24. desember 2011

Fegursta líkið

Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar eftir Pál Björnsson var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár í flokki fræðibóka. Og hvenær er betri tími til að rabba aðeins um Íslandssöguna en þegar maður er andvaka af eyrnaverk í vaxandi stormi klukkan fimm á aðfangadagsmorgun, vonandi að íbúfenið og sýklalyfin fari að kikka inn?

Ég var grínlaust búin að hlakka frekar mikið til að þessi bók kæmi út. Ég hef heyrt Pál fjalla um efnið, meðal annars á bráðskemmtilegu málþingi um Jón Sigurðsson á Skagaströnd síðasta haust, og það verður að segjast að þessi bók lítur allavega út fyrir að vera miklum mun skemmtilegri og ferskari en Jónsbókin sem fylgdi Skírni um daginn (Jón Sigurðsson – hugsjónir og stefnumál). Kannski er það bara vegna þess að mér þykir Jón Sigurðsson sem þjóðhetja og táknmynd miklu áhugaverðari en hugsjónir og stefnumál Jóns í lifanda lífi – þarf að ræða það mikið frekar? Eða jú, það er eins gott að hægt sé að ræða það frekar, til að prófessorinn í Jónsembættinu sem Alþingi hefur prangað inn á Háskóla Íslands hafi nú eitthvað að gera þar til hann verður emeritus.

Það má kannski kalla Jón forseti allur? eins konar ævisögu, nema hvað hún hefst við andlát Jóns árið 1879 og rekur ævi hans sem þjóðhetju til okkar daga. (Ég má til með að hrósa titli bókarinnar, sem Páll segir í eftirmála að sé kominn frá Jóni Karli Helgasyni.) Fjallað er um umstangið kringum útför Jóns og fyrstu merki um uppbyggingu þjóðhetjuímyndar hans, söfnun húsgagna og hluta úr fórum hans í varðveisluskyni, tilraunir margvíslegra og fjölbreytilegra pólitískra afla fyrr og síðar til að eigna sér ímynd Jóns og gera hann að hluta af sinni baráttu (Uppkastið, ESB, og svo framvegis), hlutverk Jóns á aldarafmælinu 1911 og við lýðveldisstofnunina 1944, þróun 17. júní sem þjóðhátíðardags, Jónstengda uppbyggingu á Hrafnseyri og stöðu Jóns sem táknmyndar í dag. Bókin byggir á fræðilegum grunni og í lokakaflanum er efni hennar í stuttu máli tengt kenningum fræðimanna á borð við Pierre Nora, Ernest Renan og Anthony D. Smith um minni og sköpun þjóða, en annars er teorísk umfjöllun lítil sem engin. Bókin er greinilega ætluð hinum almenna áhugasama lesanda og er mjög aðgengileg. Þetta er heldur enginn ævisögudoðrantur, ekki nema 250 síður. Stíllinn hefði alveg mátt vera aðeins blæbrigðaríkari stundum en textinn rennur samt ágætlega.

Ég held að ef maður hefur áhuga á efni bókarinnar á annað borð hljóti manni að finnast hún skemmtileg aflestrar. Mér fannst allavega virkilega gaman að fræðast um allt það sem Íslendingum hefur dottið í hug að klína upp á Jón gegnum tíðina og hvernig hann hefur verið hylltur og notaður í margvíslegasta tilgangi. Það er ekki síst áhugavert að sjá hvað þetta byrjaði snemma, eða nokkurn veginn um leið og maðurinn skildi við; til notkunar hans í nútímanum þekkir maður betur.

Frásögnin er líka krydduð á ýmsan hátt. Brot úr mörgum heimildum á borð við ræður, ljóð og greinar eru birtar í sérrömmum – hefðu jafnvel mátt vera færri í fyrri hluta bókarinnar, mig var hálfvegis farið að svima af yfirgengilegu lofinu um Jón sem fyrir nútímamanninum hljómar náttúrulega eins og argasta háð (fyndnust fannst mér sú athugasemd eins Hafnarstúdentsins að hann hefði aldrei séð fegurra lík). Einnig er til dæmis birt skrá yfir þá muni Jóns sem Tryggvi Gunnarsson keypti eftir dauða hans, en þar á meðal voru tannstöngull og eyrnaskefill úr gulli og uppstoppaður kanarífugl (mynd af eyrnaskeflinum fylgir sögunni). Margar skemmtilegar myndir er að finna í bókinni og hefðu sumar af spássíumyndunum mátt vera stærri til að þær fengju að njóta sín; ég nefni myndina af úkraínska innflytjandanum að gera við styttu Jóns Sigurðssonar í Winnipeg á bls. 136 og ljósmyndirnar tvær af merkilegu minnismerki um Jón á Ólafsvíkurenni á bls. 120, en það útbjuggu tveir Ólafsvíkingar þann 17. júní 1911 eftir að hafa gengið á Ennið með hrærða steypu í fötu.

Höfundur bókarinnar lét gera könnun á afstöðu Íslendinga í dag til Jóns Sigurðssonar og niðurstaðan er að meirihluta þjóðarinnar þyki hann enn vera mikilvægt sameiningartákn, þótt yngri kynslóðin sé aðeins áhugaminni. Páll bendir á í því samhengi að Jón hafi reynst fremur sveigjanlegt sameiningartákn, margir hópar hafi getað samsamað sig honum gegnum tíðina og aldrei hafi staðið mikill styr um hann líkt og um sum sameiningartákn erlendis. Til dæmis sé ekki mælanlegur munur á viðhorfi kynjanna til Jóns þrátt fyrir það hversu karllægt tákn hann var allavega upphaflega, og konur hafi tekið að nýta sér Jón á svipaðan hátt til að koma stefnumiðum sínum á framfæri og karlahópar gerðu áður, til dæmis með því að klæða hann í bleikt. Það bendi til þess að Jón sé enn tákn sem skipti máli og sé hlaðið merkingu. Þessi kynjavinkill er með því ánægjulegasta í bókinni, en hann er sínálægur og þannig sýnir Páll í verki fram á það hvernig hægt er að gera það sem sumir kalla að „skrifa konur inn í söguna“: í stað þess til dæmis að segja um minnisvarðann í Hólavallagarði „Jón var á honum“ er hægt að segja „Jón var á honum, en ekki Ingibjörg“. Það getur svo margt falist í fjarverunni.

Eins og áður segir bjóst ég fyrirfram við meiri doðranti í smærra broti, í anda ýmissa annarra stórmennaævisagna. Ég bjóst líka við fræðilegra verki, með meiri áherslu á teorískt samhengi. Síðarnefnda bókin hefði getað verið beittari sem gagnrýni á þjóðríkishugmyndina. En eftir á að hyggja er afar jákvætt að bók sem að nokkru marki afbyggir þjóðhetju, segir frá andlegri uppbyggingu þjóðríkisins á hæfilega gagnrýnan máta og gerir það að auki með ólíka stöðu kynjanna í huga, sé svona aðgengileg og skrifuð fyrir alla sem hafa áhuga á sögunni. (Eftir á að hyggja hljóma ég hér eins og pólitískur áróðursmaður, en það verður að hafa það.)

3 ummæli:

Siggi Pönk sagði...

TAkk fyrir þetta. Fékk áhuga á að lesa þessa bók eftir þína umfjöllun, en sá áhugi var ekki til staðar fyrir. Batakveðjur.
Siggi Pönk

Nafnlaus sagði...

Hljómar vel. Ég bíð einmitt spennt eftir að lesa þetta og vona að bókin leynist í einum jólapakka!
kv. Sunnefa

Kristín Svava sagði...

Takk Siggi - þetta er allt að koma! Og ég er ánægð með að geta plöggað Jóni/Páli, mjög fín bók.