14. janúar 2012

Á kassanum í Bónus

Bónusstelpan eftir Rögnu Sigurðardóttur sem út kom hjá Forlaginu fyrir nýliðin jól er bók um hugmyndir. Þar spinnast saman ýmsir þræðir sem allir tengjast á einn eða annan hátt Bónusstelpunni sjálfri, henni Diljá.  Diljá er nett ofvirkur nemi í Listaháskólanum, býr í litlu, huggulegu einbýlishúsi á hraununum í Hafnarfirði með foreldrum sínum og yngri systur. Pabbinn er framhaldsskólakennari, óskup venjulegur fjölskyldufaðir nema ef vera skyldi óvanaleg fegurð hans sem hann virðist samt næsta ómeðvitaður um. Mamman er týpískur dugnarðarforkur, heldur öllu gangandi og er líkt og dóttirin, aðeins ofvirk, en hefur náð tökum á sínum málum  með löngum hlaupatúrum, bæði í Hafnarfirði og eins á fjöll og firnindi.

Þegar sagan hefst er Diljá í þeim sporum að hún er að hefja vinnu við lokaverkefnið sitt frá Listaháskólanum. Hún fær þá hugmynd að verkefnið hennar verði „gjörningur“sem felist í því að hún fái sér vinnu á kassa í Bónus og að kvikmynd af henni í starfi verði í beinni útsendingu á listsýningu. Þetta er í raun frábær hugmynd. Eitt það allra hversdagslegasta sem maður getur hugsað sér, kassinn í Bónus, tekinn úr samhengi og gerður að listaverki. Hversu mikið „meta“ eitthvað getur það orðið að fara á listsýningu og fylgjast með röðinni á kassanum í Bónus yfirfærðri í algjörlega nýtt umhverfi. Allavega, Diljá finnst þetta fín hugmynd, skólinn er til í að leyfa henni að prófa og þannig fer allt af stað.



Það er svo inní þetta, í raun ofurvenjulega, umhverfi sem allskyns undarlegir hlutir fara að láta á sér kræla. Kannski má segja sem svo, að íslenska þjóðarsálin endurspeglist í Diljá og umhverfi hennar – og þar spilar Bónus stóra rullu. Þetta er allt óskup venjulegt og hversdagslegt – en inní þennan ofurvenjulega ramma hrúgast margt það skrýtna og einkennilega úr þessari sömu þjóðarsál. Yfirnáttúrulegir hlutir, andatrú, sállækningar og kraftaverk – þessi atriði sem er ótrúlega grunnt á í þjóðarsálinni vella upp á yfirborðið og holdgerast í Bónusstelpunni Diljá. Einhvernveginn kemur upp sá kvittur að nýja stelpan á kassanum í Bónus í Hafnarfirði geri kraftaverk og smám saman fer af stað atburðarás, í raun skriða af undarlegum atburðum, sem umturnar öllu hjá Diljá og þeim sem standa henni nærri.

Það að höfundur noti Bónus í þessu samhengi gefur henni svo aftur tækifæri til að flétta inní pælingum um hrunið og sálarástand fólks í kjölfar þess. Reiknivélarkonan er gott dæmi um það. Hún kemur í Bónus á hverjum degi og dvelur lengi, ráfar um með reiknivél undir handleggum og reiknar og umreiknar hvað hún hafi nú efni á að kaupa þann daginn. Fyrst virðist sem um sé að ræða konu sem sé bláfátæk og eigi í verulegu ströggli með að draga fram lífið, en síðar kemur í ljós að svo er ekki, heldur hefur hún stundað nokkurskonar sjónhverfingar og náð að stela ótrúlegu magni af lúxusvörum úr versluninni. Þó þetta sé kannski furðuleg leið að því marki þá þykir mér höfundurinn nota þessa konu á áhugaverðan hátt til að sýna tvískinnunginn sem maður upplifir í umræðu um kjör margra eftir hrun. Það á allt að vera að fara til andskotans en engu að síður seljast jeppar í hundraðavís og heilu hrepparnir fara saman til Boston að versla.

Það sem mér fannst einna áhugaverðast við söguna var togstreitan hjá Diljá sjálfri varðandi kraftaverkin svokölluðu. Hún veit að þetta er eitthvað skrítið, en á tímabili virðist sem hún fari allt að því að trúa því sjálf að hún hafi þessa hæfileika. Og að það skipti kannski ekki máli hvort hún hafi þá eða ekki ef fólk trúi að hún hafi þá – að hugsanlegar afleiðingar skipti ekki máli. Eins er það áhugaverð pæling hversu tilbúið fólk er til að trúa því að þessir yfirnáttúrulegu hlutir séu virkilega að gerast og hversu fljótir menn eru til að fylgja straumnum og fara í röðina hjá henni í þeirri von að eitthvað gerist.  Ég gat ekki varist þeirri hugun að þarna væri á ferðinni ádeila á hjarðhugsunina sem allt gegnsýrði í „gróðærinu“ og þá hugmynd þeirra sem þá réðu ríkjum að þeir hefðu einhverskonar „æðri“ sýn á hlutina, hefðu hæfileika sem öðrum væru ekki gefnir og þessvegna leyfi til að hegða sér á þann hátt sem þeim sýndist.

Það væri hægt að fara í allskyns frekari greiningar á bókinni og þeim hugmyndum sem hún er samsett úr, en ég læt þetta nægja. Mæli með að fólk lesi bókina og pæli í því sem hún hefur upp á að bjóða.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta ágæt bók og ég las hana líka eins og hún gerist í Hafnarfirði. Ég held samt að það komi ekki beint fram, eða stendur einhversstaðar að bærinn sé Hafnarfjörður?

Sigfridur sagði...

Já, ég held það, þ.e. að það komi beint fram að staðsetningin sé Hafnarfjörður. Er búin að lána eintakið mitt þannig að ég get ekki tekið dæmi máli mínu til stuðnings!