12. janúar 2012

Sokkar sem rokka

Á dögunum kom út bókin Á rauðum sokkum. Baráttukonur segja frá á vegum RIKK. Ritstjóri og höfundur formála er Olga Guðrún Árnadóttir, Dagný Kristjánsdóttir skrifar eftirmála en þrettán fyrrum félagar í Rauðsokkahreyfingunni segja frá reynslu sinni, hver í sínum kafla. Á kaflareglunni er reyndar ein undantekning því Vilborg Dagbjartsdóttir leggur til ljóð milli kaflanna í stað frásagnarkafla. Í frásögnum sínum rekja þessar konur ekki bara rauðsokkaárin (1970-1982) heldur segja, að minnsta kosti flestar, frá uppruna sínum og uppvexti og hvað varð til þess að þær gengu til liðs við Rauðsokkahreyfinguna.


Þessi bók fannst mér afskaplega áhugaverð aflestrar. Hún er gullnáma fróðleiks um stöðu kvenna á áttunda áratugnum sem og áratugunum á undan. Mér fannst ekki síst athyglisvert að velta því fyrir mér hvað hefði áunnist og hvar hefði orðið stöðnun eða bakslag. Af lýsingum að dæma hefur staða kvenna á vinnumarkaðnum batnað umtalsvert, í það minnsta er mismununin ekki með eins beinum hætti og áður þótti tilhlýðilegt, og tækifærunum hefur fjölgað. Það sem forsíðumyndin sýnir á þó ekki síður við í dag en þá. Hún sýnir þann atburð sem segja má að hafi markað upphaf Rauðsokkahreyfingarinnar á Íslandi (þótt hreyfingin hafi ekki verið stofnuð formlega fyrr en nokkrum mánuðum síðar) þegar hópur kvenna gekk aftast í 1. maígöngunni í Reykjavík 1970 með styttu sem bar borða með áletruninni „Manneskja, ekki markaðsvara“. Því miður eiga þau skilaboð ekki síður brýnt erindi til okkar í dag að konur séu ekki (eða eigi ekki að vera) neysluvarningur. Eins er áhugavert að sjá hvernig karlrembuviðbrögðin við femínistum sem okkur þykja fyrirsjáanleg í dag hafa verið nákvæmlega þau sömu fyrir 40 árum og í dag: að femínistar séu ljótar konur og kynkaldar, beiskar og vansælar, og þurfi bara að komast í tæri við almennileg karlmenni. Bókin sýnir líka glögglega hvernig sú barátta sem Rauðsokkahreyfingin snerist um var nauðsynleg og leiðir hugann að því hve árangursrík sú herferð gegn ímynd Rauðsokkanna sem greinilega átti sér stað hefur verið. Frá unglingsárum mínum á níunda áratugnum, eftir að hreyfingin hafði liðið undir lok, man ég vel að gjarnan var talað um rauðsokkur sem hræðileg öfgakvendi og því haldið fram að barátta þeirra hefði farið út í vitleysu. Sem sagt var ímynd þeirra ekki sérlega góð. Mér sýnist hins vegar ljóst að þarna hafi verið um afleiðingar rógs að ræða, sem virðist vera það sem femínistar á öllum tímum hafa mátt þola. Fyrst og fremst held ég að við eigum Rauðsokkahreyfingunni mikið að þakka.

Þarna kemur líka fram hvernig önnur pólitík fléttaðist saman við Rauðsokkahreyfinguna. Þá á ég ekki síst við fund Rauðsokkahreyfingarinnar á Skógum 1974 þar sem ályktað var að kvennabarátta væri stéttabarátta og að vopn stéttabaráttu skyldu notuð í henni. Þetta mun hafa fælt frá sumar kvenréttindakonur sem vildu staðsetja sig lengra til hægri á pólitíska rófinu og á kannski einhvern þátt í að skýra hvers vegna kvennabarátta eða femínismi er gjarnan spyrt saman við kommúnisma eða vinstristefnu. Þetta, og ýmislegt fleira sem ég hafði ekki vitað um, þótt mér í það minnsta afar fróðlegt að fá að vita. Þá er ég ekki að ýja að því að það sé endilega réttlætanlegt að leggja þetta tvennt að jöfnu, þótt vissulega eigi róttækur femínismi og vinstrimennska óneitanlega margt sameiginlegt, heldur að þarna komi fram ákveðnar sögulegar skýringar á ályktunum sem gjarnan eru dregnar. Mér fannst líka áhugavert að lesa um reynslu sumra kvennanna af starfi með öðrum vinstrihreyfingum þar sem karlarnir voru afskaplega róttækir og jafnréttissinnaðir þar til kom að jafnrétti kynjanna og reyndust þá ekkert minni karlrembur en aðrir. Það rímar svo sem alveg við ýmislegt annað sem ég hef heyrt frá ýmsum öðrum tímum, til dæmis veit ég til þess að konum í verkalýðsbaráttu á tímum langömmu minnar hafi stundum þótt fram hjá sér gengið.

Bókin er sneisafull af myndum sem teknar voru á fundum og öðrum uppákomum Rauðsokka og ég hafði mjög gaman af þeim. Það skýrist kannski að einhverju leyti af því að þetta tímabil, áttundi áratugurinn, var jafnframt (u.þ.b.) fyrsti tugur ævi minnar þannig að alls konar bernskuminningar spruttu fram við að skoða myndirnar og ég fylltist einhverri nostalgíu. En burtséð frá því ljá myndirnar bókinni skemmtilegan blæ.

Sá persónulegi blær sem fylgir því að láta hverja og eina konu segja söguna frá sínu sjónarhorni í eigin kafla gefur bókinni líka heilmikið en þetta fyrirkomulag hefur líka sína galla og er þegar upp er staðið það eina sem ég vil fetta fingur út í. Það varð nefnilega þreytandi til lengdar að lesa frásagnir af sömu atburðunum aftur og aftur. Vissulega getur það verið áhugavert og haft ákveðið gildi að fá sömu söguna frá mismunandi aðilum, fólk man jú ekki alltaf hlutina á sama hátt, tekur eftir mismunandi hlutum og svo framvegis. Þrátt fyrir það eru frásagnirnar á köflum það keimlíkar að ég verð að játa að stöðugt dró úr athygli minni eftir því sem leið á lesturinn. Það er bara dálítið mikið að lesa tólf frásagnir af því að kvenréttindakonur hafi gengið með styttu úr leikverkinu Lýsiströtu í 1. maígöngunni 1970, haldið stofnfund haustið 1970, haldið stefnumarkandi fund að Skógum 1974, haldið til í tveimur herbergjum að Ásvallagötu 8 þar til þær þurftu stærra húsnæði fyrir starfsemina, gefið út blað sem hét Forvitin rauð og hvatt Vigdísi Finnbogadóttur til að fara í forsetaframboð 1980. Þetta eru allt saman áhugaverðir hlutir, en eftir fjórðu frásögnina af því sama þá fer þetta að verða svolítið staglkennt og eftir þá sjöundu fer maður að freistast til að hraðlesa.

Þetta með endurtekninguna finnst mér eini lösturinn á bókinni, að öðru leyti er hún bara frábær og greinilega vandað til verka í alla staði. Ef ég fæ einhvern tímann óvænt nógan tíma ætla ég að leggjast í að skoða betur ýmsar heimildir sem þarna er vísað til, sem áhugavert væri að rýna í til að skoða sögu Rauðsokkanna og kvennabaráttu á Íslandi.

Engin ummæli: