14. desember 2011

Verður vondi kallinn endilega að vera með ör í andlitinu?

Þegar maður les að rétturinn á bók hafi verið seldur til yfir 20 landa, þá gerir maður ósjálfrátt ráð fyrir því að það sé eitthvað varið í hana. En að sama skapi veit maður náttúrulega líka að þó maður sé svag fyrir bestsellerum og trúi því einhvernveginn að svona mikið af fólki geti varla haft rangt fyrir sér (einsog ég á svo oft til), þá hefur maður aldeilis verið brenndur af því að kaupa bók sem útgefendur slógust um og keyptu loks fyrir morðfjár og komast svo að því að hún er varla skítsæmileg (og já þarna er ég aftur að tala um ákveðna bók sem ég las fyrir sirka ári og er ennþá megasvekkt útí og ég ætla einhverntímann að blogga um, ég held það gæti orðið þerapjútískt fyrir mig).

Stjarna Strindbergs er s.s. ein af þessum bókum sem vekur svolitlar væntingar. Á kápunni stendur að höfundur hennar, Jan Wallentin, sé svar Svía við Dan Brown. Ég hef lesið tvær eða þrjár bækur eftir Dan Brown og mér fannst þær fínar til síns brúks. Þær héldu mér við efnið og mig langaði til þess að klára þær og komast til botns í plottinu, þó mig hafi reyndar líka langað til þess að rífa í hárið á sumum sögupersónum og segja þeim að hætta að vera svona ógeðslega fyrirsjáanlegar stereótýpur.Stjarna Strindbergs byrjar einsog fínasti skandinavíukrimmi, á því að önugur og sérvitur kafari finnur lík lengst niðri í gamalli námu. Ungur blaðasnápur sem vinnur við lókal blaðið fer á stúfana, en líkfundurinn verður bara óskiljanlegri og dularfyllri við hverja uppgötvun stráksins. Svo virðist sem líkið sé jafnvel miklu eldra en það leit í fyrstu út fyrir að vera og sagnfræðingurinn Don Titelman blandast í málið. Hann lendir svo í þeirri ólukku að einhver reynir að klína á hann morði sem hann er saklaus af, lögfræðingurinn Eva Strand reynir að koma honum til bjargar, en hún flækist auðvitað bara í atburðarásina með honum og fyrr en varir eru þau komin á æsilegan flótta undan leynilegum samtökum sem hafa mikið af óhreinu mjöli í pokahorninu.

Þá fer sagan ansi mikið að líkjast einhverju sem gæti verið beint úr smiðju Dan Brown. Vel þjálfaðir agentar sem svífast einskis og forn og valdamikil samtök sem stjórna öllu sem þau vilja stjórna bakvið tjöldin. Söguþráðurinn er ofinn saman við sagnfræðilegar staðreyndir, og svo þétt að það er ekki á færi leikmanna einsog mín að vita hvað er satt og hvað er logið. Söguhetjur þeysast um Evrópu og rannsaka sögufrægar slóðir sem reynast enn geyma ýmis leyndarmál.

Svo tekur sagan aftur stakkaskiptum og verður eiginlega að hreinræktuðum vísindaskáldskap.

Ég er hrifin af vísindaskáldskap, en samt fannst mér þetta ekki alveg ganga upp. Útkoman er svolítið grautarkennd og einhvernveginn verður blandan hvorki né.

Persónugalleríið finnst mér svo daðra óþarflega mikið við klisjurnar:

  • Þar er bældi, en afar myndarlegi, sagnfræðingurinn, sem þó er svo háður hinum ýmsustu lyfseðilskyldu lyfjum að hann verður hálfgerður aumingi eða andhetja. Hann er einsog gangandi orðabók og hann kann skrilljón tungumál. Það sem veitir honum samt dýpt er samband hans við ömmu sína, sem lifði af fangabúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni, og senurnar þarsem hann rifjar upp sögur hennar fundust mér þær áhrifamestu í bókinni. 
  • Svo er það fúli og einræni kafarinn sem er einsog stokkinn beint upp úr blaðsíðum margra skandínavískra krimma. 
  • Kvenkyns lögfræðingurinn í snyrtilegu gráu dragtinni er líka næstum því orðin að erkitýpu, en þó býr Eva Strand yfir leyndarmáli.
  • Systir Dons er einrænn og sérvitur tölvusnillingur sem virðist ekki eiga neina vini, en getur hakkað sig inn í hvaða tölvukerfi sem er og reddað öllu.
  • Ljótu karlarnir eru svo hæfilega ógeðslegir og sumir þeirra meira að segja fatlaðir og í hjólastól (einsog næstum allir vondu kallarnir í bókunum eftir Dan Brown) og áður en yfir lýkur fær versti kallinn meira að segja herfilega ljótt ör í andlitið, einsog svo margir vondir kallar í bókum og bíómyndum hafa borið á undan honum. Er það eitthvað lögmál að vondi kallinn verði á einhvern hátt að vera bæklaður líka?

En ég væri tilbúin að fyrirgefa þetta allt ef bókin væri nógu spennandi, en hún hélt mér því miður ekki við efnið.

Ég má samt til með að hrósa þýðingunni, því það var engin önnur en Druslubókadaman Þórdís Gísladóttir sem þýddi doðrantinn, og hún gerir það vel.

Satt að segja fannst mér einna skemmtilegast við lesturinn að koma að einhverjum kafla sem ég hafði heyrt hana tala um, eða rekast á orð eða hugtak sem ég hafði séð að hún hafði verið að velta fyrir sér þýðingunni á í sumar.

Og mér finnst að hún Þórdís mín eigi að fá að þýða betri bækur en þessa.

3 ummæli:

Erna Erlingsdóttir sagði...

Þetta með örótta manninn og hvort vondi kallinn verði að vera bæklaður er eiginlega bókmenntalegt minni sem Ármann Jakobsson hefur fjallað skemmtilega um: http://www.fotlunarfraedi.hi.is/hver_er_hraeddur_vid_handalausa_manninn

Harpa Jónsdóttir sagði...

Þetta með hálf (eða heil) lélegu metsölubækurnar væri nú efni í skemmtilega úttekt, er það ekki?

Þórdís Gísladóttir sagði...

Það er búið að reka Hildi og eyða henni af Facebook fyrir að skrifa svona um bókina hans Wallentins - Djók :)