3. janúar 2012

Dramb og hroki undir hæl feðraveldisins

Ég veit ég er varla sú eina sem hefur allt að því rómantískan áhuga á Reykjavíkurbæ á síðustu áratugum 19. aldar og fyrstu áratugum þeirrar 20. Séð frá upphafi 21. aldarinnar er eitthvað heillandi við lífið í höfuðstaðnum á þessum umbrotatímum, þegar byrjað var að losna um bændasamfélagið og upplausn komin í ýmislegt en bæjalífið var samt ekki orðið þjóðfélagsnormið. Reykjavíkurbær er bæði kunnuglegur og ókunnugur; maður þekkir staðhætti, kannast við nöfn, en nógu margt er framandi til að gera hann spennandi; risavaxin yfirvaraskeggin á körlunum, dönsku áhrifin, vanþróaðar skólplagnir, önnur stéttskipting en í dag.

Ýmsar skemmtilegar bækur hafa verið skrifaðar sem fjalla um þennan tíma (og hér er „þessi tími“ dálítið vítt skilgreindur eins og sjá má af framhaldinu). Þar má til dæmis nefna Horfinn heimur. Árið 1900 í nærmynd eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur, þar sem hún notast við dagblöð frá aldamótaárinu, og ævisöguna góðu Bríet, Héðinn, Valdimar og Laufey eftir Matthías Viðar Sæmundsson (en í hana sótti ég titilinn á fyrstu ljóðabókinni minni og á Matthíasi því mikið að þakka). Bæði eru þau frábærir pennar og kunna að draga upp stemmningsríkar fortíðarmyndir þar sem skemmtilegar sögur og dýpri pælingar um samfélagið eru í góðu jafnvægi.


Þessi áhugi minn fékk óvenju mikið fyrir sinn snúð í jólabókaflóðinu 2011. Angantýr eftir Elínu Thorarensen segir frá ástarsambandi í Reykjavík sem stendur yfir 1915-1916, í Jóni forseta öllum? er fjallað um ímyndarsköpun um Jón Sigurðsson frá árinu 1879 og í jólagjöf fékk ég annað bindi þess sem lítur út fyrir að verði allsvakaleg sería, myndskreytt og fróðleiksskreytt skrá yfir íbúa Reykjavíkur árið 1910, Reykvíkingar. Bergstaðastræti 9-Bráðræðisholt eftir Þorstein Jónsson. Af skiljanlegum ástæðum er ég ekki búin að lesa þá síðastnefndu frá a til ö (eða b til b, réttara sagt) en við fyrstu sýn er þetta blautur draumur allra með snefil af áhuga á reykvískri fortíð og ættfræði – með ótrúlega miklu af fallegum og spennandi ljósmyndum.

Síðast en ekki síst las ég bókina sem er aðalumfjöllunarefni mitt hér, Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og hroka, endurminningar Þórðar Sigtryggssonar skráðar af Elíasi Mar með eftirmála eftir Hjálmar Sveinsson. (Þess má geta að druslubókadaman Erla Elíasdóttir kom að því að undirbúa handritið til útgáfu. Hér er svo blogg Hjálmars um Þórð og bókina.) Bókin kom út korteri fyrir jól hjá bókaútgáfunni Omdúrman, útlitið í sama stíl og bók Hjálmars Sveinssonar um Elías Mar, Nýr penni í nýju lýðveldi, og ljóðasafn Jónasar Svafár sem kom út í fyrra. Virkilega fallegur gripur (þótt það hefði mátt taka einn lokaprófarkayfirlestur), og kápumyndin þessi líka yndislega vísun í uppáhaldsdónasmásagnasafnið mitt frá 9. áratugnum.

Ég var svo heppin að vera beðin um að vera meðal upplesara úr bókinni í útgáfuhófinu og gladdist mjög yfir því. Bæði þykir mér alltaf gaman að lesa upp og skemmtileg tilbreyting að það sé úr annarra manna verkum, og svo hafði ég verið meðal margra sem biðu útgáfunnar með nokkurri óþreyju. Handritið að endurminningum Þórðar hefur verið tilbúið til útgáfu frá því á 8. áratugnum, þegar Elías Mar gekk frá því, en ekki komið fyrir almennings sjónir fyrr en nú. Ég hafði heyrt handritsins getið í einhverju samhengi við áhuga minn á hinsegin sögu og sagnaritun, en Þórður Sigtryggsson var samkynhneigður og fjallar opinskátt um ástir sínar í bókinni (af og til minnti hann mig svolítið á Samuel Steward, hvers ævisögu ég hef skrifað um á þessari síðu, en það er miklu meiri heift í Þórði). Þessi hreinskilni er sennilega ein ástæðan fyrir því að bókin var ekki gefin út fyrr (hreinskilni er kannski rangt orð, Þórður er ekki bara að „gangast við“ samkynhneigð sinni heldur er meðal annars um að ræða mjög blygðunarlausar kynlífsfantasíur þar sem Jesús Kristur og Drottinn almáttugur leika stórt hlutverk) en einnig það sem í rauninni er rætið slúður um nafngreinda einstaklinga. (Það hefur líka verið nefnt að Þórður hafi uppi mikla sleggjudóma um íslenska menntamenn, en það er yfirleitt ekki svo hárbeitt gagnrýni að hún sé trúleg ástæða fyrir því að útgáfan hafi tafist um marga áratugi.)

Það voru nokkuð skiptar skoðanir um bókina á heimilinu og ég ákvað að grípa til þess ráðs að útfæra tvenns konar mismunandi afstöðu til hennar:

Í fyrsta lagi mætti einfaldlega líta á handritið sem geðvonskurant gamals biturs homma, snautt að bókmenntalegu gildi. Bókin er allt of löng og uppbyggingin handahófskennd og kaotísk, það er enginn þráður í henni en endalausar endurtekningar, stundum koma heilu máls- eða efnisgreinarnar fyrir oftar en einu sinni og jafnvel oftar en tvisvar. Þetta á ekki síst við um fjálglegar lýsingar Þórðar á eigin skoðunum á íslenskum menntamönnum, en altæk fyrirlitning hans á þeim er löngu orðin þreytt þegar komið er fram yfir miðja bók. Sjálfsánægjuræður hans eru skreyttar með illmælgi og rógi um nafngreint fólk. Hvað kynferðislega róttækni hans varðar líkist hann fremur Gillzenegger en öðrum, með sífelldar yfirlýsingar um að þessi og hinn maðurinn verði að láta að ríða sér af karlmanni til að taka sönsum. Einnig virðist hann telja það presti nokkrum til tekna að hafa reynt að nauðga fyrrum fermingarbarni sínu.

Á hinn bóginn myndi ég færa rök fyrir því að ekki mætti taka ritið svo „bókstaflega“. Þar er maður strax kominn út á hálan ís. Hafa ekki til að mynda femínistar verið gagnrýndir fyrir að leggja eigin skilning eftir hentisemi í annars vegar beitt grín og hins vegar hættulegar yfirlýsingar sem eru dauðans alvara? Það verður að taka það fram að þetta er þó ekki línan sem Þórður dansar mest á. Sögur hans af „kvensama prestinum“ eru ekkert sérlega sniðugar en yfirlýsingar um að hinir og þessir þurfi að láta ríða sér af karlmanni eru annars konar. Það skiptir nefnilega máli í þessu samhengi hvar valdið liggur. Ef þú talar undan hælnum á hinu heterónormatíva feðraveldi ertu tæpast að níðast á því ódrengilega, frekar en það meikar sens sem sumir fulltrúar þjóðkirkjunnar vilja meina, að einstaklingar úti í bæ séu að „leggja kirkjuna í einelti“. Ef þú ert þjóðkirkjan er ekki hægt að leggja þig í einelti, það liggur í hlutarins eðli. Það er auðvitað rétt að halda því til haga að Þórður er sjálfur karlmaður og þar af leiðandi ekki í algjörri varnarstöðu gagnvart feðraveldinu þótt hann sé spólgraður hómósexúalisti. Ég hjó reyndar sérstaklega eftir því við lestur endurminninganna að öfugt við marga gamla homma í uppreisn gegn samfélaginu eru konur hvorki fjarverandi né ómarktækar í frásögn Þórðar. Hann gefur þeim fullt kredit þegar honum finnst þær eiga það skilið, gagnrýnir til dæmis samfélagið sem veitti doktor Björgu C. Þorláksson ekki þá virðingu sem hún átti skilið, og gerir grín að mönnum með hefðbundnar borgaralegar hugmyndir um hlutverk kynjanna: „Halldór Laxness hatar allt menntað kvennfólk, eins og sjálfsagt er. Hann hefur fengið kristilegt uppeldi og veit, að drottinn hefur aldrei ætlazt til, að konan færi útfyrir eldhúsið og hjónarúmið.“ (164)

Ögn erfiðara við að eiga er endalaust skítkast Þórðar á ýmsar persónur í menningarlífi Íslendinga. Það hvað maður er tvístígandi yfir því helgast þó aðallega af því að enn er frásögnin nálæg okkur í tíma og sumt fólk enn lifandi sem þar kemur fyrir. Ef málið snerist um 19. aldar fólk væri þetta ekkert mál og enginn myndi móðgast nema venju fremur ættrækin barnabarnabörn. Hættan er auðvitað að ef bókin hefði verið gefin út þegar allir málinu viðkomandi og amma þeirra væru komin undir græna torfu hefði einmitt sá almenni áhugi sem helgast af nálægð í tíma dofnað, svipað og ég ímynda mér að hljóti að gerast með einkaskjöl Davíðs frá Fagraskógi sem má ekki opna fyrr en sem flestir eru rækilega búnir að gleyma honum (voru það hundrað eða tvöhundruð ár?). Eða er þetta áfellisdómur yfir listrænu gildi Þórðar og Davíðs (sem ég man ekki betur en sé nefndur nokkrum sinnum hjá Þórði, í misflatterandi samhengi)?

Bókin er eins og áður segir samvinnuverkefni Þórðar Sigtryggssonar og Elíasar Marar. Jafnvel þótt við tækjum þann fyrrnefnda (ómaklega) fyrir einhvers konar marklausan rugludall („furðumaður“ sagði Egill Helgason í Kiljunni, enda hafa furðumenn löngum verið þeirra helsta áhugamál þar í hæfilegu samblandi við snillingana) var sá síðarnefndi reyndur rithöfundur – og prófarkalesari í ofanálag. Hann raðaði bókinni saman, lét kaosið halda sér, lét sífelldar endurtekningarnar standa. Ýmislegt í bókinni gefur til kynna kankvísa fjarlægð; undirtitillinn „Tilraunir með dramb og hroka“ er nærtækt dæmi en líka til dæmis þessi kómíska fullyrðing um íslenska menntamenn: „Það yrði annars meira grínið, ef þessir ólæsu sveitamenn gerðu tilraun til að stafa sig gegnum endurminningar mínar eða A la Recherche du Temps perdu eftir Marchel Proust.“ (159) Mennt er máttur er bókmenntaverk. Það er svo auðvitað spurning hvort það breyti einhverju um gæði bókarinnar, eða siðgæði. Það er stór umræða sem ég held að margir hafi dýft tánni varlega í undanfarið misseri – til dæmis í samhengi við SORA. Manifestó eftir Valerie Solanas, án þess að ég hafi fylgst vel með því – og væri mjög áhugavert og þarft að ræða af einhverri alvöru. Það væru alls konar angar bókmenntahefðarinnar íslenskrar og erlendrar sem lægju þar undir – Megas, markgreifinn af Sade, listinn er langur.

Ég er alltént ánægð með að handrit Þórðar og Elíasar sé loksins komið út. Það er á köflum mjög skemmtilegt, til dæmis í fyrrnefndum grafískum kynlífslýsingum um Jesú, Drottinn og Jón Gerreksson, það gefur annað sjónarhorn á áhugaverðan tíma í Reykjavík án þess að maður taki öllu sem þar stendur sem heilögum sannleika, og það er hvað sem öðru líður merkileg viðbót við átakanlega rýran heimildabanka íslenskrar hinsegin sögu. Þar sem Páll Björnsson lagði nauðsynlega áherslu á fjarveru Ingibjargar í opinberri ímyndarsköpun Jóns Sigurðssonar sýna endurminningar Þórðar Sigtryggssonar fram á nærveru hinsegin lífernis í sögu sem venjulega þegir yfir slíkum pervertisma. (Í lokin á umfjöllun minni um bók Páls afsakaði ég pólitískan áróður gegn þjóðríkinu, hér afsaka ég að stökkva úr bókmenntalegu gildi yfir í sagnfræðilegt gildi. Þetta er ósjálfrátt og ég nenni ekki að hafa hemil á því í augnablikinu; það er líka alltaf þægilegra að líta á svona skrif sem svo að maður sé að opna umræðu frekar en að loka henni.)

1 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég er með rífandi "Reykjavíkurfortíðardellu" (sem meðal annars lýsir sér í langtímalestri dagblaða á timarit.is) og sendi því skósvein minn út í búð um leið og ég vissi að bókin væri komin út. Ég las hana upp til agna sama kvöld og er síðan búin að snúast í allnokkra hringi. Mér finnst þetta ágætt innlegg um þessa bók því ég er einmitt með svona blendnar tilfinnintgar fyrir þessu efni. Ég verð samt að játa að ég varð fyrir vonbrigðum með bókina, fannst hún ekki eins áhugavert innlegg og ég hafði búist við/vonað.