Sýnir færslur með efnisorðinu kynin. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kynin. Sýna allar færslur

12. desember 2013

Karlar lesa ekki kerlingar

Mál málanna á Facebook undanfarna daga hefur verið að telja upp tíu bækur sem hafa haft áhrif á líf viðkomandi. Ég hef séð lista frá ýmsum vinum mínum og líka vinum þeirra. Eitt helsta einkenni þessara lista kemur svo sem ekki á óvart: karlar lesa helst ekki bækur eftir konur, alla vega ekki þannig að þeir telji bækur þeirra hafa haft áhrif á sig. Nú veit ég að það er ekki alltaf að marka yfirsýn sem verður til við að renna yfir hlutina, þannig er hægt að upplifa kynjaslagsíðu án þess að hún sé til staðar rétt eins og mögulegt er að einhverjir taki ekki eftir slagsíðu sem er til staðar. Ég ákvað því að safna saman upplýsingum í snyrtilegt Excelskjal og greina tölurnar. Ég tíndi til 20 konur og 20 karla, sem ýmist eru vinir mínir á Facebook eða vinir vina minna, og kyngreindi listana þeirra. Val mitt var svo sem ekki hávísindalegt, þetta var það sem ég fann á veggjum vina minna eða vina þeirra og ég hætti þegar ég var komin með 20 af hvoru kyni.

Alls voru tilnefningar 417 (nokkrir nefndu aðeins fleiri en tíu bækur og örfáir færri). Ég tala um tilnefningar því margir nefndu auðvitað sömu bækurnar. Tilnefningar eftir karlkyns höfunda voru 309, eða 74%, og eftir kvenkyns höfunda 108, eða 26%. Hjá körlum voru tilnefningar 192 eftir karla og 21 eftir konur, þ.e. 90% og 10%. Hjá konum voru tilnefningar 117 og 86, eða 58% og 42%.

Tíu af körlunum tuttugu nefndu enga bók eftir konu. Tveir nefndu fimm af hvoru kyni. Gaman er að segja frá því að þessir tveir voru báðir með mér í BA-námi í heimspeki fyrir nokkuð löngu og þeir eru báðir að norðan. Þeir átta karlar sem eftir standa nefna ýmist eina eða tvær bækur eftir konur. Bækur norrænu barnabókahöfundanna Astrid Lindgren og Tove Jansson eru greinilega körlum hugstæðastar af bókum eftir konur þar sem um er að ræða bækur eftir þær í ellefu tilfellum af tuttugu og einu. Þessi blinda á bókmenntir kvenna kemur svo sem ekki á óvart. Ég man eftir strákum sem voru með mér í menntaskóla sem töldu sig vel lesna og sem tóku það sérstaklega fram að þeir læsu aldrei bækur eftir konur.

Engin af konunum nefndi aðeins bækur eftir karla en ein nefndi eingöngu bækur eftir konur. Þrjár í viðbót nefndu fleiri bækur eftir konur en karla og sex kvennanna skiptu tilnefningum jafnt milli kynja. Hinar tíu konurnar nefndu allar fleiri bækur eftir karla en konur. Konan sem nefndi aðeins bækur eftir konur fékk eftirfarandi athugasemd við listann (frá karlmanni): „Bara konur - sama og flestar aðrar konur hér á FB“. Einmitt, þvílík ósvífni að nefna bara bækur eftir konur!

Meðal karlanna sem nefndu engar eða sárafáar bækur eftir konur eru þjóðþekktir rithöfundar, menn í störfum við bókaútgáfu og bókaumfjöllun og menn sem eru yfirlýstir femínistar eða stuðningsmenn kvennabaráttu. Mér finnst það ekki í lagi. Vissulega eru svona listar ekki settir fram af einhverri stórkostlegri alvöru en ég fellst samt ekki á að það skipti ekki máli hvernig þeir eru samansettir. Það skiptir máli hverju maður hampar sem merkilegu og mikilvægu, jafnvel þótt það sé hluti af leik. Val okkar á hinum ýmsu hlutum hefur áhrif á aðra í kringum okkur, það hvernig þeir upplifa heiminn og það smitar út frá sér. Þetta gildir ekki síst ef viðkomandi er stöðu sinnar vegna talinn meira marktækur en meðaljóninn um viðkomandi efni.




28. september 2012

Fer vel í einni hendi: Bókaspjall um Fantasíur

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um hina umdeildu kvennafantasíubók í ritstjórn Hildar Sverrisdóttur, Fantasíur, en við Kristín Svava og Guðrún Elsa stóðumst auðvitað ekki mátið og hittumst yfir Fanta eftir lesturinn.

KST: Útgáfa bókarinnar var gerð heyrinkunnug einhvern tímann í vor og það komu strax fram ýmsar gagnrýnisraddir á hugmyndina. Meðal annars lýstu margir yfir áhyggjum sínum af því að það sé engin leið að vita hvort þessar fantasíur voru sendar inn af konum eða körlum, en ég efast svona frekar um það sjálf að karlmenn úti í bæ hafi beðið í röðum eftir tækifæri til að skekkja mynd fólks af fantasíuheimi kvenna. Ég efast ekki um að það megi sjá áhrif karllægs sjónarhorns í bókinni en ég held að þau hljóti að vera lúmskari en þetta.

Formáli bókarinnar er stuttur, rétt um hálf blaðsíða, en Hildur tileinkar bókina kynfrelsi kvenna og virðist þannig tengja útgáfu hennar femínískum hugsjónum. Í ljósi fyrrnefndra gagnrýnisradda er kannski eðlilegt að það sé ákveðinn varnartónn í formálanum, en að mínu mati hefði verið hægt að gera hann mun betur úr garði og bókin hefði grætt á því að hann væri ítarlegri, ræddi til dæmis nánar forsendur verkefnisins. Hildur segist til að mynda styðjast við „almenn viðmið og rannsóknir um kynferðislegan hugarheim kvenna“ en útskýrir það ekkert frekar. Hvaða viðmið og rannsóknir eru þetta?

Eins og Halla Sverrisdóttir fjallaði um í nýlegri grein á Knúz.is voru skrifaðar bækur af sama meiði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum fyrir þrjátíu árum síðan, og þá í tengslum við aðra bylgju femínismans sem lagði gjarnan mikla áherslu á opinskáa umræðu um langanir og kynhvöt kvenna í samfélagi þar sem slíkt var mikið tabú. Bækur frumkvöðulsins Nancy Friday lögðu áherslu á að setja kynlífsfantasíur kvenna í persónulegt og pólitískt samhengi og dýpkuðu þannig umræðuna, ekki ósvipað og Jóhanna Sveinsdóttir gerði í bók sinni um Íslenska elskhuga sem við fjölluðum um hér í sumar. Af hverju kemur þessi bók ekki út á Íslandi fyrr en árið 2012 – er þetta sambærilegt framtak? Er þessi fantasíubók frelsandi á Íslandi í dag á sama hátt og hún var það á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum fyrir þrjátíu árum síðan? Ítarlegri svör við svona spurningum hefðu gert bókina mun áhugaverðari sem vitnisburð um hugsanir og viðhorf kvenna á Íslandi í dag.

11. september 2012

Með draugaverki í kynjagleraugunum

Draugaverkir er önnur sakamálasaga Norðmannsins Thomas Enger (en fjallað var um frumraunina Skindauða hér á síðunni fyrir rétt um ári síðan) og önnur bókin um rannsóknarblaðamanninn Henning Juul. Hún er sjálfstætt framhald fyrri bókarinnar; þótt hvor um sig hverfist um eitt tiltekið sakamál hefur stærra plott einnig verið í þróun frá upphafi, sem felur í sér mikla tilfinningahagsmuni fyrir Juul og virðist hvergi nærri lokið með þessari annarri bók – það er semsé greinilegt að fleiri bækur eru væntanlegar.

Mér fannst plottið í Draugaverkjum betra en í Skindauða. Það er meira spennandi og eins fékk ég einhvernveginn meira út úr úrlausninni, sem var dáldið antíklæmax í fyrri bókinni (þótt þessi sé nú ekkert á Agöthu Christie kalíberi heldur). Eins og í fyrri bókinni rennur textinn ágætlega niður og missir aldrei dampinn (þótt sumir kunni að hnjóta um ýmsar innsláttarvillur og þvíumlíkt, líkt og í fyrri bókinni). Juul sjálfur er andhetju-hress sem fyrr; þjakaður af martröðum og greinilega með áfallastreituröskun eftir að hafa mistekist að bjarga syni sínum úr bruna og skaðbrunnið sjálfur, hann er langþreyttur á alkóhólíseraðri móður sinni, ekki kominn yfir eiginkonuna fyrrverandi (sem er farin að deita kollega hans), og svo framvegis – alveg einstaklega mannlegur. Hann er líka viðkunnanlegur karakter, að því nú ógleymdu að hann er klárari að góma glæpóna en lögreglulið Oslóarborgar eins og það leggur sig.

27. júní 2012

Prinsessan sem átti 200 bækur

Á dögunum fæddist ný prinsessa hér í Svíþjóð, hennar konunglega hátign prinsessan Estelle Silvia Ewa Mary. Þegar Estelle litla var skírð nú í lok maí færði ríkisstjórnin henni að gjöf sérsmíðaðan bókaskáp með 200 barnabókum. Ekki var annað að sjá en vandað hefði verið til verksins. Skápurinn var hannaður með form hins sögufræga leikkofa í garðinum við Haga höll í huga og hann prýðir gyllt stjarna sem væntanlega vísar í nafn prinsessunnar. Bækurnar 200 voru valdar af kostgæfni, meðal annars af fulltrúa frá Svenska barnboksinstitutet. Skilyrðin voru þau að bækurnar væru allar fáanlegar í búðum í mars 2012 og væru þannig þverskurður af barnabókmenntum þess tíma fremur en safn kanónubókmennta. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að bækurnar í skápnum, líkt og sænsk barnabókaútgáfa almennt, endurspegli jöfn réttindi allra óháð kyni, aldri, trú og kynþætti. Þetta hljómar óneitanlega vel.

Nokkrum dögum eftir skírnina birti Dagens Nyheter hins vegar grein sem gefur aðra mynd af bókaskápnum góða. Greinin er skrifuð af þeim Marie Tomicic og Karin Salmson sem eru stofnendur forlagsins Olika förlag. Samkvæmt þeim eru bækurnar 200 ansi langt frá því að endurspegla samfélagið og fjölbreytileika þess. Samkvæmt útreikningum þeirra fer lítið fyrir minnihlutahópum á borð við innflytjendur, samkynhneigða, fatlaða eða Sama í bókaskápnum og þær spyrja hvers vegna ekki þyki vert að miðla myndum og frásögnum af þeim til ríkisarfans. Þær benda jafnframt á að söguhetjur bókanna séu í 40% tilvika strákar en aðeins 22% séu stelpur svo því fari fjarri að þær endurspegli jöfn réttindi kynjanna. Það að kynjahlutföll aðalpersóna séu jöfn í sænskum barnabókmenntum er reyndar mýta samkvæmt aðstandendum Olika förlag. Staðreyndin er víst sú að í myndskreyttum bókum fyrir yngri börn eru hlutföllin um það bil 58% strákar á móti 34% stelpum. Í unglingabókmenntum snúast hlutföllin við og þar eru 60% stelpur á móti 33% strákum. Þetta, benda þær á, megi ekki túlka sem leiðréttingu á kynjahlutfallinu heldur endurspegli aðeins þá staðreynd að þegar komið er upp í eldri aldurshópa lesi færri strákar bækur. Hátt hlutfall kvenpersóna sé því bara byggt á þeirri hugmynd að stelpur hafi ekki áhuga á að lesa bækur um stráka.

14. febrúar 2012

„Kynmögnuð kona sem ann manni sínum fróar honum af kostgæfni“

Einhvern tímann á síðasta ári áskotnaðist mér bókin Sjafnaryndi: Unaður ástalífsins skýrður í máli og myndum. Bók þessi kom út á Íslandi 1978 og er þýðing á The Joy of Sex sem kom út í Bretlandi 1972 og var ritstýrt af doktor Alex Comfort. Ég hafði lítið skoðað þessa bók, rétt svo gripið niður hér og þar og flissað yfir myndunum og undarlegri málnotkun, en fór að skoða hana betur í gærkvöldi. Í tilefni af degi elskenda hlýtur að vera við hæfi að birta umfjöllun um hana.

26. janúar 2012

Fantagóðar fantasíur

Ursula K. Le Guin          
© Marian Wood Kolisch
Þegar ég var barn var ég fastagestur á Borgarbókasafninu. Nokkrum sinnum í mánuði rogaðist ég heim með úttroðinn bókapoka og renndi mér þannig gegnum megnið af barnadeildinni. Sumar bækur hélt ég meira upp á en aðrar og fékk þær lánaðar aftur og aftur. Sú sem ég fékk einna oftast lánaða á aldrinum 10-12 ára hét Galdramaðurinn, íslensk þýðing á A Wizard from Earthsea eftir Ursulu K. Le Guin. Þessa bók gat ég lesið óendanlega oft, jafnvel þótt ég nötraði af hræðslu yfir lýsingunum á afleiðingum þess svartagaldurs sem söguhetjunni hafði orðið á að fremja, enda var ég með eindæmum myrkfælin sem barn og langt fram á fullorðinsár. Bókin er um strák, og síðar ungan mann, sem er göldróttur, kemst í læri hjá galdrameisturum og slysast í ofmetnaði til að leysa úr læðingi öfl sem hann fyrst um sinn ræður ekki við en þarf á endanum að sigrast á. Leiðin til þess er jafnframt braut þroska. Það eru auðvitað til ýmsar fantasíubókmenntir um göldrótta krakka en Le Guin skapar þarna veröld sem er eitthvað svo, tja, raunveruleg og sögupersónurnar eru eitthvað svo mannlegar. Heimurinn sem um ræðir er eyjaklasi og fólkið glímir við náttúruöflin og þarf að kljást við alls konar hversdagslega hluti meðfram galdrakúnstunum.

21. janúar 2012

Hjálp, staðalmyndir kynjanna! Hjálp!

Til allrar hamingju eru innlend sem erlendfyrirtæki dugleg við að minna börn
á það að kynferði þeirra sé mikilvægasta breytan í lífinu
Lesefni á biðstofum lækna er af æði misjöfnum toga. Hver kannast ekki við að blaða í örvæntingarfullum leiðindum í gegnum Gigtarfréttir, Stangveiði á Norðurlandi eða Ársrit áhugafólks um þvagfærasýkingar? Stundum slæðast samt einhverjar bækur með, og í barnahorninu er oft hægt að finna bækur eða jafnvel Andrésblöð. Í síðustu viku fór ég með 4 ára bróðurdóttur minni til augnlæknis og þar lentum við í eins og hálfs tíma bið, sem hefði getað orðið hroðalegt en gekk bara nokkuð vel þar sem a) þriggja mánaða systirin svaf allan tímann og b) bróðurdóttir mín er ótrúlega skemmtileg, þolinmóð og jákvæð telpa. Jú, og c) það voru nokkrar barnabækur á staðnum. Við lásum einhverja fremur undarlega bók um dreng sem fer í flugferð (sennilega sjálfsútgefna), bók um kisu sem týnir mömmu sinni en finnur hamingjuna með kisuprinsi (litla frænka, í áfalli: "Hún gleymdi bara mömmu sinni!") og svo kom ég auga á bókina Hjálp, Keikó! Hjálp! eftir Þorgrím Þráinsson sem virtist ákjósanleg til lestrar. Við frænkur lásum því þessa stuttu sögu á meðan beðið var eftir augnlækninum fjarstadda.

16. desember 2011

Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna ...

Á síðum bókaforlaganna eru bækur gjarna flokkaðar til hægðarauka, t.d. í nýjar bækur, hljóðbækur, kennslubækur, barnabækur, spennubækur o.s.frv. Það vakti athygli ritkvenda þessarar síðu að á vef bókaforlagsins Sölku má finna flokkana fyrir hana og fyrir hann. Meðal bóka sem bent er á fyrir hann eru tvær bækur um veiði eftir Bubba, uppeldishandbók, sjálfshjálparbók, ævisaga, matreiðslubækur um grillmat og villibráð og ein matreiðslubók sérstaklega skrifuð handa karlmönnum. Það er líka bók sem nefnist Vísindin að baki ríkidæmi, bækur um listamenn og ögrandi ljósmyndabók. Allar þessar bækur eru skrifaðar af karlmönnum.

Meðal bókanna sem flokkaðar eru fyrir hana eru sama uppeldishandbók, ævisaga og sjálfshjálparbók og ætlaðar eru körlunum, en þar eru líka bækur um handavinnu, Borða, biðja, elska eftir Elizabeth Gilbert, bók um förðun og spennusaga eftir Anne Holt. Samkvæmt þessu virðist ekki sérstaklega gert ráð fyrir því að konur hafi áhuga á Vesturförum Vilhelms Mobergs, veiði, leiðinni til ríkidæmis eða bókum um listamenn, og karlar eru tæplega taldir líklegir til að hafa áhuga á Húsráðakveri frú Kitschfríðar eða bókum eftir konur almennt.

Hvað finnst lesendum um þetta? Er það einhvers konar forræðishyggja þegar starfsfólk fyrirtækis tekur að sér að segja fólki hvaða bókum það eigi að hafa áhuga á út frá kyni?

8. ágúst 2011

Dúkkur í hakkavélinni


Ég rakst á bókina Living Dolls: The Return of Sexism eftir blaðakonuna Natöshu Walter á flugvelli í Stokkhólmi í vor. Líklegast var það kápan sem vakti athygli mína, hana prýðir nakið og fótósjoppað miðbik kvenlíkama, það eina sem skýlir nektinni er glaðhlakkaleg og bleikklædd barbídúkka sem hvílir í skautinu. Þetta er að vissu leyti dálítið bókstafleg túlkun á innihaldi bókarinnar, fremur klúðursleg framsetning einhvern veginn en nægði hins vegar til að ná athygli minni.

Natasha Walker heldur því fram í þessari bók að greina megi afturför í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á undanförnum árum og að hennar mati kemur tvennt til. Annars vegar bendir hún á að að bæði konur og ungar, jafnvel barnungar stúlkur séu í auknum mæli skilgreindar sem kynlífsviðföng, sem sé í sjálfu sér ekkert nýtt en hinsvegar sé nú reynt að selja bæði konum og körlum þessa hugmynd á forsendum frelsis. Hinsvegar bendir hún á holskeflu rannsókna á undanförnum árum sem hafa það markmið að sýna fram á eðlisbundinn kynjamun. Bókinni er skipt í tvo hluta, í fyrri hlutanum sem nefnist “The New Sexism” fer hún um víðan völl, hún fjallar um innreið bleiku markaðsbylgjunnar í stúlknaleikfangabransanum, súlustaðasprenginguna, upphafningu á vændi, klámaðgengi barna og unglinga og þau áhrif sem það hefur á kynlíf og sambönd, lýtaaðgerðirnar og þar fram eftir götunum. Hún talar við súludansara, vændiskonur, klámfíkla, allskonar fólk og tengir þetta svo einhvern veginn allt saman.

Í seinni hlutanum veltir hún svo fyrir sér rannsóknum sem eiga að staðfesta kynjamun og einnig rannsóknum sem gera það ekki, en eins og hún kemst að raun um eru þær í miklum meiri hluta. Walker skoðar markvisst hinar ýmsu mýtur og staðalímyndir, hún skoðar rannsóknir sem gerðar hafa verið á hegðun ungbarna, rannsóknir sem eiga að sýna fram á mun á byggingu heila eftir kyni, rannsóknir á meintum mun á stærðfræðigetu, meintum mun á tjáningarhæfileikum og –vilja, meintum áhrifum kynhormóna, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta er afar athyglisverð bók, blátt áfram og gífuryrðalaus, hér er bara verið að segja frá hlutunum eins og þeir koma fyrir frá sjónarhóli höfundarins sem hefur rannsakað þessu mál í þaula. Sérstaklega var ég hrifin af seinni hlutanum, Walker fer í gegn um allar þessar rannsóknir lið fyrir lið og niðurstaðan er sú að þrátt fyrir hundruðir rannsókna sem eiga að sýna fram á eðlisbundinn kynjamun hefur engan veginn tekist að sýna fram á raunverulegan eðlismun. Þeim fáu rannsóknum sem virðast sýna slíkam mun er hinsvegar hampað með ókrítískum hætti í fyrirsögnum dagblaða, hin endanlega niðurstaða er svo oft litteratúr sem gengur út á það að karlar séu frá mars og kunni ekki að tjá sig en konur frá Venus og kunni þarf af leiðandi ekki að bakka í stæði.

Walker tekur mýmörg dæmi um rannsóknir í bókinni sem staðfesta að kynbundin hegðun sé fyrst og fremst áunnin, háð uppeldi, félagsmótun og umhverfi. Hér verður aðeins tekið eitt dæmi, af rannsókn þar sem skoða átti áhrif testósteróns karlmenn, kenningin er sumsé sú að testósterónið ýti undir árásargirni, keppnisskap og þar fram eftir götunum....þessa huggulegu hæfileika sem maður þarf til að vinna í banka í dag. Í hópnum sem rannsakaður var voru bæði karlar og konur sem áttu að sýna færni sína í sérdeilis ofbeldisfullum tölvuleik. Hópnum var skipt í tvennt, öðrum hópnum var sagt að fylgst yrði með þeim meðan þau væru í leiknum, hinum hópnum var sagt að ekki yrði fylgst með gangi mála. Í hópnum þar sem þáttakendur héldu að fylgst væri með sér voru karlar mun aggressívari en konurnar, sýndu almennt meiri fruntaskap og gerðu hvað sem er til að ná takmarki sínu. Í hinum hópnum greindist hinsvegar enginn munur á milli kynja. Niðurstaðan er semsagt sú að konur eru penar og settlegar þegar þær halda að fylgst sé með þeim, haga sér eftir einhverri ímynd kvenleikans sem þeim hefur verið innrætt.

Þessi bók staðfestir það sem blasir við okkur á hverjum degi:

Konur sem vinna í kynlífsbransanum eru eðli málsins samkvæmt ekki frjálsar, það er öllum í þessum bransa skítsama um þeirra vilja, þeirra kynhvöt, þeirra langanir. Þetta fjallar ekki um það.

Ef litlum stelpum er innprentað frá fæðingu að “allar stelpur vilji vera prinsessur”, þá mun það hafa áhrif á möguleika þeirra og sjálfsmat.

Ef konur fá þau skilaboð að þær verði að hafa ákveðið útlit til að teljast gjaldgengar í kynlífi (já, við erum að tala um bleika barbílúkkið sem er markaðssett fyrir smástelpur frá fæðingu) mun það ekki hafa voða góð áhrif á kynlíf og ástarleiki. Það elur á óánægju og skorttilfinningu þegar maður reynir að passa í mót sem hæfir manni ekki, þetta vita allir sem hafa einhvern tímann reynt að þóknast öðrum og hugmyndum þeirra um lífið.

Ef konum er sagt nógu oft að þær tali of mikið og geti ekki lært stærðfræði er hætta á að þær fari að trúa því. Jafnvel þó að rannsóknir sýni að þetta eru einfaldlega mýtur, einfaldlega bull og vitleysa.

Ef karlmönnum er sagt nógu oft að tilfinningar þeirra til eigin barna séu ekki jafn “náttúrulegar” og tilfinningar móðurinnar fara þeir kannski að trúa því og haga sér samkvæmt því.

Og svo framvegis.

30. nóvember 2010

Dagur kvenna sem hata karla.

Ég vil byrja á því að taka það fram að mér finnst Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir og Megas mjög töff og skemmtilegt fólk (nú verður þetta örugglega notað sem kvót til að auglýsa bókina).

Nú ætla ég að bókablogga aðeins um Dag kvennanna - ástarsögu, átján ára nóvellu sem var að koma út í fyrsta sinn núna, „eftir að kynjastríðið [hefur komið] konum á toppinn“, eins og segir á kápu bókarinnar. Atburðarás bókarinnar á sér stað á Kvennafrídeginum 24. október 1975. Clint Eastwood look alike-ið Dagur „Himinrjóður“ og næturdrottningin Máney eru aðalsögupersónur, auk þeirra tuttugu þúsund kvenmanna sem „skjóta rótum“ á Lækjartorgi svo miðbærinn verður gegnsýrður af karlfjandsamlegri nærveru þeirra. Kvenréttindakerlingarnar ógna kynverund og kyngervi blíðra kvenna og vaskra karla. Limir karlmanna lyppast niður og hanga ónýtir (ef þeir hverfa þá ekki bara) og fallegar konur þurfa að gæta sín – hinir illu feministar vilja í afbrýðisemi sinni setja þær í afkynjandi föt og svipta þær skarti og ástmönnum. Dagur kvennanna er öskubuskusaga – nema í þessari sögu á Öskubuska ekki tvær afbrýðisamar stjúpsystur, heldur tuttugu þúsund. Kvenréttindabaráttu og greddu/fegurð/(öllu sem mér finnst skemmtilegt) er ítrekað stillt upp sem andstæðum í fyrsta kafla bókarinnar. Það breytist ekki, maður þarf að sætta sig við það. Ég var ekki einu sinni að lesa á milli línanna – ég las það sem stendur í bókinni. Svo leitaði ég í örvæntingu á milli línanna að einhverju sem gæfi til kynna að um kaldhæðni væri að ræða, en ég fann ekkert. Semsagt, ef maður vill halda áfram að lesa þessa stuttu bók eftir fyrsta kaflann, þarf maður að anda djúpt og taka því að kvenréttindabaráttukonurnar eru ljótar, herptar, afbrýðisamar, kynkaldar og valdagráðugar leiðindaskjóður. Það kemur því í rauninni ekkert á óvart að að gefið sé í skyn á kápu bókarinnar að jafnréttisbaráttunni sé lokið og að hún hafi ekki snúist um að ná raunverulegu jafnrétti, heldur um að koma „konum á toppinn“.

Ég varð hrifnari af bókinni eftir því sem leið á frásögnina og hún varð kynlífsmiðaðri (hey, ég er ekki gerð úr steini) og mér fannst mjög gaman að njóta óhefðbundinnar ástarsögu Himinrjóðs og Máneyjar. Stuttur kafli sem lýsir misheppnuðum mökum erkigrybbunnar (forystufeministans) og fórnarlambs hennar er líka svo dónalegur og fyndinn að maður þarf eiginlega að lesa hann upphátt fyrir alla vini sína. Það er mikill húmor í bókinni; rúnkari leitar hælis á Kleppi sem erótískur flóttamaður. Feministarnir á Hótel Borg stofna kvennatímaritið Láttu mig vera (væntanlega vísun í blaðið Vera: tímarit um konur og kvenfrelsi). Það er enginn tepruskapur í frásögninni og er það mér mjög að skapi. Ég skil samt ekki hvers vegna bókin kom ekki bara út fyrir átján árum – hugmyndirnar í henni hafa allavega ekkert orðið ferskari eða beittari síðan þá. Í dag er þetta eiginlega bara frekar banalt. Persónur bókarinnar eru stereótýpur sem birtast í sífellu í (mogga)bloggum misgáfaðra landsmanna og öllum umræðum um feminisma. Við höfum Himinrjóð, sem skilur ekki af hverju konurnar á torginu ásaka hann fyrir það eitt að vera karlmaður: „ásökuðu HANN fyrir eðli kynjanna. Ásökuðu HANN fyrir árþúsunda hefð, í lognu umboði, ásökuðu HANN fyrir það sem náttúran hefur krafist að karlar og konur gerðu til að uppfylla jörðina mönnum og halda tilraun hennar gangandi.“ Máney skilur ekki af hverju hún má ekki bara vera falleg og kvenleg. Og feministarnir eru bitrar kellingar sem enginn elskar, sem neita að samþykkja eðli kynjanna og eru afkynjandi, geldandi afl.

Þetta er í rauninni mjög áhugavert samansafn af stereótýpum sem við þyrftum að setjast niður að ræða yfir nokkrum bjórum. Svo getum við athugað hverjar okkar eru með lengstu handarkikahárin.



Guðrún Elsa

23. ágúst 2010

Síðasta pulsan á grillinu – bókablogg um Makalaus

makalausSkvísubókin Makalaus eftir Tobbu Marinós fjallar um Lilju Sigurðardóttur og ástarmál hennar. Lilja er 25 ára og vinnur í almannatengslum og markaðsmálum hjá fyrirtækinu Tækn. Hún er „nú alveg makalaus“ (hress og skemmtileg) og bókstaflega makalaus ung kona sem dreymir um að finna hinn fullkomna mann og hamingjuna.

Bókin er samtímasaga úr Reykjavík, málfar bókarinnar er rosalega „2010“ og höfundi tekst, eftir því sem ég fæ best séð, vel að skrifa hugsanir og samtöl ungs fólks í dag. (Vinkona Lilju segir t.d. „Jú, það er næs. Og sæll, kynlífið...“ (131)). Það er svona eftir-hruns-stemming (minnst er nokkrum sinnum á kreppu), en þegar Lilja þarf að markaðssetja nýja símann Zeitung 2000, sem á að taka við af Blackberry, sést hve lítið hefur breyst. Hún heldur símatískusýningu sem gæti verið beint upp úr bók eftir Steinar Braga, nema hér á hún ekki að vera óhugnarleg:

„Flottar fyrirsætur í húðlituðum þröngum samfestingum munu ganga fram sýningarpall. Þær stoppa við endann á pallinum og taka myndir með símanum, svara símtali og svo framvegis til að sýna virkni símans. Það sem sést á skjánum hjá þeim birtist líka á tjaldi fyrir aftan þær.“ (84)

Sýningin vekur mikla aðdáun, síminn selst grimmt og Lilju tekst að heilla einn ríkasta mann Íslands (einn af þeim sem komst vel frá hruninu) með ferskum hugmyndum sínum.

Fleira gerir bókina að samtímasögu, hver kafli hefst til dæmis á facebook-status, með tilheyrandi kommentum og lækum. Þetta minnir á bókina Flottastur@facebook sem fjallað hefur verið um á þessari síðu, en það vill svo skemmtilega til að Hákon Karl, aðalpersóna F@f, skýtur upp kollinum í örskamma stund í Makalaus. (Eru að verða til einhvers konar facebookbækur þar sem persónurnar þekkjast innbyrðis?!) En það er ekki bara facebook og hrunið sem skjóta upp kollinum í bók Tobbu, heldur líka gosið í Eyjafjallajökli. Lilja verður ástfangin og ber tilfinningar sínar saman við gosið:

„Mig langar allt í einu upp að gosinu. Standa á Eyjafjallajökli og stara. Á mörkum brjálaðs kulda og hita. Þannig líður mér. Það veit enginn hvað gosið mun standa lengi yfir. Fólk spáir og spekulerar.
Ég veit heldur ekki hvað gosið í mér stendur lengi.“ (264)

Lilja er vinamörg, falleg og skemmtileg, en henni finnst eitthvað vanta í líf sitt. Rétta manninn. Þetta er ekki einhver óþægileg tilfinning sem gerir vart við sig að öðru hvoru, eða hugsun sem skýtur stundum upp kollinum, heldur fer nokkurn veginn öll hennar orka í að hugsa um karlmenn á einn eða annan hátt. Hún veltir mikið fyrir sér stefnumótamenningu í Reykjavík og rifjar upp gömul stefnumót og veltir fyrir sér þeim nýjustu. Í bókinni eru stefnumót ekki einföld skemmtun, maður fær það reyndar á tilfinninguna að þau séu algjör höfuðverkur. Maður á að passa að líta ekki út fyrir að hafa reynt of mikið. Bíó er bannað þangað til eftir fjórða stefnumót. Ef maður ætlar að sofa hjá er eins gott að vera í samstæðum nærfötum. Og karlmenn eiga ekkert að borga allt, en það er bæði sanngjarnt og herramannslegt að þeir borgi annað hvert skipti. Þetta eru bara nokkrar af „reglunum“. Síðasta reglan sem ég taldi upp, þessi um að karlmenn eigi að borga allt annað hvert skipti, en annars bara helminginn, einkennist af hugarfari sem nokkuð ber á í bókinni. Hugarfari sem ég hélt að væri úrelt. Annað dæmi um þetta hugarfar er þegar Lilja lætur sig dreyma um að giftast ríka manninum sem hún er skotin í og veltir því þá fyrir sér hvort hún myndi hætta að vinna (og verða þá fjárhagslega alveg háð honum).

Annað meginumfjöllunarefni bókarinnar er útlit Lilju. Við fylgjumst með sögupersónu í ellefu vikur (bókin er á dagbókarformi) og í byrjun hverrar viku fáum við að vita hvað hún er þung eða hversu mikið hún hefur lagt af síðan í síðustu viku. Þyngdin er stundum sett í samhengi við hvernig henni líður þá stundina, þ.e. hvort hún er ástfangin eða ekki. Lilja gerir reglulega lista yfir það sem hana vantar í lífinu og (fyrir utan kærasta) eru það bara fegrunarvörur og föt. Hún heldur því fram að oftast sé hún að gera sig til fyrir sjálfa sig:

„Ég er alger hælakona og hugsa mikið um útlitið. Er ekkert heltekin af því en vil líta vel út og þótt margir – sérstaklega karlmenn – misskilji það þá er ég yfirleitt að hafa mig til fyrir sjálfa mig.“ (24)

Ég ætlaði fyrst að skrifa að þessi bók stæðist ekki Bechdel-prófið sem er stundum notað á kvikmyndir (http://bechdeltest.com/). Þá þarf mynd að uppfylla þrjú skilyrði: 1) að það séu tvær eða fleiri konur í myndinni – tékk, 2) að konurnar tali saman - tékk og 3) að þær tali saman um eitthvað annað en karlmenn. Makalaus slapp fyrir horn vegna þess að konurnar tala ekki eingöngu saman um karlmenn, heldur líka útlitið.

Lilja á traustan vinkvennahóp sem hún dýrkar, en vandamálið er að hún er sú eina í hópnum sem er ennþá á lausu. Þegar hún hugsar um sambönd vinkvenna sinna verður hún örvæntingarfull, henni líður eins og hún sé síðasta kótelettan í kjötborðinu sem enginn vill. Eða þá síðasta pulsan á grillinu sem er að verða köld og enginn vill borða. Þetta orðalag er reyndar dæmi um húmor höfundar, sem er svo steiktur og skemmtilegur að hann dregur jafnvel athygli lesanda frá því hversu niðurdrepandi innihald bókarinnar er.

Það er húmorinn í bókinni sem kemur manni í gegnum hana. Lilja heldur því fram að konur komist áfram á vinnustaðnum vegna þess að þær eru klárar, ekki út af útlitinu. Samt hugsar aðalpersóna ekki um neitt annað en karlmenn og útlit. Hún segist vera hætt að telja kíló vegna þess að hún sé ástfangin – en tveimur blaðsíðum seinna er hún komin á viktina í ræktinni og dáist að því að „kílóin hrynji bara af.“ Hún ætlar að hætta að lifa eftir listum (yfir það hvað hana vantar og hvað hún þarf að gera til að verða hamingjusöm/ná í mann), en skrifar samt lokalista til að lifa eftir í bókarlok. Húmorinn sættir mótsagnirnar í textanum og hjálpar okkur að hlæja að dapurlegum heimi, hann losar um spennuna til þess að lesendur geti haldið áfram þessum óþarfa „leik“ sem samskipti kynjanna eru (samkvæmt bókinni). En þökk sé öllu gríni bókarinnar, hef ég líklega aldrei skemmt mér jafn vel við að lesa eitthvað jafn niðurdrepandi.

Guðrún Elsa Bragadóttir

5. desember 2008

Er ég kynóð? - The Housewife's Handbook on Selective Promiscuity

Á randi um kákustíga gegnis.is komust við að því að á Þjóðarbókhlöðunni má finna bók með yfirskriftina: Er ég kynóð? Okkur fannst titillinn forvitnilegur og langaði að vita hvernig kynæði lýsir sér, þannig að við ákváðum að ekki væri annað fært en að við myndum kynna okkur sögu bókarinnar og glugga í verkið. Umrædd bók er geymd á ekki ómerkari stað en í Þjóðdeildinni, þar sem gáfumenni og eigulegir sérvitringar af ýmsum kalíberum sitja lotnir með hnyklaðar brýrnar og það var ekki laust við að hjartað slægi ofurlítið örar en venjulega þegar bókavörðurinn færði okkur þessa litlu og sakleysislegu bók, hún er bundin í brúnt band með leðurkili. Minnir jafnvel á ljóðasafn eins af þjóðskáldunum.

Áður en lengra haldið og vikið að efnistökum höfundar er best að segja forvitnum lesendum aðeins frá þessari bók og merkri sögu hennar. Höfundurinn notaði dulnefnið Rey Antony og hét í raun Lillian Maxine Serett, en var einnig þekkt undir nafninu Maxine Sanini og var fimm barna móðir. Auk þess að skrifa bókina flutti hún fyrirlestra um kynlíf. Þekktust er hún fyrir fyrrnefnda bók sem heitir á íslensku Er ég kynóð? Og kom út hérlendis 1973 en ritið kom út árið 1962 í Bandaríkjunum. Bókin hefur síðan verið kölluð eitt merkara kynlífsrit Bandaríkjamanna, og hún eldist að okkar mati býsna vel.

Þessi sakleysislega bók er einnig þekkt fyrir það að hæstiréttur Bandaríkjanna dæmdi útgefandann, Ralph Ginzburg, sem lést á áttræðisaldri í hittifyrra, til fangelsisvistar fyirir útgáfu þessarar sóðabókar. Hann var sama tíma dæmdur fyrir að gefa út tímaritið Eros með nektarmyndum en einnig birti hann skopmyndir af Bandaríkjaforseta í afkáralegum stellingum svo fátt eitt sé talið. Ginzburg var einn þeirra sem áttaði sig snemma á því að kynlíf selur. Enda vissi hann jafn vel og við að um er að ræða vinsælustu þjóðaríþrótt allra þjóða, þjóðarbrota og minnihlutahópa. Við vörnina hélt Ginzburg því meðal annars fram að hlutverk kvenna í kynlífinu væri víða misskilið og að konur hefðu að sjálfsögðu sama rétt á almennilegu kynlífi og karlar. Þetta þótti siðprúðum Bandaríkjamönnum upp úr 1960 vægast sagt ekkert sniðugt. Bókin var metin alltof dónaleg, sögð algerlega án bókmenntalegs gildis og útgefandinn var sem fyrr segir sendur í fangelsi.

En nú skal vikið að efni bókarinnar Er ég kynóð? eftir Lillian Maxine Serett sem skrifaði undir dulnefninu Rey Anthony. Íslenska þýðingin kom út árið 1973 í bókaflokknum "svörtu bækurnar" sem Skemmtiritaútgáfan gaf út, en hún ku hafa verið á vegum bókaforlagsins Skjaldborgar og einbeitti Skemmtiritaútgáfan sér að bókmenntum sem iðulega hafa verið kenndar við sjoppumenningu. Þýðingin á titlinum er býsna villandi en á frummálinu heitir bókin The Housewife's Handbook on Selective Promiscuity sem mætti kannski snara sem Handbók húsmóðurinnar í sjálfvöldu fjöllyndi, en titlarnir hafa yfir sér léttan sjálfshjálparblæ. Í raun er nokkuð erfitt að flokka þessa bók, hún er skáldsaga en hinsvegar að sögn byggð á ævi höfundarins. Líklegast myndi hún samkvæmt nýjustu skilgreiningum geta talist til skáldævisagna. En hún er líka sjálfshjálparbók að því leyti að hér er verið að leiðbeina konum á kynlífssviðinu og þar er ekki skafið af hlutunum, enda má líta á bókina sem klámrit og það virðast íslensku útgefendurnir hafa gert. Á Íslandi verður þessi bók sjoppurit og hefur yfir sér tígulgosalegt yfirbragð, með svartri glanskápu og káputeikningu af glaðbeittri stúlku í faðmi karlmanns á góðri stund.

Höfundurinn rekur hér ævi sína frá fæðingu til tæplega fertugs og er óhætt að segja að mörg kynlífsfjaran sé sopin á þessu tímabili, en sögukona giftir sig nokkrum sinnum, eignast ófá börn sem erfitt reynist að feðra, gerir ýmsar tilraunir og lendir líka ósjaldan í klandri og fordómum. Stíll bókarinnar er blátt áfram, nánast klínískur, kynfæri og kynferðisathafnir fá til dæmis oftar en ekki að halda sínum latnesku fræðiheitum. Rauði þráður bókarinnar er þó ekki beinlínis þessi kynlífsrannsóknarleiðangur sem slíkur, heldur öllu heldur sjálfsuppgötvanir höfundar og baráttan gegn fordómum samfélagsins. Þegar líða tekur á bókina uppgötvar höfundurinn að kröfur hennar til kynlífs eru líklegast meiri en gengur og gerist meðal kvenna á hennar tíma og mun meiri en fólki finnst við hæfi, en bæði þáverandi eiginmaður hennar og móðir hvetja hana til þess að leita læknis vegna þessa. Vandamál hennar liggur í því að hún vill helst njóta ásta að minnsta kosti tvisvar til þrisvar í viku, en hina eftirsóttu "útrás" fær hún hinsvegar ekki við venjulegar samfarir, til þess þarf hún svokallaða clitoris-ertingu sem maðurinn hennar er ekkert sérlega hrifinn af og sinnir engan veginn sem skyldi. Við bendum á til gamans að orðið “útrás” hefur greinilega haft aðra merkingu á þessum árum og á líklegast lítið skylt við athafnir útrásarhersins sem reikar nú eirðarlaus um heiminn á krepputímum í krumpuðum Bossjakkafötum. Þetta skeytingarleysi eiginmannsins leiðir auðvitað til endalausra ónanerínga og slíkar athafnir tekja sumir hljóta að benda til kynæðis hjá konum og þýðandinn sýnir nokkuð innsæi með því að spyrja hinnar miðlægu spurningar í titli bókarinnar – Er ég kynóð?. Meginvandamálið er sumsé að einungis fáir af hennar fjölmörgu ástmönnum eru færir um að fullnægja henni og hún spyr sig hvort skýringuna megi mögulega finna í hennar eigin kröfuhörku á kynlífssviðinu.

Og höfundurinn veltir ýmsum öðrum málum fyrir sér. Henni finnst til dæmis furðulegt að maðurinn skuli leggja svo mikla áherslu á hvatvísi og náttúrulegheit þegar kemur að kynlífsiðkan, kynlíf finnist fólki að eigi helst að stunda málalengingalaust og án undirbúnings eða hjálpartækja. Höfundurinn er ósammála þessu viðhorfi og segir meðal annars máli sínu til stuðnings:

"Fólk byggir sér hús til að loka kuldann úti, drepur dýr til að skýla sér með skinnum þeirra, framleiðir vélar, sem geta siglt á hafinu eða flogið í loftinu. Í þessum efnum ræðst maðurinn gegn náttúrunni. Hvers vegna á hann þá að halda sig fast við eitthvað náttúrulegt þegar um kynlífsvenjur er að ræða? Mér fannst það liggja í augum uppi, að allt það, sem gæti gert mér kynlífið betra og unaðsríkara, væri eðlilegt og æskilegt."

Þess má geta að þessi röksemdafærsla kemur upp í sambandi við deilur um notkunargildi sleipiefna. En hugmyndirnar hafa þó mun meira gildi og liggja til grundvallar persónulegri heimspeki höfundarins, hún telur það hreina fásinnu að láta eðlishvötina ráða. Að hennar mati er það í raun jafn mikil klisja og það að telja að kynmök í hjónabandi séu óhjákvæmlega óspennandi og bragðdauf. Það á að undirbúa kynmök af skynsamlegu viti og helst nokkra daga fram í tímann sé hægt að koma því við. Þessi nákvæmni og skipulagsárátta í tengslum við ástalífið leiðir síðan til spurningarinnar um kynæði. Er þessi árátta konunnar kannski í hæsta máta óeðlileg? Hún veltir ástinni líka heilmikið fyrir sér og kenningar hennar um hana eru fallegar, en um ástina segir hún meðal annars:

"Við tölum um að vera ástfangin - og ástsjúk. Við heyrum líka sagt: - Ég er skotin í honum, en ég elska hann ekki. Við gerum ástina að einhverju bindandi, og þess vegna finnst manni, sem verður skotinn í stúlku, að hann megi til með að kvænast henni. Annars verður hann fyrir aðkasti, tvær manneskjur mega ekki láta sér þykja vænt hvorri um aðra án þess að lenda í gininu á fjármálamaskínu þjóðfélagsins. Við ættum að ala börn okkar upp til að njóta þeirrar ábyrgðar, sem lífið leggur fullorðnu fólki á herðar, en þess í stað gerum við ábyrgðina svo fráhrindandi, að enginn fær notið hennar. Og svo höfum við allskonar lög og tilskipanir, til að þvinga fólk. Ást er sú umhyggja, sem við sýnum nýfæddu barni, sú umhyggja sem við sýnum móður okkar, sú umhyggja sem við sýnum manninum, sem við sængum hjá. Þessi þrennskonar ást er ein og söm. Við breytum aðeins á mismunandi vegu eftir þrennskonar aðstæðum Við höldum, að ástin sé mismunandi, en svo er ekki. Ástin er missterk, en um annan mun er ekki að ræða"

Það má segja að þessar hugmyndir Rey Anthony séu einnig niðurstaða bókarinnar, og þeirrar sjálfskoðunar sem þar fer fram, og svarið hlýtur því að vera, nei, hún er ekki kynóð. Ástin er að hennar mati lífsskoðun. Við elskum meira eða minna alla sem á vegi okkar verða, svona þannig séð. Ástin verður því aldrei einungis holdleg og eðlistengd en í lokaorðum bókarinnar segir hún:

"Aftur og aftur reyndi ég það, að kynlíf - sem öldum saman hefur verið talið eingöngu holdlegs eðlis - er jafnframt einn af þeim andlegu hápunktum, sem skyni gætt fólk getur náð. Því er óhætt að segja - og það var mér mikil ánægja að sannreyna - að fólkið er skapað í mynd félagslynds guðs"

Þar hafið þið það – hið svokallað kynæði er þegar öllu er á botninn hvolft frekar meinlaus sjúkdómur en hann leggst þó greinilega afar misharkalega á þá sem fyrir honum verða. Og auk þess hafa viðhorf þjóðfélagsins sitthvað að segja um alvarleika sjúkdómsins.

Þórdís og Þorgerður