23. janúar 2012

Ófreskjur

Eins og ég hef nú oft skrifað um áður þá er ég svag fyrir reyfurum og þykir fátt huggulegra en góð glæpasaga – það eru því gríðarleg vonbrigði þegar reyfarinn er lélegur – dálítið eins og þegar maður fær vont súkkulaði! Einn slíkan vonbrigða-reyfara rak á fjörur mínar um daginn – það er reyndar eiginlega að bera í bakkafullan lækinn að nöldra yfir honum þar sem Guðrún Lára hefur þegar varað við honum hér – en úr því ég hafði fyrir því að lesa bókina ætla ég að skrifa um hana nokkur orð - en í sárabætur ætla ég líka að mæla með öðrum betri reyfara í leiðinni!


Slappi reyfarinn er Ófreskjan eftir þá Roslund og Hellström sem kom út í íslenskri þýðingu nú í ár. Það var ákveðið áfall að lesa á kápunni að bókin fékk Glerlykilinn sem besta norræna sakamálasagan árið 2005 – þar má hins vegar líka sjá að Liza Marklund mælir með henni og hefði það kannski átt að vera mér næg viðvörun (Liza hefur ekki verið neinn gleðigjafi í síðustu reyfurum sínum). Eins og Guðrún Lára benti á taka þeir Roslund og Hellström iðulega fyrir samfélagsleg málefni í skrifum sínum og í þessari bók eru erfiðar spurningar um hefnd og réttlæti í brennidepli; er réttlætanlegt að drepa stjórnlausan barnaníðing – og ef svo er – er þá líka réttlætanlegt að drepa pótensíal barnaníðing – hvar dregurðu línurnar ef þú samþykkir á annað borð fyrri verknaðinn. Þetta eru í sjálfu sér mjög áhugaverðar vangaveltur sem tengjast afstöðu til dauðarefsinga. Hins vegar er eitt að varpa fram áhugaverðum spurningum – og allt annað að gera úr þeim áhugaverða skáldsögu. Það tekst eiginlega ekki hér. Fyrir það fyrsta eru hér alltof margar keimlíkar persónur sem vitund sögunnar hverfist um – mér telst svo til að hvorki meira né minna en tíu raddir séu kynntar til sögunnar á fyrstu fimmtíu blaðsíðunum...allt frústereraðir, miðaldra, hvítir karlmenn. Það eru löggan Ewert Grens og skósveinn hans Sven, framagjarn saksóknari, yfirmaður fangelsins, tveir barnaníðingar (þar af einn í fangelsi og annar sloppinn úr fangelsi), þrír aðrir fangar sem fléttast inn í söguna og svo faðir fórnarlambsins...sagan skiptist fyrirvaralaust á milli þeirra og ég var satt að segja farin að rugla þessum persónum saman – kannski af því mér fannst þær allir meira eða minna jafn óspennandi! Það eru tvær konur á kantinum en Roslund og Hellström skyggnast aldrei inn í huga þeirra – við sjáum þær bara (oft skælandi) með augum karlpersónanna. Reyndar sker ein röddin sig frá hinum þar sem annar barnaníðingurinn (sá sem gengur laus) er sífellt að minnast þess hvernig hann misnotaði litlar stúlkar og er sú lesning bæði ógeðfelld og þreytandi en bætir litlu sem engu við frásögnina og segir manni einhvern veginn ekkert um hann sem manneskju eða nokkuð annað yfirhöfuð. Framan af er svo frásögnin fremur hæg - Það lifnar raunar aðeins yfir henni eftir svona 150 síður – en mér finnst það fulllangur tími til að grípa mann þegar um reyfara er að ræða. Ef að hér væri að finna stórskemmtilega persónusköpun eða sérstaka stílsnilld myndi sleppa fyrir horn að söguþráðurinn væri ekki sérlega grípandi – en ég hef þegar afgreitt persónunar og skandinavísku reyfararnir hafa nú ekki verið þekktir fyrir stílbragð hingað til og þar er Ófreskja engin undantekning.

Í miðri Ófreskju var mér farið að leiðast svo ég tók pásu og las aðra glæpasögu; Judgement in Stone eftir Ruth Rendell frá árinu 1977. Upphafssetning sögunnar er fræg en þar segir að Eunice Parchman hafi myrt Coverdale-fjölskylduna af því hún kunni hvorki að lesa né skrifa. Maður hefði því kannski ætlað að spennan færi fyrir lítið en eins og í In Cold Blood eftir Truman Capote (sem þessi bók minnir örlítið á þó ekki sé hún byggð á sönnum atburðum) þá felst spennan í því að fá að heyra aðdragandann að morðunum. Hér er lýst á ótrúlegan (en samt sannfærandi) hátt hvernig ólæsi Eunice vindur upp á sig og stjórnar algjörlega lífi hennar – eða öllu heldur stjórnar baráttan við að halda ólæsinu leyndu lífi hennar. Hér má ítreka að þetta er ekki skáldsaga um að ólæst fólk sé hættulegt og hugsanlegir morðingjar heldur ádeila á stéttskiptingu, getuleysi manna til að skilja náunga sinn, sjálfhverfu og svo auðvitað ólæsi – hversu mikil fötlun það er að geta hvorki meðtekið upplýsingar né tjáð sig skriflega og hvernig skömmin yfir þessari fötlun yfirtekur líf manneskju og gerir hana í þessu tilviki að ófreskju. Síðast en ekki síst er svo deilt á samfélag sem bregst barni og lætur það vaxa úr grasi með þessa fötlun. Ólíkt Ófreskjunni eru þessar vangaveltur hér hins vegar settar fram á spennandi og óvæntan máta sem gerir söguna gríðarlega grípandi lesningu. Bókin er líka oft lúmskt fyndin og svo eru persónurnar margar stórskemmtilegar eins og eldhress fyrrverandi mella, núverandi frelsaður búðareigandi sem Eunice myndar sérstakt vináttusamband við.

Niðurstaðan er því sú að breski „kósý“ reyfarinn er beittari samfélagsádeila en skandinavíska glæpasagan. Þetta er kannski sérstaklega óvænt í ljósi þess að að sumu leyti er Judgement in Stone hefðbundinn, gamaldags reyfari – gerist á ensku sveitasetri þar sem fólk segir „oh dear“, pússar silfrið og slúðrar um þorpsbúa. Það munar meira að segja engu að brytinn sé sökudólgurinn – hér er það bara ráðskonan!

3 ummæli:

Kristín Svava sagði...

Ég fór að setja verulega fyrirvara við þessi Glerlykilsverðlaun eftir að ég komst að því að Johan Theorin, höfundur reyfarans Hvarfið, sem var svo leiðinleg að ég var alveg gapandi hlessa yfir að þetta væri hægt, hefði fengið verðlaunin fyrir aðra bók.

Maríanna Clara sagði...

Hvarfið var reyndar mjööööög hæg - en mér fannst hún samt skemmtilegri en þessi (skemmtilegt er kannski afstætt í þessum leiðindum)

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Jæja, ég mun sannarlega ekki lesa þessa Ófreskjubók eftir umfjöllun tveggja druslubókakvenda. En tek undir með Maríönnu, A Judgment in Stone er virkilega magnaður reyfari og situr ennþá í mér nokkrum vikum síðar ...