23. janúar 2012

Þegar sál mín þreytist, leggst hún til hvíldar á rósarblaði....

Druslubókadömur halda ekki aðeins úti bókabloggi, þær hittast stundum í raunheimnum og skömmu fyrir jól var skellt í jólaglögg. Allar áttu að mæta með eina innpakkaða hallærislúðasnilldarskringibók og síðan var skiptst á gjöfum. Ákveðið var að hver ætti svo að blogga um sína gjöf en eitthvað hefur verið lítið um efndir, ég ætla því að brjóta ísinn og ríða á vaðið.

Ég fékk undurfagra bók, gefna út í Svíþjóð, eftir Björn Ranelid sem ég hafði aldrei heyrt um og ákvað því að byrja á því að kynna mér manninn. Í fyrsta lagi kom í ljós að við eigum sama afmælisdag, Björn Ranelid er nákvæmlega 20 árum eldri en ég. Þetta getur varla verið tilviljun.  Í ljós kemur einnig að Ranelid þótti efnilegur knattspyrnumaður á sínum yngri árum en ákvað frekar að gerast gríðarlega afkastamikill á ritvellinum, hann hefur sent frá sér 20 skáldsögur síðan hann byrjaði að skrifa árið 1983 og skrifað mörg hunduð blaðagreinar og er samkvæmt heimildum mikið fyrir að halda ræður við ýmis tilefni. Eitthvað virðist vera varið í skáldskapinn, hann hefur að minnsta kosti fengið ýmsar viðurkenningar á þeim vettvangi, meðal annars August priset fyrir skáldsöguna Synden árið 1994.

En í umfjöllunum um hann er líka iðulega tekið fram að hann sé býsna umdeildur. Hann er afar kristinn og víst fullur efasemda þegar kemur að þróunarkenningunni. Hann þykir líka hafa mjög svo sérstakan og afgerandi stíl í skrifum sínum, talað er um “
det ranelidska språket”, þ.e. að hann hafi í raun búið til sitt eigið tungumál. Sjálfur virðist hann vera meðvitaður um þetta og lýsir eigin tungumáli einhvern veginn á þá leið að það sé afar ljóðrænt og hlaðið myndhverfingum, ég er engu nær og þið eflaust ekki heldur enda gæti lýsingin  átt við meiri hluta skáldskapar, svona almennt séð. En sumsé, stíllinn er víst auðþekkjanlegur.


En snúum okkur að bókinni minni. Hún heitir Jag skänker dig mina vackraste ord, eða Ég sendi þér mín fegurstu orð, þetta er ekki skáldsaga heldur safn myndlíkinga og afórisma, eins og segir á bókarkápu en í raun er þetta einhversskonar heimasmíðuð sjálfshjálparspeki í gullkornaformi, boðið er upp á 285 gullkorn á sænsku, ensku, þýsku og frönsku, þ.e. hvert gullkorn birtist á fjórum tungumálum. Bókin byrjar reyndar á ansi furðulegum formála þar sem Ranelid birtir svipmyndir frá æskuárum sínum í Malmö sem eru síðan ekki settar í samhengi við efni bókarinnar á nokkurn hátt. Hann segist hinsvegar alltaf hafa viljað “setja sitt einstaka fingrafar  á hið auða blað skáldskaparins” (þegar þarna var komið sögu var mig aðeins farið að gruna hvernig hið ranelídska tungumál fúnkerar).

Gullkornin fjúka svo jafnt og þétt, hið fyrsta hljóðar svo: “Alla mirakler börjar i kvinnans sköte” (eða “All miracles stem from a woman’s vagina”, “Alle Mirakel nehmen ihren Anfang im Shoß der Frau” eða “Tous les miracles commencent dans le vagin de la femme”). Svo er bara haldið áfram: “Hver barnshafandi kona ber tvö hjörtu sem slá í hofi”, “Þú getur aldrei skrifað fallegan texta með krepptum hnefa” og svo framvegis, óttaleg rassvasaspeki sem verður afar upphafin á köflum.

Trúin er honum hugleikin og stundum eru tengingarnar nokkuð undarlegar, jafnvel ögrandi. Hér er dæmi: “Gud är altid fullkomnligt ensam och därmed står han utanför. Så er det också för en sköka. Hon befinner sig bortom andständigheten och därför kan hon se klart på männen, till och med klarare än hustrun, fästmön och modern som tror att de känner sina män och söner på djupet och i alla avseenden” það er að segja, Guð er alltaf einn og þar af leiðandi á jaðrinum, eins og hóran, en af því að hún er handan hins viðurkennda hefur hún sérstaka innsýn inn í líf mannanna og þekkir þá þar af leiðandi betur en mæður þeirra, eiginkonur og kærustur. Og það gerir Guð þá væntanlega líka.

Sumt er svo beinlínis óskiljanlegt, hér er eitt dæmi: “En rigtigt gammal människa kan samla så mycket lust i ögat att den räcker till att fylla ett stort rike och himlen därtill. Hon ligger som en vithårig fjäder i sängen och alldeles stilla lifter hon i själens måttlösa rymnd och famnar minnet av någon som hon håller kär (til glöggvunar, enska þýðingin er svona: Really old people can collect enough passion in their eyes to fill a large kingdom and above it the sky. They lie like white-haired feathers in their beds and softly rise in the measureless space of the soul to embrace the memories of loved ones, ég nenni ekki að reyna að þýða þetta yfir á íslensku).

Það væri hægt að taka endalaus dæmi en í lokin langar mig til að minnast aðeins á útlit bókarinnar. Hún er í frekar stóru broti (sem passar ekki í hillur í bókabúðum, hér talar bitri fyrrum bókabúðarstarfsmaðurinn), afar vönduð í alla staði, mikill lúxus í öllum frágangi, þykkur pappír og litprentaðar myndir af ýmsum listaverkum sem eiga væntanlega að styðja við túlkun gullkornanna og svo er töluvert um myndir af Ranelid sjálfum. Eins og sjá má er hann afar hress á bókarkápunni, kemur spígsporandi á móti lesandanum í ljósu hörfötunum sínum, svona líka sólbrúnn og veðraður (Þess má geta að mestu ritdeilur í sænsku bókmenntakreðsunni árið 2003 snérust einmitt um útlit Björns Ranelid en í ritdómi um skáldsöguna Kvinnan er första könet lýsti Linda Skugge honum sem svo, en hún hafði hitt hann á einhverri bókmenntaráðstefnu: “Han satt där med sitt blonda lockiga hår, helt orörlig i en stel pose. Han var brunbränd, renrakad på armarna, iklädd ett linne och läppglans”. Þetta fór fyrir brjóstið á Ranelid og reyndar ýmsum öðrum sem fannst ómaklegt að gera lítið úr útliti hans með þessum hætti í ritdómi en ég get ekki betur séð, svona miðað við kápumyndina, að lýsingin sé býsna sannfærandi).

Bókin er vandaður gripur en innihaldið er satt best að segja alveg gasaleg steypa. Eða eins og Björn myndi segja: "Við fálmum eftir ástinni, eins og fiðrildi, blinduð af vínediki".

5 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Allir Svíar sem lesa þekkja Björn Ranelid og hafa skoðanir á honum (enda er hann bestseller-höfundur og margverðlaunaður). Í fyrra lenti hann í deilum við ritara Svenska Akademien, sem sagði eitthvað á þá leið að Ranelid ætti bara að gera allt annað en skrifa. Þá var Ranelid að taka þátt í Lets dance-keppninni (ég veit ekki í hvaða sæti hann lenti). Þessi ritdeila við umdeildu blaðakonuna, Lindu Skugge, var líka algjörlega óborganlega fyndin.

Þorgerður sagði...

Hvernig eru skáldsögurnar hans?

Maríanna Clara sagði...

Mikið væri ég til í að sjá hann á Lets dance-keppninni! Ég trúi að hann sé með suðræna sveiflu í mjöðmunum - en augljóslega er líka must að komast yfir bók eftir manninn!

Guðrún Lára sagði...

Ég man ekki hvort ég var búin að benda á það áður en þetta viðtal Alex Schulman við Björn er hrikalega fyndið: http://nojesguiden.se/artiklar/alex-schulman-moeter-bjoern-ranelid
Mér finnst best hvað hann var óánægður með brandarann Boije av majonnäs! Svo obegåvad eitthvað!

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Úff, hvað þetta er fyndið og vont.

Annars hélt ég að þetta: "Í ljós kemur einnig að Ranelid þótti efnilegur knattspyrnumaður á sínum yngri árum" myndi reynast annað sem þið Bjössi ættuð sameiginlegt. Ég meina, þú heldur með KR, þannig að maður trúir öllu upp á þig.