21. janúar 2012

Hjálp, staðalmyndir kynjanna! Hjálp!

Til allrar hamingju eru innlend sem erlendfyrirtæki dugleg við að minna börn
á það að kynferði þeirra sé mikilvægasta breytan í lífinu
Lesefni á biðstofum lækna er af æði misjöfnum toga. Hver kannast ekki við að blaða í örvæntingarfullum leiðindum í gegnum Gigtarfréttir, Stangveiði á Norðurlandi eða Ársrit áhugafólks um þvagfærasýkingar? Stundum slæðast samt einhverjar bækur með, og í barnahorninu er oft hægt að finna bækur eða jafnvel Andrésblöð. Í síðustu viku fór ég með 4 ára bróðurdóttur minni til augnlæknis og þar lentum við í eins og hálfs tíma bið, sem hefði getað orðið hroðalegt en gekk bara nokkuð vel þar sem a) þriggja mánaða systirin svaf allan tímann og b) bróðurdóttir mín er ótrúlega skemmtileg, þolinmóð og jákvæð telpa. Jú, og c) það voru nokkrar barnabækur á staðnum. Við lásum einhverja fremur undarlega bók um dreng sem fer í flugferð (sennilega sjálfsútgefna), bók um kisu sem týnir mömmu sinni en finnur hamingjuna með kisuprinsi (litla frænka, í áfalli: "Hún gleymdi bara mömmu sinni!") og svo kom ég auga á bókina Hjálp, Keikó! Hjálp! eftir Þorgrím Þráinsson sem virtist ákjósanleg til lestrar. Við frænkur lásum því þessa stuttu sögu á meðan beðið var eftir augnlækninum fjarstadda.


Föðurlandssvikarinn Keikó syndir með norskum börnum
Um bókina í heild er þetta að segja: Hún kom út árið 1998 og í henni eru ágætar myndir eftir Þórarin F. Gylfason, mjög litríkar og koma til skila dramatískum hápunktum sögunnar. Sagan sjálf er dálítið þunn - stelpa í Vestmannaeyjum týnir hvolpi, bróðir hennar hjálpar henni að leita, hann reynist kunna að tala við Keikó, þau finna hvolpinn og sigla út á haf í kajak, hvolpurinn dettur útbyrðis, þau rekur af leið, Keikó bjargar þeim við mikla gleði innfæddra - en svosem ekkert hræðileg. Ekki mikil úrvinnsla á söguþræðinum, dálítil fljótaskrift á þessu öllu saman (var ekki Keikóæðið í hámarki þarna?) og textinn ekki nógu hnitmiðaður miðað við bók af þessum toga, þ.e.a.s. bók fyrir fremur ung börn með myndskreytingum og takmörkuðum texta. En jæja. Það er samt ekki vandamálið. Bókin sleppur alveg sem ágætis afþreying og það eru ákveðnir rispunktar í henni sem vöktu spennu hjá litlu frænku, og hún rennur prýðilega vel áfram. Það sem reitti mig hins vegar til gífurlegrar reiði þarna á augndeild Landspítalans var persónusköpun höfundarins og birtingarmyndir stráka og stelpna í sögunni, svo mjög að mig langaði næstum til að láta bókina "hverfa" bak við ofn eða eitthvað (gerði það samt ekki, ef einhver starfsmaður augndeildar skyldi lesa þetta!).

Eins og fram hefur komið fjallar sagan um systkini sem virðast vera kannski 8-11 ára gömul. Matthildur birtist okkur strax í upphafi sögunnar í tilfinningalegu uppnámi; hún er hágrátandi og dauðskelfd yfir hvarfi hundsins Lubba. Hún kallar á Gylfa bróður sinn til hjálpar og hann reynir að hugga hana og tekur strax stjórnina á ástandinu. Þannig er persónusköpunin beisikklí út alla bókina. Matthildur volar stanslaust, er úrræðalaus, uppburðarlítil og ótrúlega óspennandi. Gylfi er ráðagóður, stýrir framvindunni, heldur verndarhendi yfir systur sinni, leggur sig í háska þótt hann sé hræddur og er, ásamt háhyrningnum heittelskaða, hetja bókarinnar. Dæmi: Þegar Lubbi dettur í sjóinn bjargar Keikó honum með því að taka hann upp í munninn og syndir svo upp að kajak þeirra systkina með opinn kjaftinn. Matthildur þorir ekki að seilast upp í kjaft Keikós til að sækja Lubba, Gylfi þorir því eiginlega ekki heldur en lætur sig hafa það, teygir sig eftir Lubba og bjargar þannig málinu. Þannig er klisjukennd, niðurdrepandi og algjörlega ólíðandi hlutverkaskipting kynjanna undirstrikuð. Stelpan: Veikburða, góðhjörtuð, óvirk og þarf að láta bjarga sér. Strákur: Ber ábyrgð, þorir, bjargar, einstakur.

Bróðir heldur fast um systur svo hún fari
sér ekki að voða
Ég varð svo pirruð þegar ég tók eftir þessu (þegar Matthildur var enn snöktandi á svona fjórðu opnu) að ég fór að sleppa vissum hlutum úr frásögninni, því fegin að litla frænka skuli ekki vera orðin læs. Ég reyndi að draga úr harmagráti Matthildar, svissaði á einum stað samræðum systkinanna og bullaði einhver ósköp í lokin um að þau hefðu komist hetjulega í land og mamma og pabbi bæði tekið á móti þeim (því auðvitað beið bara ein taugaveikluð, dauðskelfd mamma í fjörunni). Mjög hallærislegt, hættulega mikið eins og leiðinlega hippafólkið úr Moder Jord-kommúnunni í Tillsammans, en mér var bara svo misboðið! Ég er komin með algjört ógeð á því að þessi frábæra fjögurra ára frænka mín - sem er bæði klár, kraftmikil, úrræðagóð, þorin, skynsöm, blíð, fróðleiksfús, ákveðin, tillitssöm, lúmsk og fyndin (semsagt allt rófið!) - hafi varla annað fyrir augunum í les- og myndefni en þessa úreltu og ömurlegu hlutverkaskiptingu kynjanna. Þrátt fyrir að fjölskylda og vinir séu á varðbergi gagnvart öllum þessum staðalmyndum og við séum öll í því að styðja hana til að verða sjálfstæð manneskja sem tekur ákvarðanir út frá eigin áhuga og löngunum þá er þessi barátta endalaus. Allt í kringum hana eru sætar og passívar Disneyprinsessur, bleikar legókonur sem vinna við umönnun, volandi og hræddar stúlkukindur (Matthildur hefði getað verið í Enid Blyton-bók frá 1950), hálfberar barbídúkkur, glimmerdagatöl með snyrtivörum og jafnvel kynþokkafullir póníhestar. Og "normið" er alltaf karl/strákur - konur/stelpur eru bara í aðalhlutverki í sérstöku konu-/stelpuefni. Og það er sko ekkert skárra fyrir stráka að vera þvingaðir inn í staðlað kynhlutverk sem t.d. gerir ekki ráð fyrir því að þeir megi vera hræddir, hikandi, rólegir eða passívir.

Hættum að taka þátt í þessu, í alvöru talað. Þá er ég alls ekki að segja að við eigum að hætta að lesa allt sem við erum hugmyndafræðilega ósammála - þá væri nú ýmislegt skemmtilegt/gott sem þyrfti að fjúka og ég er alls ekki hlynnt ritskoðun - heldur að við verðum að ræða um það, við verðum að vera meðvituð um það og hjálpa krökkum að vera meðvitaðir og færir um setja spurningarmerki við viðteknar hugmyndir, og gera kröfu til þess að þeir sem nú eru að skrifa eða búa til annað efni handa börnum og unglingum gangist ekki hugsunarlaust inn á línu sem gerir ekki annað en að ýta undir ríkjandi gildi. Ég veit að þetta er fáránlega beisikk en þessi vísa virðist bara aldrei nógu oft kveðin. Í heimi þar sem litlar stelpur koma heim af leikskólanum og segjast ætla að verða "eitthvað sem stelpur gera" þegar þær verði stórar - þar þarf einhverju að breyta.

2 ummæli:

Védís sagði...

Heyr heyr!

Elías sagði...

Já, þá voru gömlu íslensku ævintýrin betri. Þegar maður les svoleiðis upphátt fyrir börnin fer maður að skilja betur hvað gerir góðan texta góðan; hann rennur áreynslulaust af vörum manns og manni finnst maður sé að japla á hunangi.
Eftirlætissaga yngri dóttur minnar, sem ég las fyrir hana nokkrum sinnum í viku í mörg ár, er þannig saga og er kannski ein af 10 bestu smásögum sem hafa verið færðar í letur á íslenskri tungu. Það er Sagan af Hlini kóngssyni. Það vill einmitt til að lýsing þín á kynhlutverkum í þeirri sögu passar mjög vel við, nema hvað strákurinn er veikburða, góðhjartaður, óvirkur og þarf að láta bjarga sér, en stelpan ber ábyrgð, þorir, bjargar og er einstök.