28. janúar 2012

Hættuleg ástarsambönd og öruggar tilfinningasveiflur

Sleikur á bókarkápu.
Með hverju árinu sem líður sannfærist ég enn frekar um að best sé að halda lífi sínu eins lítið dramatísku og mögulegt er. Eftir því sem dregur úr dramatíkinni í lífi manns hefur maður líka enn meiri tíma til að lesa dramatískar bækur um tilfinningaflækjur og almennt vesen hjá skálduðum persónum. Við lesturinn fær maður að upplifa tilfinningasveiflurnar án þess að nokkuð hafi raunverulega gerst í manns eigin lífi. Það finnst mér stórkostlegt. Og svona þegar ég pæli í því, þá er hlýtur þetta að vera einn megintilgangur skáldskapar: að leyfa manni að upplifa allan fjandann án þess að þurfa að taka öllum afleiðingunum. Maður þarf ekki einu sinni að fara fram úr rúminu.

Fyrir um það bil ári síðan las ég Les Liaisons dangereuses eftir Pierre Choderlos de Laclos, en hún kom út árið 1782. Skáldsagan er í bréfaformi og meginviðfangsefni bréfanna eru mál sem tengjast tilfinningum og kynlífi. Söguþráðurinn er í raun of flókinn til að það borgi sig að reyna að gera honum almennilega skil hér. Sagan er þó að miklu leyti drifin áfram af persónunum Marquise de Merteuil og vini hennar Vicomte de Valmont, en þau eru bæði mjög upptekin af því að vinna kynferðislega „sigra“ og monta sig svo af því hvort við annað í bréfum sín á milli. Þau keppast um það að stjórna fólki og hafa því mikil áhrif á líf hinna persónanna án þess að þær átti sig á því. Bréfin sem fara milli sögupersóna eru afar persónuleg, en þar sem þær lifa flestar virku og spennandi ástarlífi, verða bréfin gjarnan að játningum á öllu sem snertir kynlíf þeirra – tilfinningum, athöfnum, hugsunum og þrám. Því mætti segja að nautnin sem persónur upplifa felist í rauninni fremur í því að tala um eða játa gjörðir, heldur en í gjörðunum sjálfum. (En er samfélag okkar ekki að mörgu leyti þannig? Endalausar lífsreynslusögur og persónulegar játningar út um allt?)

Það getur verið mjög gaman að lesa bækur sem eru á bréfaformi og í Les Liaisons dangereuses fáum við að sjá næstum öll bréfin sem send eru milli persóna í skáldsögunni og vitum þess vegna alltaf meira en persónurnar sjálfar. Þetta veldur því að við verðum meðvitaðari um það hvernig sagan hefði getað farið – til dæmis ef Vicomte de Valmont og Marquise de Merteuil hefðu ekki skipt sér svona mikið af lífum annarra – og horfum í geðshræringu á líf fólks fara í hundana án þess að geta gert neitt til að hafa áhrif á atburðarásina, til dæmis með því að vara persónur við þessum óþokkum! Bókin er að þessu leyti mjög melódramatísk. Og raunar líka í persónusköpun, þar sem vondu persónurnar eru mjög vondar og góðu persónurnar mjög augljóslega fórnarlömb, en svoleiðis vekur upp svo rosaleg tilfinningaleg viðbrögð (og rosaleg tilfinningaleg viðbrögð eru snilld).

Mér fannst Cruel Intentions mikið meistaraverk
þegar ég var þrettán ára.
Les Liaisons dangereuses minnti mig líka á bókina Charlotte Temple, A Tale of Truth eftir Susönnu Rowson, sem við Kristín Svava lásum í námskeiði um árdaga amerísku skáldsögunnar þegar við vorum staddar í Berlín. (Við þyrftum eiginlega að skrifa pistil einhvern daginn um bókmenntirnar sem við lásum í þeim kúrsi, en þar stóð uppúr bók um göfuga indjánann Hobomok.) Bók Rowson kom út nokkrum árum á eftir Les Liaisons dangereuses og fjallar um vondan mann sem dregur saklausa stúlku á tálar og svíkur hana svo. Og sagan endar auðvitað með dauða þessarar saklausu, viðkvæmu stúlku. Charlotte Temple var kynnt sem sönn saga og viðvörun til ungra stúlkna, en bók Pierre Choderlos de Laclos skandalíseraði ekki síst á sínum tíma vegna þess að hann hélt því fram að hún byggði á raunverulegum atburðum. Því skal þó haldið til haga að Les Liaisons Dangereuses er miklu betri en Charlotte Temple, svo ég mæli nú frekar með henni. Og auðvitað kvikmyndunum sem byggðar eru á bókinni, Dangerous Liaisons (1988) og unglingamyndinni Cruel Intentions (1999).

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessi bók hljómar spennandi, en miðað við hvað ég komst í mikið tilfinningalegt uppnám við að lesa aðra bréfabók, Lady Susan eftir Jane Austen, þá veit ég ekki hvort ég leggi í þessa. Það að geta í gegnum bréfaskriftir fylgst með aðalpersónunni spila með aðra er einfaldlega virkilega erfitt. Allt eftir Jane Austen endar í það minnsta vel, svo eins og ég segi, ég veit ekki hvort ég myndi treysta mér í þessa.

Ragnhildur.

Elías sagði...

Næst ættirðu að kíkja á La Philosophie dans le boudoir og kanna hvernig þau verk kallast á.

Kristín í París sagði...

Ekki má gleyma mynd Milos Forman, Valmont, sem var gerð á sama tíma og Frears-myndin. Svo er til eldri frönsk mynd, sem gerist í nútímanum og persónurnar eru á skíðum í Ölpunum og svona.
Og nú er John Malkovich búinn að setja upp leikrit hér í París, eftir leikgerð Christopher Hamptons (sem Frears myndin byggir á), sem þó er einnig færð til nútímans, ef marka má plakatið, þar sem ungu persónurnar eru að skrifa sms. Þetta er megagóð bók sem batnar við hvern lestur.

guðrún elsa sagði...

Úff, er eitthvað fyndnara en Les Liaisons Dangereuses með sms-sendingum!? Já, ég verð að tékka á Valmont og Alpa-útgáfunni. Þorði eiginlega ekki að mæla með nema þeim myndum sem ég hafði séð. Annars rakst ég á Alpamyndarkoverið og heillaðist: http://img3.imagebanana.com/img/ugl79y30/Liaisons_dangereuses_1959.jpg


Og já, Elías. Ég verð að tékka á La Philosophie dans le boudoir, hún hefur verið á listanum mínum.

Ragnhildur: Lestu endilega bókina! Þú lifir það alveg af...

Kristín Svava sagði...

Veistu hvernig þetta kemur út með sms-in, Kristín? Mér hefur stundum fundist það svo þvingað þegar það er verið að reyna að færa bréfaformið til nútímans með sms-um eða tölvupóstum.

Nafnlaus sagði...

Nei, ég var einmitt að spá hvort ég ætti að fara og sjá, þekki þetta verk svo vel. Veit samt ekki hvort ég læt af því verða, en lofa að láta vita hvernig sms-in koma út. M.a.s. Cruel Intentions slapp við farsímana, er það ekki? Parísardaman.

Nafnlaus sagði...

Og plakatið er töff! Ég gef ekkert upp um hvað mér fannst um myndina:)