6. desember 2011

Þegar öllu er á botninn hvolft

Tíu ára fann ég upp í hillu hjá pabba gamla gula vasabrotsbók, bandið hélt henni varla saman lengur og ég man að prentlyktin var það sterk að mig kitlaði í nefið, en á kápunni voru gauksklukkur og það var nóg til að fanga athygli mína. Agatha Christie sleppir ekki svo auðveldlega hendinni af þeim ungu lesendum sem hún nær á sitt vald.

Þegar öllu er á botninn hvolft er fyrsta bókin í sex binda seríu eftir kanadíska rithöfundinn Alan Bradley. Sögurnar eiga að gerast á sjötta áratugnum í einu hinna stórhættulegu ensku þorpa sem hafa reynst höfundum sakamálasagna óþrjótandi efniviður. Frásagnarmáti bókanna er mjög í ætt við spennusögur eldri höfunda eins og Agöthu Christie eða Arthur Conan Doyle.

Aðalpersónan er Flavia de Luce, ellefu ára efnafræðingur sem er heltekin áhuga á voveiflegum eiginleikum eiturefna en þekkingu sinni beitir hún á andstyggilegar systur sínar. Hún býr með föður sínum og tveim systrum á herragarði mitt í hinni rómuðu ensku sveitasælu. Móðir hennar hvarf fyrir tíu árum í fjallgöngu í Tíbet og er talin af. Flavia er yfirþyrmandi klár og líklega má segja að hún sé óþolandi „besserwisser“ (eins og klárir ellefu ára krakkar geta sundum verið) en það kemur ekki að sök og maður kaupir alveg persónu hennar í þessum enska sakamálasagnaveruleika.

Plottið er gott og snýst um dásamlega Poirot-ísk umfjöllunarefni, það er frímerki, sjónhverfingar og dauða dvergsnípu. Fuglinn finnst á tröppum herrasetursins og frímerki hefur verið þrætt upp á gogginn. Nokkru síðar finnur Flavia lík í gúrkubeðinu af manni sem hún hafði séð rífast við föður sinn nóttina áður. Þetta sendir Flaviu af stað í æsispennandi eltingaleik þar sem hún berst fyrir því að sanna sakleysi föður síns en nýjar flækjur virðast spretta fram við hvert fótmál (eins og alltaf var sagt í káputextum sakamálasagna í den) og leysist ekki úr fyrr en á síðustu metrunum eins og lög gera ráð fyrir. Það er eitthvað huggulegt við þessa spennu, eitthvað svona Ævintýrabækur-Blyton-kunnuglegt en samt langt frá því að vera gamalt og úr sér gengið.

Bækurnar voru skrifaðar fyrir fullorðna en ég held að ég hefði lesið þær upp til agna á Agöthu Christie árunum mínum.

Helga Ferdinandsdóttir

6 ummæli:

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ég er að lesa bók nr. 2 á ensku núna. Sammála, það er eitthvað huggulegt við þetta - þessi huggulega breska morðstemning (eins fáránlega og það nú hljómar). Ég var einmitt að hugsa um að ég hefði gjörsamlega dýrkað Flaviu þegar ég var svona tólf, þrettán ára.

Nafnlaus sagði...

Já, Bradley er líka duglegur að koma út seríunni. Þar er ekki verið að draga lappirnar. Fyrsta bókin kom út 2009 og nú í nóvember er sú fjórða komin í hardcover: http://www.amazon.com/Am-Half-Sick-Shadows-Flavia-Novel/dp/0385344015/ref=sr_1_1?ie=UTF8&qid=1323248308&sr=8-1
Helga F

Sigfríður sagði...

Ég hefði örugglega elskað þessar bækur sem unglingur - og mun pottþétt gera það líka núna þó unglingsárin séu að baki;) Ætla að finna þær á ensku og leggjast í lestur ...

Harpa Jónsdóttir sagði...

Þetta gæti sem sagt verið eitthvað fyrir unglinginn minn?

Hildur Knútsdóttir sagði...

Mér finnst þessi kápa mjög unglingaleg!

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég hélt að þetta væri barna- eða unglingabók. Kannski er þetta "fjölskyldubók" - svo ég noti orð Kristínar Helgu Gunnarsdóttur.