáttu (fleiri dæmi í þessum anda má finna víðar í bókinni). Ef þær standa sig ekki í þessu mega þær búast við því að mennirnir leiti til vændiskvenna til að fá (réttmætum) fýsnum sínum svalað. Hins vegar þurfa þær að reyna að gera sig eins óaðlaðandi og mögulegt er gagnvart þeim mönnum sem þær kæra sig ekki um að sofa hjá því annars má búast við að þeir stökkvi bara á þær og nauðgi þeim.

Í raun væri hægt að skrifa heila bók bara um þessa bók og margt er um hana að segja sem ég impra ekki á hér. Eins og ég sagði í byrjun þá finnst mér tilgangur hennar góður, að veita fólki (eða nánar tiltekið gagnkynhneigðum pörum; hún er sérstaklega sett fram fyrir þann markhóp og sjálfsagt lítið á henni að græða fyrir samkynhneigða) alls konar kynlífstengdar ráðleggingar og ég er hæstánægð með það fordómaleysi gagnvart alls konar afbrigðum sem þarna ríkir. Hins vegar finnst mér sorglegt að í bók þar sem ætlunin er að ganga út frá að kynferðisleg nautn sé jafnmikilvæg fólki af báðum kynjum skuli samt vera alið á því að konur þurfi fyrst og fremst að þjóna körlum og tryggja nautn þeirra og að bók sem hefur það að stefnu að undirstrika fjölbreytileika fólks skuli vera svona full af alhæfingum um fólk út frá kyni þess. Það væri fróðlegt að vita hvort þetta hefur verið í fullu samræmi við tíðarandann 1972. Mig grunar nefnilega að svo sé og að höfundurinn hafi ekki með nokkru móti áttað sig á að hann væri eitthvað annað en afskaplega frjálslyndur og framúrstefnulegur.

Í ljósi samfélagsumræðu um skapahárarakstur þykir mér svo ómótstæðilegt að láta þennan fróðleik fylgja:
Rakið það af ef þið viljið. Við gerum það ekki en sumt fólk gerir það. Ef þið rakið það af er óhjákvæmilegt að það kitli ykkur og stingi þegar það vex aftur. Sumir sem aðhyllast algjöra nekt kjósa af þeim sökum að vera án þess eða hafa mætur á hárlausum og hörðum munaðarhóli. Flestum finnst þó skapahár skart og yndisauki. Prófaðu að bursta það varlega og lærðu að gæla við það. Þú getur greitt það, snúið því, haldið og jafnvel togað í það. Með því að halda í skapahár konu er unnt að hreyfa allan munaðarhólinn og með hagvirkum [sic!] handtökum má magna fýsnir hennar allt til fullnægingar (bls. 89).

8 ummæli:

Beta sagði...

Bráðskemmtilegur pistill, takk! Þessa bók las ég sem unglingur, tja, eða skoðaði myndirnar allavega vandlega:)

Elías sagði...

Ég verð að játa að ég skil ekki neitt þegar hann segir "eða sökum ábyrgðarleysis- eða samkenndar sem fylgir því að njóta allragagns".

Getur einhver uppfrætt mig?

Elías sagði...

Hvernig er þetta annars á frummálinu?

Elías sagði...

OK, ég sé nú að ég var of fljótur að kommenta.

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Já, þetta snýst sem sagt um þessar hugmyndir höfundar um að karlar finni til samkenndar með öðrum körlum og fái útrás fyrir hómóerótískar hvatir með því að sænga hjá konum sem hafi komið víða við. Ég væri líka alveg til í að sjá þetta á frummálinu, leitaði talsvert á netinu en fann ekki og kom því ekki í verk að athuga hvort ég fyndi þetta á ensku á bókasafni hérlendis. Annars eru hugmyndir höfundarins um vændiskonur líka stórfurðulegar og erfitt að skilja þær:

"Yfirleitt beita vændiskonur ekki lostaríkum rekkjubrögðum né njóta þeirra. Þetta gildir ekki um öll menningarsvæði en vestanhafs er algengast að konur selji blíðu sína sökum þess að þær hafa megnustu andstyggð á körlum. Aðdráttarafl þeirra á karlmenn, að svo miklu leyti sem því er til að dreifa má að hluta til rekja til goðsagna og svo til vandlætingarlauss skilnings þeirra á kynlegum kynþörfum karla. Menn geta notið þeirra án þess að eiga yfir höfði sér ámæli vegna velsæmisbrota og styrkt samkennd sína með því að eiga hlutdeild í konu með öðrum mönnum. Ef við Bandaríkjamenn virtum vændiskonur á svipaðan hátt og aðrar þjóðir -- sem konur sem snúa baki við heimilum sínum til að helga sig listinni að elska -- þá yrðu vændiskonur okkar hæfari í sinni grein og menn hættu að bendla vændi við afbrigðilega hegðun til hagsbóta fyrir gleðikonur og hrellda viðskiptavini þeirra" bls. 248-249.

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Rétt er að benda á að þetta með "vestanhafs" og "við Bandaríkjamenn" hlýtur að vera klúður í íslensku þýðingunni því það er jú Breti sem skrifar bókina.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Kannski hefur bókin verið þýdd eftir amerískri útgáfu.

Elías sagði...

Dr. Comfort bjó í Ameríku stóran hluta starfsferils síns.