16. desember 2011

Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna ...

Á síðum bókaforlaganna eru bækur gjarna flokkaðar til hægðarauka, t.d. í nýjar bækur, hljóðbækur, kennslubækur, barnabækur, spennubækur o.s.frv. Það vakti athygli ritkvenda þessarar síðu að á vef bókaforlagsins Sölku má finna flokkana fyrir hana og fyrir hann. Meðal bóka sem bent er á fyrir hann eru tvær bækur um veiði eftir Bubba, uppeldishandbók, sjálfshjálparbók, ævisaga, matreiðslubækur um grillmat og villibráð og ein matreiðslubók sérstaklega skrifuð handa karlmönnum. Það er líka bók sem nefnist Vísindin að baki ríkidæmi, bækur um listamenn og ögrandi ljósmyndabók. Allar þessar bækur eru skrifaðar af karlmönnum.

Meðal bókanna sem flokkaðar eru fyrir hana eru sama uppeldishandbók, ævisaga og sjálfshjálparbók og ætlaðar eru körlunum, en þar eru líka bækur um handavinnu, Borða, biðja, elska eftir Elizabeth Gilbert, bók um förðun og spennusaga eftir Anne Holt. Samkvæmt þessu virðist ekki sérstaklega gert ráð fyrir því að konur hafi áhuga á Vesturförum Vilhelms Mobergs, veiði, leiðinni til ríkidæmis eða bókum um listamenn, og karlar eru tæplega taldir líklegir til að hafa áhuga á Húsráðakveri frú Kitschfríðar eða bókum eftir konur almennt.

Hvað finnst lesendum um þetta? Er það einhvers konar forræðishyggja þegar starfsfólk fyrirtækis tekur að sér að segja fólki hvaða bókum það eigi að hafa áhuga á út frá kyni?

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér er alveg sama.

Nafnlaus sagði...

Greinilega ekki, fyrst þú fórst að kommenta. Þú meinar að þér þyki þetta ágætt og eðlilegt.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta ótrúlega íhaldssamt og kjánalegt. Eru ekki aðallega konur sem vinna hjá Sölku? Þeim finnst sennilega að kallar séu grill- og veiðitýpur og konurnar í handavinnu og snyrtingu.
Stella.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Uppúr 1960 voru dálkar í blöðum og tímaritum (t.d. Heimilisblaðinu Fálkanum) sem hétu "Kvennasíðan" og "Fyrir konur" og eitthvað svoleiðis. Þar voru uppskriftir, húsráð o.s.frv. Manni fyndist nú dálítið einkennilegt ef svoleiðis kynjasíður yrðu endurvaktar. En svo eru náttúrlega til vefir og allskonar undirsíður sem eiga augljóslega að höfða til annars kynsins. Kannski segir þetta sitt um bakslag í jafnréttismálum.

Kristín Svava sagði...

Mér þykir einna athyglisverðast hvað flestar þessar bækur eru óskaplega óspennandi. Með svona tveimur þremur undantekningum.

Nafnlaus sagði...

Forræðishyggja? Hvað er það þá? Er það forræðishyggja að merkja bækur: Hentar 2-5 ára? Hunsar fólk ekki þannig tilmæli ef það vill?

Hvað sem bakslagi í jafnréttismálum líður bendir kynjamerking bóka fyrst og fremst til þess að litið sé svo á að kynin séu ólík að eðli.

Margrét sagði...

Já, mér finnst þetta asnalegt.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Mér finnst þetta óttalega kjánalegt. Þoli ekki svona dilkadrátt og fyrirframákveðnar skoðanir á því hvað kynjunum líki. Neyslufyrirmæli sökka. Og ég er álíka líkleg til að mæta á konukvöld útvarpstöðvar og að ganga í Sjálfstæðisflokkinn.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ég myndi líka fremur gefa karlmönnunum í fjölskyldunni minni hannyrðabók en veiðisögur af Bubba ... svo eitthvað sé nefnt.

guðrún elsa sagði...

já, ef svona flokkun endurspeglaði „eðli kvenna“ þá væri líka annað hvert blogg á þessari síðu um hannyrða- og förðunarbækur....