13. janúar 2012

Hrokafullir mannhatarar með hríðskotabyssur og napalm

Ég náði þeim merka áfanga nýlega að lesa mína fyrstu bók með aðstoð kyndils – alltaf með puttann á púlsinum eins og þið heyrið. (Og kýs að skrifa orðið með y – pjúra fagurfræðylegyr dyntyr.) Ég valdi bókina nokkurn veginn af handahófi. Ég var að prófa mig áfram með kyndilinn, opnaði fyrst Made in America, sögu enskrar tungu í Bandaríkjunum eftir Bill Bryson, og hún byrjaði mjög skemmtilega, en var á óheppilegu formi þannig að letrið var óþægilega smátt. Eftir að hafa stautað mig í gegnum einn eða tvo kafla gafst ég upp og prófaði Columbine eftir bandaríska blaðamanninn Dave Cullen í staðinn. Hún fjallar um Columbine-árásina í apríl 1999 sem ég geri ráð fyrir að flestir muni eftir, en þá myrtu tveir sautján og átján ára strákar þrettán manns í skólanum sínum í Colorado og frömdu síðan sjálfsmorð. Cullen fjallaði um málið sem blaðamaður á sínum tíma, lagðist í töluverðar rannsóknir út frá því og gaf út þessa bók tíu árum eftir árásina.

Hann rekur annars vegar ævi morðingjanna tveggja, Eric Harris og Dylan Klebold, aðdraganda og undirbúning árásarinnar, og hins vegar það sem kom í kjölfar hennar; lögreglurannsóknina, fjölmiðlaumfjöllunina, líf þeirra sem særðust og aðstandenda hinna látnu, og það hvernig samfélagið tókst á við áfallið. Hann hoppar dálítið fram og til baka og ég er ekki viss um að uppbygging bókarinnar sé alls kostar nógu góð, en þar kom upp einn galli við kyndilinn sem ég hafði áður heyrt af; maður flettir ekki jafn hratt í gegnum rafrænu bókina og þá efnislegu, sem gerir manni erfiðara fyrir að rifja upp ákveðin atriði og gera sér grein fyrir heildarmyndinni.

Samkvæmt besta vini mannsins, Wikipediu, fékk Columbine ýmis verðlaun og hlaut almennt góða dóma þegar að hún kom út, með þeirri undantekningu að gagnrýnanda The New York Times þótti hún ekki merkilegur pappír og gagnrýndi Cullen fyrir að setja harmleikinn fram sem spennusögu fyrir lesendur. Bókin stakk mig ekki sem ósmekkleg (þótt athugasemdin um heilaslettur morðingjanna á bókasafnshillunum hefði kannski mátt missa sín) og við hljótum að þurfa að slá ansi margar bækur út af borðinu ef það er orðið siðferðislega vafasamt í sjálfu sér að setja raunverulega atburði í sorglegri eða óhugnanlegri kantinum upp í aðgengilegan og já, kannski spennandi, söguþráð. Kannski meinti gagnrýnandinn það heldur ekki svo prinsippíelt og ég tek undir það að samanburðurinn við In Cold Blood eftir Truman Capote, sem sumir ku hafa gert, er hálffáránlegur. Cullen er enginn listapenni og frásögnin fellur satt að segja oft í þá gryfju að verða banal og á stundum tilfinningasöm. (Eitt dæmi um það hvernig Cullen misstígur sig er þegar hann reynir að krydda frásögnina með því að „Dylan hafi sennilega fengið sér kartöfluhýði að borða“ fyrir árásina – einn að blóðmjólka krufningarskýrsluna! Svo kemur meira að segja fram að það gætu hafa verið franskar.)

Það er samt ýmislegt áhugavert í sögunni af Columbine. Sagan af því hvernig árásarmennirnir gerðust fjöldamorðingjar er niðurdrepandi og það er fáránlegt að svona sjálfhverfir og mannhatandi unglingshrokagikkir – talandi um að vera banal og tilfinningasamur – hafi greiðan aðgang að hálfsjálfvirkum hríðskotabyssum og komist upp með tilraunir með napalm og fleira í þeim dúr í lengri tíma án þess að vera stoppaðir af. (Árásin átti fyrst og fremst að vera sprengjuárás en ekki skotárás og hefði sem slík drepið margfalt fleiri, en sem betur fer voru árásarmennirnir ekki færari í sprengjugerð en svo að sá hluti áætlunarinnar mistókst nokkurn veginn alveg.) Það sem mér þótti einna áhugaverðast var umfjöllun Cullen um þær mýtur sem sköpuðust í kjölfar árásarinnar og hvernig þær höfðu áhrif á fjölmiðlaumfjöllun og samfélagsumræðu um hana. Ég man eftir sumum af þeim úr mynd Michael Moore, Bowling for Columbine, en þeir Eric og Dylan fóru víst ekkert í keilu daginn sem þeir gerðu árásina og þeir voru heldur ekki þau félagslegu úrhrök sem þeir voru sagðir vera, lagðir í einelti af amerískum jocks, heldur áttu þeir hóp af vinum og virkt félagslíf. (Fordómar fólks gagnvart ýmsum jaðarhópum komu fram á allt að því kómískan hátt eftir árásina, eins og þessi tilvitnun í Diane Sawyer á ABC-sjónvarpsstöðinni skömmu síðar ber vitni um: „The boys might have been part of a dark, underground national phenomenon known as the Gothic movement and some of these Goths may have killed before“.)

Ein af tragískari sögum í bókinni er mýtan um Cassie Bernall, sem var ein af þeim sem var drepin á bókasafninu þar sem Eric og Dylan myrtu flesta. Hún hafði verið virk í kristilegu starfi í bænum og strax eftir árásina komst sú saga á kreik að Eric Harris hefði miðað á hana byssu og spurt hana hvort hún tryði á Guð, hún svarað því játandi og hann þá skotið hana til bana. Þetta var misskilningur; strákurinn sem varð vitni að þessu samtali var í raun að lýsa orðaskiptum Erics við aðra stelpu á bókasafninu, sem hann skaut síðan en drap ekki. Hann skaut Cassie aftur á móti formálalaust í höfuðið. Sagan breiddist hins vegar út og Cassie var gerð að píslarvætti fyrir trú sína, saga hennar var predikuð í kirkjum og skrifuð í blöðin og á endanum ákvað móðir hennar meira að segja að skrifa bók sem kom út í gríðarstóru upplagi og heitir She Said Yes. The Unlikely Martyrdom of Cassie Bernall. Þeir eftirlifendur sem höfðu orðið vitni að atburðunum á bókasafninu voru eðlilega hikandi við að koma fram með hina raunverulegu sögu, enda fengu foreldrar Cassie mikinn styrk frá píslarvætti dóttur sinnar. Hið sanna kom á endanum fram, en sagan af Cassie lifir samt góðu lífi og það eru alls ekki allir sem gangast við því að vitnisburðir af bókasafninu breyti neinu um hana.

Þegar allt kemur til alls held ég að ég þurfi ekki að mæla með Columbine við aðra en þá sem hafa sérstakan áhuga á málinu. Einn eða tveir kaflar fjalla almennt um einkenni siðblindu, sem Cullen telur að Eric Harris hafi verið haldinn, en þetta er fyrst og fremst saga einnar skotárásar í bandarískum skóla sem er í rauninni ekki sett í mikið stærra samhengi. Ég má reyndar til með að nefna færslu Æsu um We need to talk about Kevin (ég hef ekki lesið hana, en ég sá myndina!) sem er skáldsaga sem fjallar um svipað mál. Ætli ég mæli annars ekki bara frekar með því að fólk nái sér í eitthvað eftir Bill Bryson, ég ætla allavega að gera aðra atlögu að honum í stærra letri við tækifæri.

4 ummæli:

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Skemmtileg tilviljun, mín næsta færsla verður um Bill Bryson!

Og ég er fylgjandi rithættinum "kyndill". Ég meina, við íslenskuðum Bítlana svo við hljótum að geta notfært okkur þetta heppilega íslenska kyndilsorð.

Ég las áhugaverða grein um Columbine-drengina þar sem því var einmitt haldið fram að Eric Harris hafi verið siðblindur og leikið einhvers konar drottnunarhlutverk gagnvart Dylan. Set svosem alltaf spurningarmerki við allt sem ég les/sé um þessa stráka - oft litað af tilfinningaklámi, poppsálfræði eða hugmyndafræðilegri hentistefnu - en það var a.m.k. meiri stúdía en maður yfirleitt sér. Var að reyna að gúggla og finna þessa grein, sem ég held að hafi verið í Sunday Times, en auðvitað tekst það ekki.

Nafnlaus sagði...

Þú hættir að tala um kyndilinn eftir upphaf pistilsins. Góð uppsetning á texta í bók lýsir sér best í því að lesandinn tekur ekki eftir letrinu og sekkur sér ofaní efni bókar. Hættirðu að pæla í lesbrettinu af því að þú sökktir þér ofaní bókina og tækið, sem flutti þér textann, skipti ekki máli?

Magga

Kristín Svava sagði...

En gaman, ég er mjög spennt fyrir því að kynnast Bill Bryson eftir þessa tvo kafla sem ég pírði augun á. Sem betur fer er ég með nokkrar aðrar eftir hann hérna.

Cullen heldur því einmitt fram að Eric hafi verið siðblindur (psychotic) en Dylan meira plein þunglyndur. Sá síðarnefndi fær miklu betri eftirmæli í bókinni en sá fyrrnefndi, og ef maður dæmir af þeim dagbókarbrotum sem eru birt í henni er það svo sem skiljanlegt. En þessi bók er einmitt ekki alveg nógu traustvekjandi til að ég taki mark á henni sem analísu. Er ekki siðblinda hálfúreld greining hvort eð er? (We need to talk about Kevin virtist reyndar ekki vera á því eftir bíómyndinni að dæma.)

Kristín Svava sagði...

Ég nefndi kyndilinn bara af því að mér finnst áhugavert hvernig þessi flettihömlun hefur áhrif á heildarupplifun manns af bókinni, eða kannski frekar hvernig hún gerir manni erfiðara fyrir við að reflektera á efni bókarinnar. Ég hafði heyrt að þetta væri óheppilegt við lestur fræðibóka, þar sem maður getur til dæmis þurft að kíkja á heimildatilvísanir, en þrátt fyrir að þetta sé ekki fræðibók fannst mér verra að geta ekki skrollað fram og til baka. Meðan ég var á annað borð að lesa í einum rykk fannst mér það ekki hafa áhrif á lesturinn að bókin væri rafræn.